Són - 01.01.2006, Page 164
AÐALHEIÐUR GUÐMUNDSDÓTTIR164
Torfhildur, félag bókmenntafræðinema við Háskóla Íslands, bætti þó
um betur og bauð upp á Ljóðamálþing bókmenntafræðinema þann
11. nóvember. Fyrirlesarar voru þau Emil Hjörvar Petersen, Sölvi
Úlfsson, Berglind Ýr Sveinbjörnsdóttir, Benedikt Hjartarson, Davíð
Stefánsson og Valur Brynjar Antonsson. Athygli vekur að helmingur
fyrirlesara kom einnig við sögu á ljóðahátíð Nýhils. Efni málþingsins
var fjölbreytt og að kvöldi dags var boðið upp á ljóðaupplestur á
skemmtistaðnum 22.
Auk þeirra málþinga sem nú hafa verið nefnd mætti geta um fyrir-
lestur sem haldinn var í Norræna húsinu á fæðingardegi Sigurðar
Nordals, þann 14. september. Fyrirlesarinn á þessum árvissa viðburði
var Ingibjörg Haraldsdóttir sem flutti erindið „Ljóð gripin sem hálm-
strá“. Í stuttu viðtali í Morgunblaðinu telur Ingibjörg að fyrst og fremst
vanti umræðu um ljóð og skáldskap. Hún talar um fordóma gegn
ungum skáldum og segir að til sé fólk sem talar um að skáld nú til
dags kunni ekki að yrkja og að ljóð þeirra séu ómöguleg. Sjálf telur
hún að fólk ætti ekki að skrifa nöldurpistla heldur einfaldlega lesa það
sem höfðar til þeirra. „Ljóðið ratar til sinna,“ sagði Þorsteinn frá
Hamri einhverju sinni og telur Ingibjörg það vera orð að sönnu.10
Spekin að baki þessum orðum hlýtur fyrst og fremst að eiga að felast
í því að ljóðaunnendur beri sig sjálfir eftir ljóðunum og þar af leiðandi
þeirri „tegund“ ljóðlistar sem höfðar til þeirra. Verið getur að Þórarni
Eldjárn finnist þetta endurspegla nokkurt lítillæti ljóðskálda og það
viðhorf að ljóð þurfi ekki að markaðssetja þar sem hann kastar fram
stöku um málið í hinni nýju ljóðabók sinni. Þessi staka ber heitið
„Hagmælisgrey um ljóðið“ (bls. 26) og hljóðar svo:
Víst er það löngu ljóst og bert
að ljóðið ratar til sinna.
Samt finnst mér ekki einskisvert
að ýta því líka til hinna.
Sem sagt ljóðið þarf að kynna. Af þeim sökum hafa ljóðskáld, líkt
og aðrir rithöfundar, verið iðin við að lesa upp úr verkum sínum,
enda ekki vanþörf á að vekja athygli á ljóðabókum, sem oft og tíðum
liggur mikil vinna að baki. Skipulögð jafnt sem óskipulögð ljóðakvöld
og annars konar vettvangur fyrir ljóðaupplestur hafa eflaust verið ófá
á síðasta ári og mætti nefna framtak Mikes Pollock sem skipulagði
10 Ingibjörg Haraldsdóttir (2005:37).