Són - 01.01.2006, Side 149
149LJÓÐ 2005
Við annan tón kveður í áttundu ljóðabók Margrétar Lóu Jóns-
dóttur sem ber heitið Tímasetningar. Þema bókarinnar er hið yfir-
þyrmandi fréttaflóð sem við búum við og þar með stöðugar stríðs-
fregnir utan úr heimi. Þessar fréttir eru áleitnar, eins og við könn-
umst öll við, en eru þó engu að síður hluti af samtímanum og því
áreiti sem við verðum fyrir dags daglega. Í bók sinni svarar höfund-
ur áreitinu með því að flýja út í náttúruna í ákveðna draumaveröld í
suðri; mótspilið gegn heimsástandinu eru ólífur, kirsiber og narsiss-
ur, kvenlægur heimur gegn karllægum. Ljóð sem mig langar til að
nefna eru prósaljóð um gamla konu og ljóð um réttarhöld yfir fanga-
verði. Fyrra ljóðið (bls. 17) fjallar um gamla konu á elliheimili sem
elskar lífið. Sá sem færir henni vatn og lyf og dregur gluggatjöldin frá
á morgnana er svartur. Á meðan gamla, jákvæða konan segist fagna
nýbúum dregur höfundur upp mynd af algjöru samskiptaleysi.
Starfsmaður elliheimilisins, nýbúinn, er stundvís eins og klukka en
ópersónulegur og utan við sig. Bilið á milli gömlu konunnar og
nýbúans er líklega jafn breitt og vegalengdin milli Íslands og Afríku.
Þetta ljóð snertir mann í einfaldleika sínum, sem og ljóðið um fanga-
vörðinn (bls. 27):
Ég er ekki hinn fullkomni hermaður, sagði fangavörður
(sem einnig var liðþjálfi) og iðraðist gjörða sinna
Játaði sig sekan um að hafa trampað á fingrum og
fótum handjárnaðra fanga og hent sér ofan á þá af fullum
þunga
Grimmilegt og aumingjalegt, sagði saksóknarinn
af miklum þunga
Þetta ljóð virkar svolítið eins og blaut tuska framan í lesandann;
hreinskilið, umbúðalaust og án lausna. Oftar en ekki býður Margrét
Lóa þó upp á svör og sýnir okkur að ef við getum ekki sætt okkur við
veröldina eins og hún er þurfum við bara að leita griðastaða. Hið
sama á ekki við um bók Geirlaugs heitins Magnússonar, andljóð og
önnur, þar sem ákveðin depurð ræður ríkjum. Heimssýn höfundar er
þar gjarnan með þunglyndislegum blæ, þrá eftir flótta og ber vott um
upphafningu ímyndunarinnar á kostnað „raunveruleikans“. Dæmi
um þetta er ljóð nr. 27, sem er í senn kaldhæðið, hnyttið og þungt,