Són - 01.01.2006, Page 115
Einar Jónsson
„ ... en eygir hvergi fjallið sjálft“
Í þessu greinarkorni er fjallað um ljóðið „Mörleysur“ eftir Stefán
Hörð Grímsson.
Útkoma ljóðabókar Stefáns Harðar Hliðin á sléttunni,1 árið 1970,
vakti athygli í heimi bókmenntanna. „Mörleysur“ er næstsíðasta ljóð
bókarinnar, það fimmtánda af sextán ljóðum hennar.
Ólafur Jónsson bókmenntafræðingur ritaði skömmu eftir útkomu
bókarinnar gagnrýni og tók henni vel. Í lokaorðum ritdómsins segir
hann: „Hliðin á sléttunni er verk fullveðja frumlegs skálds, furðulega
fjölbreytt og efnismikil þó hún sé lítil, bók sem áreiðanlega kallar á
nánari kynni – „dögunin á bak við morguninn“ sem hún lýsir.“2
Ekki eru öll ummæli Ólafs eins vel til fundin og þessi. Hann nefnir
ljóð í bókinni („Eindaga“, „Síðdegi“, „Þrettán gular ein svört“) sem
hann segir „lýsa einkennilega jafnvægri, eindreginni bölhyggju. Skáld-
ið horfir við heimi sem á sér enga von, veitir engra kosta völ, og lætur
sér á sama standa.“ 3 Það hlýtur að vera ofmælt að fullyrða að þetta
muni vera viðhorf skáldsins sjálfs. En hugsanlega mætti eigna þau
mælandanum í einhverju nefndra ljóða.
Um efnivið ljóðanna nefnir Ólafur tvenns konar viðfangsefni:
ljóðið sjálft og náttúruna. Sem dæmi fyrra viðfangsefnisins nefnir
hann ljóðin „Eter“, „ Játning“ og „Heyannir“. Síðan segir hann:
Náttúrumyndir virðast [...] uppistöðuþáttur í ljóðmáli Stefáns
Harðar, ljóða sem alls ekki fjalla um náttúru, landslag hlut-
lægum hætti heldur tjá huglægan veruleik, skáldheim sem
sumpart að minnsta kosti er reistur í vísvitaðri andstöðu við
raunheim. Síðasta ljóð bókarinnar, Fjöll, um fjallið Laufsali sem
hvergi finnst nema í spegli Laufsalavatns, lýsir þessu viðhorfi í
1 Stefán Hörður Grímsson (2000:63–86).
2 Ólafur Jónsson (1979:96).
3 Ólafur Jónsson (1979:95).