Skírnir - 01.01.1949, Blaðsíða 21
Skímir
Goethe tvöhundruð ára
19
orðið „frelsi“ á vörunum, en deyja þó; umhverfið varð hon-
um yfirsterkara. Á efstu árum Goethes er bersýnilegt, að
hugur hans snýst enn mjög um þjóðfélag sitt, og má vel sjá
það í sumum síðari köflum í Wilhelm Meister. Það hygg ég
ekki ofmælt, að hann sjái, hve óhæft aðalsveldið er. Þó að
hann kunni ekki að meta lýðræði í venjulegum skilningi, þá
dregur nýi tíminn hann að sér með ómótstæðilegu afli, það
er verksins öld. Þetta er líka augljóst í sumum köflunum í
Faust. Ef til vill mætti orða þetta svo, að það sé ekki stjórnar-
byltingin mikla, heldur iðnbyltingin, sem mest grípur huga
hans.
Friedrich Nietzsche reyndi eitt sinn að festa hendur á
tveimur meginþáttum grísks menntalífs með því að gefa þeim
nöfn; hann kenndi þá við guðina Díónýsos og Appolló.
Díónýsos var þá tákn náttúrunnar, lífsaflsins, guðmóðsins;
Appolló tákn menningar, vits, samræmis, hófsemi. Þessa tvo
þáttu má finna hvarvetna í lífi Goethes. Díónýsos drottnar
á dögum Götz og Werthers, við verðum hans varir í þorsta
hins miðaldra og aldurhnigna manns eftir lífi, list, vísind-
um og starfi. Þorstinn slokknar aldrei fram á hinztu stund.
Það er gaman að athuga hamskiptin í skáldskap hans; ég skal
rétt nefna, að sólheimur Hómers, þokuheimur Ossíans, dul-
speki Hafiz, þjóðvísur miðalda, kórsöngvar Pindars — allt
orkar þetta á hug hans, og hann notar þennan fjarskylda
kveðskap eins og ham til að skríða inn í; þetta sýnir, hví-
líkur víðfaðmi hann er. En mundi ekki slíkur maður verða
sundurslitinn? Mundu ekki ástríðurnar, öll hin sterku áhrif,
sprengja persónuleikann? Nei, hér er Appolló annars vegar,
andinn, þráin eftir heild, samræmi. Goethe skilst, að tak-
mörk eru nauðsynleg: innan takmarka sýnir meistarinn, hver
hann er. Hann lærir að meta lögmálin. Hann lærir að meta
hinn lögboðna vöxt. Liklega á enginn maður meiri þátt í
hugmyndum 19. og 20. aldar um þróun en einmitt Goethe.
Þegar elli færðist yfir Goethe, jókst honum ró og jafnvægi,
yfir hann kom heiðríkja, og þá minnkaði að vonum hið mikla
lífsfjör. Þó var svo mikið eftir af skapsmunum hans, að ef