Bændablaðið - 05.06.2014, Blaðsíða 4
4 Bændablaðið | Fimmtudagur 5. júní 2014
Fréttir
Bann við minkabúskap í Hollandi,
sem átti að taka gildi árið 2024,
var fellt úr gildi með úrskurði
í undirrétti í Hollandi í gær.
Bannið var samþykkt sem lög í
hollenska þinginu í desember
2012 en dómstóllinn vísaði til
Mannréttindasáttmála Evrópu
í úrskurði sínum og lýsti bannið
brot á stjórnarskrá.
Bannið við minkaeldi var reist
með þeim rökum að minkaskinn
væru „óþarfa lúxusvara“.
Hollenskum minkabændum voru
ekki boðnar neinar bætur þrátt fyrir
að með banninu yrðu þeir sviptir
lífsviðurværi sínu. Slíkt er brot á
Mannréttindasáttmálanum.
Hollenskum bændum létt
Úrskurður dómstólsins hefur vakið
mikla ánægju hjá minkabændum í
Hollandi, en ekki síður vítt og breitt
um Evrópu.
„Evrópskur skinnaiðnaður er
afar ánægður með að mannréttindi
séu eftir allt saman hærra sett
en pólitísk hentistefna varðandi
málefni eins og siðferði, sem
fylgja einstaklingsbundnum
skoðunum. Framleiðsla og notkun
minkaskinna ætti að snúast um
frelsi einstaklingsins. Það hníga
engin rök að því að iðnaður sem er
vel rekinn, sem gerir miklar kröfur
um dýravelferð og aflar mikilla
útflutningstekna sé eyðilagður
með þessum hætti“, segir Kenneth
Ingman, formaður Fur Europe,
regnhlífarsamtaka evrópsks
skinnaiðnaðar.
Úrskurðurinn mun líklega
hafa alþjóðleg áhrif, en bann við
minkaeldi hefur verið til umræðu
víða.
„Skilaboðin frá Hollandi
eru augljóslega þau að þeir fáu
stjórnmálamenn í Evrópu sem
tala fyrir banni við minkaeldi ættu
að hugsa sig tvisvar um“, segir
Ingman.
„Við höfum alltaf trúað að við
hefðum sterkt mál í höndunum og
það gleður okkur að dómstóllinn
hafi með skjótum hætti og
afdráttarlaust úrskurðað bannið
ólöglegt. Þetta er mikill léttir
fyrir hollenska minkabændur
sem aftur eru orðnir öruggir um
lífsviðurværi sitt og geta nú snúið sé
að hversdagslegum viðfangsefnum
með fjölskyldum sínum,“ segir
Wim Verhagen, framkvæmdastjóri
samtaka hollenskra minkabænda.
Hefði þurft að greiða
gríðarháar bætur
Holland er þriðji stærsti
framleiðandi minkaskinna í
heiminum, með ársframleiðslu upp
á fimm milljónir skinna. Samkvæmt
útreikningum KPMG er áætlað að
bætur, sem greiða þyrfti hollenskum
minkabændum ef iðnaðurinn yrði
bannaður, næmu um 1,2 milljörðum
evra. /fr
Bann við minkaeldi í Hollandi
úrskurðað ólöglegt
LH bannar tungubogamél
– Alþjóðasamtökin FEIF styðja ekki bannið
Landssamband hestamannafélaga
(LH) hefur bannað notkun á
tungubogamélum með vogarafli
í íþrótta- og gæðingakeppnum á
vegum sambandsins. Ástæðan
er að notkun mélanna er
talin afgerandi áhættuþáttur
fyrir áverka á kjálkabeini
hrossa og jafnvel stangast á
við lög um dýravelferð. FEIF,
Alþjóðasamtök eigenda íslenska
hestins, styðja hins vegar ekki
bannið.
Ákvörðun LH er í samræmi við
áskorun yfirdýralæknis um bann
við notkun mélanna og er byggð á
rannsóknum Sigríðar Björnsdóttur,
dýralæknis hrossasjúkdóma, og
Þorvaldar Kristjánssonar, kennara
við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Rannsóknir þeirra hafa sýnt að
notkun slíkra méla eru afgerandi
áhættuþáttur fyrir áverka á
kjálkabeini hjá keppnishestum.
