Són - 01.01.2006, Page 66
HJÖRTUR MARTEINSSON66
verði til þess að dýpka skilning lesandans á ljóðinu eða skapa í huga
hans frumlegri sýn á viðfangsefnið:
Ég sé þig máske aldrei, aldrei framar,
en eldur logar nú í minni sál,
úr frosti’ og myrkri bjart er orðið bál
sem brennir, vona’ eg, alt sem nú mig lamar.
Þín augu horfðu’ í mín, eg man það mál,
af mildi snart þín hönd mig, mér í lundu
skarst djúpt sem læknandi, leifturþrungið stál.
Er spámennirnir forðum gengu’ um grundu
menn gengu’ í hópum til að sjá og reyna,
hvort blessun fengi og bætur sinna meina
bara’ af að snerta þá – og líkn þeir fundu.
Þeir sáu og trúðu, og heim gekk karl og kona
af krafti þeirra læknuð – síðan eigi
fengu þeim grandað lífsins sorgir samar, –
svo er með mig, nú voga ég að vona
að verði’ eg frjáls og byrja á ný eg megi,
þó sjái ég þig aldrei, aldrei framar.
Í Svörtum fjöðrum Davíðs Stefánssonar er að finna ljóðið Nú finn ég angan
og virðist sem bragarháttinn sverji sig að einhverju leyti í ætt við
ítölsku sonnettuna. Það ber þó að hafa í huga að Davíð hefur fellt úr
kvæðinu annan kvartettinn eða fjórar braglínur sem ættu að mynda
síðari hluta átthendunnar. Rímskipan er þó með allmiklum brigðum
miðað við hina hefðbundnu Petrarca-sonnettu. Byggingin er hér þó
mjög rökleg þar sem lokalínan dregur saman efni fyrsta erindisins á
hnitmiðaðan hátt:
Nú finn ég angan löngu bleikra blóma,
borgina hrundu sé við himin ljóma,
og heyri aftur fagra, forna hljóma,
finn um mig yl úr brjósti þínu streyma.