Són - 01.01.2006, Blaðsíða 156
156 AÐALHEIÐUR GUÐMUNDSDÓTTIR
eftir Inger Hagerup og ljóðin „ Jöklasóley“ og „Ævintýri“ eftir Olav
H. Hauge og birti í Són 3. Garðar Baldvinsson þýddi „Draugaveiki“
eftir Louis Alberto Urrea og birti í ljóðabók sinni höfðaborg (GB út-
gáfa). Þá var ljóðaþýðing Þorsteins Gylfasonar „Morgunsöngur:
handa Sigfúsi Halldórssyni“ eftir Ruggiero Leoncavallo endurprent-
uð í Mími 44 og þýðingar hans „Páskaliljur“ eftir William Words-
worth, „Vegur við sjó“ eftir Jean Anouilh og „Nöfnin á köttum“ eftir
Thomas Stearns Eliot birtust í Ritinu 5. Þá voru ljóðaþýðingar birtar
í Morgunblaðinu og eru mér minnisstæð ljóð eftir írska þjóðfræðinginn
Daíthí Ó hÓgáin og sænskan kollega hans Bengt af Klintberg, en ljóð
þeirra voru lesin á frummálinu sem og íslensku í Norræna húsinu
þann 14. júní í tengslum við keltnesk-norræna-baltneska þjóðfræði-
ráðstefnu.
Í skýrslu þessari skal einungis gripið niður í tvær ljóðaþýðingar,
Sígaunaljóð eftir Federico García Lorca (Kristján Eiríksson þýddi) og
Brjálsemiskæki á fjöllum eftir Po Chü-i (Vésteinn Lúðvíksson þýddi).
Hvor tveggja útgáfan er vönduð og í formálum þýðenda er að finna
fróðleik um skáldin tvö og verk þeirra; ljóðum Lorca fylgja þar að
auki ítarlegar skýringar aftan við. Sígaunaljóðum Lorca er skipt niður í
tvo hluta, 1) „Sígaunaljóð“ og 2) „Þrjár söguþulur“. Kristjáni Eiríks-
syni tekst vel upp í þýðingum sínum sem eru að jafnaði hljómmiklar
og bera þekkingu hans á lögmálum bragfræðinnar gott vitni. Heimur
Lorca getur þó verið byrjendum heldur torræður og koma þá skýr-
ingarnar að góðu gagni. Einungis eitt ljóð, „Eiginkonan ótrúa“ (bls.
34), þarfnast ekki útskýringa og felur í sér heitar ástríður með spaugi-
legum undirtóni.
Í ljóðabók Po Chü-i, Brjálsemiskækir á fjöllum, er að finna einstakar
mannlífsmyndir þar sem hvert ljóð er í raun heill og framandi heimur.
Að vísu eru ljóðin misjöfn; sum hreyfa við en önnur ekki. Í þýðingu
Vésteins Lúðvíkssonar verða þessi ljóð, sem ort eru í Kína á 9. öld, í
raun tímalaus og þótt hinn íslenski lesandi viti svo sem vel að þau eigi
að gerast í Austurlöndum til forna er ég viss um að ljúga mætti að
mörgum að þau hefðu verið ort í gær, jafnvel á Íslandi. Tímaleysi
ljóðanna kemur til að mynda vel í ljós þar sem höfundur dregur upp
ákaflega einfaldar myndir af kunnuglegum – og viðkunnanlegum –
aðstæðum, en slík ljóð sýna okkur að skynjun manna og upplifun
þeirra af náttúrunni og hversdeginum hefur verið með líku móti önd-
verðum megin á hnettinum fyrir rúmum tug alda og á norðlægum
slóðum árið 2005. Gott dæmi um þetta er örstutt ljóð sem ber heitið
„Nætursnjór“ (bls. 44):