75-faldar líkur
Í rannsókninni var farið yfir
heilbrigðisskoðun keppnishesta
á Landsmóti hestamanna og
Íslandsmóti í hestaíþróttum árið
2012. Samkvæmt niðurstöðunum
er gríðarleg fylgni milli notkunar
stangaméla með tunguboga og
áverka á kjálkabeini hrossa, eða um
75-falt meiri líkur en við notkun
annara méla. Í erindi sem Sigríður
hélt á Landsýn, vísindaþingi
landbúnaðarins, í mars síðastliðnum
fór hún yfir rannsóknina. Meðal
þess sem kom þar fram var að í
sumum tilfellum væru meiðslin
svo alvarleg að hross sem þau
hlytu myndu aldrei jafna sig og
ná fullum bata. Gögn úr nýlegri
sænskri rannsókn staðfesta sams
konar áverka við notkun tunguboga.
Stjórn Landssambandsins leitaði
aðstoðar lögfræðings sem komst að
þeirri niðurstöðu að heimilt væri að
banna mélin í keppnum á vegum LH
og FEIF, Alþjóðasamtökum eigenda
íslenska hestsins. Mél teljast vera
með tunguboga þegar hæðarmunur
frá neðri kanti endastykkis mélanna
upp í neðri kant á efsta hluta er
meiri en hálfur sentimetri. Öll mél
með stöngum og/eða keðju teljast
mél með vogarafli.
Bannið hefur þegar tekið gildi
og mun stjórn LH leggja niðurstöðu
sína ásamt nýjum upplýsingum sem
fram kunna að koma fyrir landsþing
sem haldið verður í október.
Tamningamenn og
hrossabændur skora á FEIF
Bæði Félag tamningamanna og
Félag hrossabænda sendu í kjölfarið
á ákvörðun LH áskorun til FEIF
um að banna þegar notkun á
einbrotnum mélum með tunguboga,
vogarafli og keðju og einjárnungum
með tunguboga, vogarafli og keðju.
FEIF hefur hins vegar sent frá sér
yfirlýsingu þar sem kemur fram að
samtökin styðji ekki bannið.
Í yfirlýsingu FEIF kemur fram að
þrátt fyrir áhyggjur manna varðandi
ákveðnar gerðir méla hafi FEIF
„ekki borist ábendingar það sem
af er þessu ári um vandamál vegna
þeirra“. Samtökin hyggjast nota
yfirstandandi keppnistímabil til að
fylgjast betur með notkun mélanna
og hugsanlegt tjón sem þau geta
valdið. Þá er lögð áhersla á nýjar
reglur sem tóku gildi 1. apríl um
hert eftirlit og áherslubreytingar til
að bæta reiðmennsku og samband
manns og hests. Dómarar eru hins
vegar minntir á mikilvægi þess að
vísa öllum hrossum úr keppni, séu
þau sár, óháð þeim búnaði sem
notaður er.
Mjólkursala eykst enn
Sala á fituhluta mjólkur hefur
aukist um 7,6 prósent síðustu 12
mánuði. Á tímabilinu frá maí
2013 til apríl 2014 var salan 124,5
milljónir lítra. Á sama tímabili var
sala á próteinhluta mjólkur 118,8
milljónir lítra, en það er aukning
um 2,4 prósent frá árinu áður.
Þetta er framhald á gríðarlegri
aukningu í sölu mjólkurafurða
síðustu misseri.
Greiðslumark mjólkur fyrir árið í
ár var ákveðið 125 milljónir lítra. Ef
fram heldur sem horfir má gera ráð
fyrir að að sala á fituhluta mjólkur
verði yfir ákveðnu greiðslumarki.
Gefið hefur verið út að fullt
afurðastöðvaverð verði greitt fyrir
alla innlagða mjólk frá bændum, til
að hvetja til aukinnar framleiðslu.
/fr
Texti verður endurritaður um leyfilegan þéttleika í alifuglaeldi:
Endurtaka þarf umsagnarferilinn um
drög að reglugerð um velferð alifugla
– RML vinnur að úttekt fyrir eggjabændur um breytingar á húsakosti og kostnað
Nýjar reglugerðir um velferð dýra
eru nú í vinnslu í atvinnuvega-
og nýsköpunarráðuneytinu.
