Málfregnir - 01.12.1990, Blaðsíða 5
KRISTJÁN ÁRNASON
*
Islensk málrækt
á því herrans ári 1990
Eríndi flutt í Háskólanum á Akureyri 10. nóvember 1990
Rökin fyrir málræktarstarfinu
Á þessum síðustu tímum, sem bera að
því er virðist æ meiri keim af alþjóða-
hyggju, er mikil ástæða til þess að velta
fyrir sér málpólitískum spurningum.
Baldur Jónsson ræðir um forsendur ís-
lenskrar málverndar í grein sem nefnist
„íslensk málvöndun" og birtist í síðasta
hefti Málfregna (4. árg., 1. tbl.). Hann
minnir á að löngum sé svo talið að
sjálfstæðisbarátta smáþjóðar sé ævar-
andi og að það fari ekki á milli mála að
íslendingar vilji „halda áfram að vera
sérstök og sjálfstæð þjóð í sínu eigin
landi“ (bls. 8), og síðan segir hann á
sama stað: „Þessi eindregni þjóðarvilji
er það bjarg sem íslensk málvöndun-
arstefna hvílir á.“ Hann bendir réttilega
á að málefni íslenskrar tungu eru hápóli-
tískt mál, enda hafi stjórnmálaflokkarnir
allir skilgreint stefnu sína í þessum efn-
um, og allir á eina lund. í stefnuskrám
flokkanna er notað orðalag eins og að
„varðveita" eða „standa vörð um ís-
lenska tungu“. Þessi grein Baldurs er
nær óbreytt erindi sem hann flutti fyrir
átján árum, árið 1972. Nú er árið 1990,
og megum við e.t.v. velta því fyrir okkur
hvort einhverjar breytingar hafi orðið á
þeim forsendum sem Baldur lýsir.
Ekki er að sjá að stjórnmálamenn hafi
misst áhugann á málefnum íslenskrar
tungu. Skemmst er að minnast mál-
ræktarátaks menntamálaráðuneytisins
1989 sem lauk með skýrslu, dagsettri 30.
nóvember fyrir tæpu ári. í inngangi að
skýrslunni er greint frá ástæðunum fyrir
því að ráðuneytið gekkst fyrir átakinu.
Þar segir að margir hafi nú vaxandi
áhyggjur af íslenskri tungu, og talin eru
upp ein sex aðaláhyggjuefni (bls. 7):
a. Þjóðfélagshættir, sem tungan er svo mjög
bundin, hafa breyst og ungt fólk í nútíma-
borgarsamfélagi virðist eiga í erfiðleikum
með að tileinka sér hefðbundinn íslenskan
orðaforða, orðtök, málshætti, talshætti
o.fl.
b. Æ fleiri sækja menntun til annarra þjóðfé-
laga og tileinka sér starfsreynslu á erlend-
um málum og orðaforða þar að lútandi.
c. Fjölmiðlun eykst að umfangi og hún verð-
ur sífellt alþjóðlegri, og erlendar stöðvar
skjóta rótum.
d. Mjög einhæfur og sterkur straumur berst
frá enskri tungu og menningu.
e. Móðurmálskennsla virðist ekki skila jafn-
góðum árangri og vænta mætti.
f. Starfshættir og viðhorf þeirra sem mest
hafa beitt sér í málræktarstarfi virðast ekki
eiga greiða leið að ungu fólki.
Hér virðist kveða við svipaðan tón og
áður, að ýmsu leyti að minnsta kosti.
Breytingarnar valda áhyggjum; óttast er
að enskan verði of sterk. Fleiri og fleiri
sækja menntun til annarra landa o.s.frv.
Málræktarstarfsemin er og verður íhalds-
söm. Hún leitast við að varðveita íslenska
tungu og halda henni lausri við erlenda
orðstofna, er með öðrum orðum sama
hreintungustefnan og hún hefur löngum
verið. Eða hafa forsendur eitthvað
breyst?
5