Skírnir - 01.01.1949, Blaðsíða 10
8
Einar Ól. Sveinsson
Skírnir
greina hana frá öðrum konrnn, sem verður honum að yrkis-
efni, heldur miklu fremur „das ewig Weibliche", sem mætir
honum í líki hennar á vissum tíma ævinnar. Og mætir hon-
um í líki kvenna, sem heita öðrum nöfnum, í annan tíma.
En hverfum nú aftur að ævi Goethes. Sextán ára gamall
er hann sendur til háskólans í Leipzig til að nema lögfræði,
en i stað þess yrkir hann og teiknar og skemmtir sér og svall-
ar. Eftir þriggja ára dvöl fær hann blóðspýting og er fluttur
heim dauðveikur.
Hann er nú heima í ár og batnar vel — yfirleitt var Goethe
alla tíð hraustur maður; þau veikindi, sem hann fékk, voru
vanalega skammvinn, en áköf. Hann hafði gott af að fá þetta
glóðarauga eftir léttúðina í Leipzig; nú hneigðist hugur hans
inn á við og hugsun hans dýpkaði. Hann las ýmiss konar dul-
speki, sem að minnsta kosti kom honum að gagni í Faust,
og hann gerðist trúhneigðari. En hann var ungur maður, og
með afturbatanum birtist honum veröldin enn sem ný. Nú
var hann sendur til háskólans í Strassbm-g, og lauk hann þar
laganámi sínu; hann hefði átt að verða dr. juris, en vegna
þess, að hann hafði tekið upp í ritgerð sína skoðanir frá
Rousseau, úr Contrat social, sem þóttu hættulegar, varð hann
að láta sér nægja titilinn licentiatus juris, en það gerði raunar
minnst til, því að menn titluðu svo glæsilegan ungan mann
upp á við. Nú gat hann farið að sinna lögfræðistörfum í Frank-
furt að ósk föður síns og undir handleiðslu hans. En raunar
var hugur hans allur annarstaðar, skáldgáfa hans náði þroska
á þessum árum. f Strassburg hafði hann komizt í kynni við
Johann Gottfried Herder, sem opnaði honum nýjan heim í
skáldskapnum. Um þessar mundir drottnaði hinn svo nefndi
franski klassicismi í bókmenntum víða í Evrópu; margt gott
er um hann að segja í upphafi í heimalandi hans, en hann
var, þegar hér var komið sögu, tekinn að gamlast og orðinn
steingerður, og í öðrum löndum varð úr stæling, meira eða
minna ónáttúrleg. En Herder vísaði Goethe á frumlegri skáld-
skap, sem stóð nær náttúrunni og þjóðinni, sem skapaði hann.
Nú drakk Goethe í sig kvæði Hómers, þjóðkvæði fyrri alda,
kveðskap Macphersons, sem kennd eru við Ossían; augu hans