Rebekka Hilmarsdóttir lög-
fræðingur í atvinnuvega- og
nýsköpunarráðuneytinu segir
að með gildistöku nýrra laga um
velferð dýra um síðustu áramót
hafi verið ljóst að uppfæra þurfti
reglugerðir um aðbúnað og velferð
dýra. „Ráðuneytið skipaði því sjö
starfshópa til að vinna tillögur til
ráðuneytisins, en ásamt alifuglum er
um að ræða tillögur að reglugerðum
um velferð hrossa, svína, minka,
sauðfjár, geitfjár, nautgripa
og gæludýra,“ segir Rebekka.
Starfshópurinn var skipaður
fulltrúum Matvælastofnunar,
Dýra verndar sambands Íslands og
Félögum eggja- og kjúklingabænda.
Kastljósinu hefur að mestu verið
beint að drögunum að reglugerð um
velferð alifugla á undanförnum vikum,
enda hefur greinin á stundum legið
undir ámælum fyrir að þar sé upp til
hópa stundaður verksmiðjubúskapur.
Athygli hefur vakið, að í drögum að
nýrri reglugerð um velferð alifugla
sem send var til umsagnar 6. maí
síðastliðinn – og sett verður í ljósi
nýrra laga um velferð dýra – er gert
ráð fyrir heimild fyrir enn þéttbærari
alifuglaeldi en tíðkast hefur hingað
til. Var þeim drögum harðlega
mótmælt meðal annars af hálfu
Dýraverndarsambandi Íslands og
Velbú – samtökum um velferð búfjár.
Settu samtökin til að mynda af stað
undirskriftasöfnun þar sem þessum
ákvæðum var mótmælt.
Ákvæði um þéttleika í alifuglaeldi
verða endurrituð
Samkvæmt upplýsingum frá Rebekku
misfórst hluti þess texta sem birtist
í drögunum sem sneri að þéttleika
alifugla. Munu þau ákvæði verða
endurrituð og að svo búnu verða
drögin að reglugerðinni send aftur til
umsagna.
Drög reglu gerðar innar, sem nú
hefur verið úrskurðuð úrelt, hafa verið
til umsagnar hjá hagsmunaaðilum
og lauk umsagnafresti 4. júní
síðastliðinn. Umsagnaraðilar eru
Bændasamtök Íslands, Matvæla-
stofnun, Dýraverndarsamband
Íslands, Dýralæknafélag Íslands,
Félag kjúklingabænda, Félag
eggjaframleiðenda, Eigenda- og
ræktendafélag landnámshænsna,
Neytendasamtökin og Velbú.
En reglugerðin tekur einnig til
varphæna. Fyrirhuguð er breyting á
núverandi aðbúnaðarreglugerð fyrir
varphænur. Með nýrri reglugerð
mun framleiðslu í hefðbundnum
búrum vera hætt innan ákveðins
aðlögunartíma. Að sögn Unnsteins
Snorra Snorrasonar, ráðgjafa
Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins
í bútækni og aðbúnaði, standa
framleiðendur frammi fyrir
tveimur valkostum; annars vegar
framleiðslukerfi með innréttuðum
búrum og hins vegar lausagöngu.
„Í samanburði við hefðbundin búr
eru innréttuð búr með meira rými á
hvern grip og í hverju búri þurfa
varphænur að hafa aðgang að hreiðri,
setprikum, svæði með undirburði og
búnaði sem tryggir eðlilegt slit á klóm.
Í lausagöngu getur verið um að ræða
framleiðslukerfi þar sem hænur eru
á gólfi með aðgang að setprikum og
hreiðrum og einnig framleiðslukerfi
með innréttingum eða pöllum.
Að beiðni Félags eggjabænda
höfum við hjá RML unnið að skýrslu
þar sem áhrif nýrrar reglugerðar á
kostnað við eggjaframleiðslu og
fjárfestingarþörf er metin. Við erum að
leggja lokahönd á skýrsluna þar sem
við metum áhrif reglugerðarinnar á
greinina. Ljóst er að auknar kröfur um
aðbúnað varphæna munu hafa veruleg
áhrif á framleiðendur. Bæði vegna þess
að þörf er á umtalsverðri fjárfestingu
í nýrri framleiðsluaðstöðu og einnig
vegna þess að framleiðslukostnaður
mun hækka. Búið er að innleiða
sambærilegar reglur í löndunum í
kringum okkur og þar er talað um að
framleiðslukostnaður hafi aukist um
15–25%. Sú skýring er einkum vegna
aukins byggingarkostnaðar en ekki
síður vegna lakari fóðurnýtingar,
minni afurða og aukins
vinnuframlags,“ segir Unnsteinn. /
smh