Málfregnir - 01.12.1990, Blaðsíða 6

Málfregnir - 01.12.1990, Blaðsíða 6
Málræktin, umheimurinn og þjóðarkakan Allt er í heiminum hverfult, og tímarnir breytast. Þróun heimsstjórnmálanna á undanförnu einu ári hefur gjörbreytt heimsmyndinni, og áður en járntjaldið hvarf hafði lengi stefnt í meiri samein- ingu Evrópu, og alþjóðahyggju hefur stórlega vaxið fiskur um hrygg. Við hljótum t.a.m. að spyrja okkur hvort e.t.v. hafi átt sér stað einhverjar grund- vallarbreytingar á málstefnunni eða for- sendum hennar með tilkomu hugmynd- arinnar um sameinaða eða stærri Evrópu. Hvernig fer fyrir íslenskri menningu þegar og ef innleitt verður hið fjórþætta frelsi Efnahagsbandalags og Evrópu- bandalags þannig að fjármagn, fólk, vör- ur og menning fá að streyma óhindrað hingað? Ég átti ekki alls fyrir löngu tal við hag- fræðing sem er áhrifamikill í viðskiptalíf- inu og hugsandi maður. Við ræddum um gildi og stöðu íslenskrar menningar í nú- tíma heimi sem virðist ótrúlega efnis- hyggjusinnaður. Ég hélt því fram að menningarlegt sjálfstæði íslendinga, sem byggist á tungunni, væri eða hefði a.m.k. verið forsenda fyrir efnalegri velmegun Islendinga. I sjálfstæðisbaráttunni hefði menningarleg sérstaða okkar verið talin þungvægasta röksemdin fyrir sjálf- stæðinu og með sjálfstæðinu kæmu efna- legar framfarir. Og kannski myndu sum- ir segja að endanlegur sigur, eða a.m.k. stórsigur í sjálfstæðisbaráttunni, hefði unnist þegar við fengum yfirráð yfir fiskimiðunum. Menningarlegt sjálfstæði leiðir til efnalegs sjálfstæðis, hugsaði ég, og taldi að þetta væri í raun rauði þráð- urinn í hinni eilífu sjálfstæðisbaráttu okkar. Viðmælandi minn var á annarri skoð- un, og kom mér á óvart. Hann hélt því fram að menningarlegt sjálfstæði væri munaður sem við ættum að geta leyft okkur á grundvelli efnalegrar velmegun- ar. Hann taldi að frumskilyrðið væri efnahagurinn, og hinn menningarlegi blómi kæmi þar á eftir, og væri það í raun undir okkur sjálfum komið hvernig við nýttum hið efnalega frelsi til menningarlegs munaðar, eins og þess að halda uppi sérstakri þjóðtungu og við- halda bókmenntaarfi. Þessi umræða varð mér mjög minnis- stæð, einkum vegna þess að viðmælandi minn var rökfastur og vildi vel, og ef hann hefur rétt fyrir sér er e.t.v. ástæða til að hugsa upp á nýtt grundvallar- forsendurnar fyrir íslenskri málpólitík. Hvernig fer fyrir íslenskri málstefnu ef hún hefur ekki þann pólitíska bakhjarl að vera kjarninn í íslenskri sjálfstæðis- baráttu? Er rétt að það sé einungis menningar- legur munaður að tala íslensku, rétt eins og það er menningarlegur munaður að ganga í fínum fötum eða eiga falleg og dýr listaverk? Hvernig fer fyrir menn- ingarþjóðinni þegar hún telur sig ekki lengur hafa efni á því að eiga sérstaka menningu? í næstu efnahagskreppu kemur kannski útreikningur um það að nú sé of dýrt að viðhalda íslenskum menningarsérkennum og það sé ódýrara að taka erlenda menningu á leigu, eða án nokkurs endurgjalds, gegnum kapal- kerfi og gervitungl, rétt eins og ekki dug- ir að kaupa fínt málverk þegar illa árar í fjármálum. Þessi fræga þjóðarkaka er þá e.t.v. upp étin áður en kemur að menningunni. Með þessari röksemd væri kannski hægt að kveða niður allar hugmyndir um viðhald íslenskrar menningar og tungu, og þar með væru menn lausir við allt sem kennt er við málhreinsun, málvöndun, málrækt eða hvað þetta nú heitir allt saman. Eftir á að hyggja hefur kannski hvor- ugur okkar, ég eða viðmælandi minn, haft rétt fyrir sér, og ég e.t.v. enn síður en hann. Skyldi það ekki vera allt of langsótt röksemdafærsla að segja við 6

x

Málfregnir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Málfregnir
https://timarit.is/publication/1146

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.