Són - 01.01.2006, Síða 150
150 AÐALHEIÐUR GUÐMUNDSDÓTTIR
hvernig svo sem slíkt má vera. Víða má þó finna frumlegar myndir,
einkum í einföldum ljóðum, þar sem ein líking getur fengið mann til
að leiða hugann að svo ótal mörgu, svo sem í ljóði nr. 9:
Á gráum himni
glittir í
blátt auga
eitt og
þreytulegt
guðs auga
Þótt höfundur virðist ósáttur við margt í hinu daglega lífi gætir
ekki uppreisnaranda í ljóðum hans heldur fremur uppgjafar eða von-
leysis. Eftirtektarverð eru einnig ljóðin nr. 14 og 24 í fyrri hluta
bókarinnar („andljóð“) og ljóðin „Ferðaþrennur“ og „Vonarblóm“ í
síðari hlutanum („og önnur“). Þessi tvö síðastnefndu eru afar sterk;
„Ferðaþrennum“ mætti líkja við tilfinningalegan rússíbana og ljóðið
„Vonarblóm“ er beinlínis átakanlegt. Styrkur bókarinnar felst í heild-
aráhrifum hennar og ekki er víst að ljóðin nái að vekja jafnsterkar til-
finningar hvert um sig. Þetta er bók fyrir fólk sem þorir að róta upp
í spariskapinu og hætta sér niður í undirdjúpin.
Ljóðabók Njarðar P. Njarðvík, Aftur til steinsins, er fáguð og mjög
jöfn að gæðum. Ljóðabálkurinn „Veistu eitthvað um vindinn?“ – líkt
og bókin reyndar öll – sýnir hversu þroskað skáld Njörður er og
öruggur í orðlist sinni. Þótt fullyrða megi að öll ljóðin í bókinni séu
góð má ef til vill segja að höfundi takist best upp í hinum persónu-
legri ljóðum eða þar sem hann lýsir atburðum sem hafa greinilega
orkað sterkt á hann sjálfan. Ljóðin „Hlusta með hendinni“ (bls. 24)
og „Ásókn“ (bls. 25) eru dæmi um ljóð með djúpri tilfinningu.
Hallberg Hallmundsson sendi frá sér safn af hækum, alls 250,
undir titlinum Baggar skoplitlir. Ekki verður annað sagt en að bókin sé
hin skemmtilegasta lesning þótt hækurnar séu að vísu misjafnar. Hæk-
an er afar knappt ljóðform og samanstendur af þremur vísuorðum
þannig að hvert ljóð er eins og örlítið myndbrot sem orkar þó oft að
kveikja enn stærri hugrenningar. Þær hækur sem mér þótti standa upp
úr eru númer 14, 16, 40, 74, 87, 100, 173, 183 og 206, að ógleymdum
hækum númer 44 og 217: