Són - 01.01.2006, Page 90
JÓN SIGURÐSSON90
leikur málið aftur á móti þýðlega við braginn og myndirnar sem upp
er brugðið. Mjög mörg kvæða hans eru frásagnarkvæði. Kolbeini er
tamara að kveða orðum að beinum lýsingum, beinni frásögn, hug-
leiðingu eða boðun heldur en að hnýta flókinn ljóðrænan mynd-
vefnað og trúlega mun athugulum lesanda þykja hann ná hæst og
lengst þar sem mál og bragur eru algerlega einföld, fábrotin og einlæg.
Þetta sést ekki síst þar sem hann yrkir um landið, veður, árstíðir og
dýrin.
Dæmi má sjá um kvæði sem eru óþarflega löng, prýðiskvæði sem
eru „sködduð“ af einu eða tveimur erindum sem greinilega hefur ekki
verið unnið fyllilega að. Kolbeinn var sagður mjög hraðkvæður enda
talandi hagmæltur og er sagt að hann hafi trúað því að hann yrði að
reyna að fylgja innblæstrinum meðan hann gæfi. Stundum á hann að
hafa hlaupið inn í bæ frá verki, hamast við að skrifa á næsta blað við
höndina þar og stokkið svo út aftur til að ljúka útiverkunum. Sums
staðar örlar á því að Kolbeinn hafi ekki gert það upp við sig hvort
hann ætlar kvæðinu að verða skáldskapur fremur en hag-mælska og
yfirleitt verður að telja að hann hafi varla sett sér einbeittan metnað
til að skara fram úr – kveðskapur hafi verið honum svo inngróinn og
eðlilegur tjáningarháttur og útrás og honum jafnvel á móti skapi að
setja sig í einhverjar sérstakar „uppskrúfaðar“ stellingar.
Í bókum Kolbeins eru mörg kvæði og vísur sem eru svo gjörtengd
atviki, afmæli, dauðsfalli, almennum umræðum eða öðru slíku að þau
ná ekki út eða upp fyrir tilefnið sjálft. Svipuðu máli gegnir um kvæði
og vísur sem eru umfram annað bragþrautir í hefðbundnum stíl.
Þetta þótti vel við hæfi á fyrri tíð en fæst slíkra verka standast tímans
tönn.
V
Hugarheimur Kolbeins Högnasonar mótaðist af þjóðrækni alda-
mótakynslóðarinnar og af hugmyndum um blómlega sveitamenningu
og landbúnaðarsamfélag í skauti náttúrunnar. Trúarhugmyndir hans
voru mótaðar af þeirri umburðarlyndu kristni og alþýðlegu kirkju-
stefnu sem Magnús Helgason og fleiri boðuðu ungu fólki á sínum
tíma. Magnús mun hafa haft afgerandi almenn og persónuleg áhrif á
Kolbein í skóla. Kvæði Kolbeins og vísur óma af skoðunum og hann
hefur talið það eðlilegt meginhlutverk skáldskapar að flytja boðskap