Bændablaðið - 05.06.2014, Blaðsíða 26
26 Bændablaðið | Fimmtudagur 5. júní 2014
Hinn 16. ágúst verður blásið
til fjórðu Beikonhátíðar hins
íslenska Beikonbræðralags og er
ætlunin félaganna sem að þessu
standa að gera hátíðina veglegri
og skemmtilegri en nokkru sinni
fyrr. Þó að beikon sé upphaf og
endir alls í kringum þessa hátíð
segja aðstandendur að nú sé
ætlunin að útvíkka hugmyndina
þannig að úr verði allsherjar
íslensk matarhátíð. Hvetja þeir
alla svínabændur til þátttöku,
sem og bændur úr öllum öðrum
búgreinum, fiskframleiðendur,
aðra matvælaframleiðendur,
veitingahús og fleiri. Verður
hátíðin skemmtilega tímasett, mitt
á milli gleðigöngu Gay Pride og
Menningarnætur í Reykjavík og
veðrið trúlega eins og best verður á
kosið. Telja menn því ekki ólíklegt
að hátíðin í ár geti dregið að sér 50
til 60 þúsund manns.
Bræðralag myndað á
beikongrunni
Beikonbræðralagið varð að segja má
til upp úr vinatengslum ungra manna
sem voru á siglinganámskeiði ÍTR í
Nauthólsvík. Árum seinna drógu þeir
með sér Sigfús Ólafsson, sem þá tók
þátt í Masterchef-matreiðslukeppni,
en hann er Akureyringur að uppruna
sem ættaður er frá Gunnarsstöðum
í Þistilfirði og Reykjanesinu og
Dölunum. Sigfús segir að nú stefni í
mesta ferðamannasumar á Íslandi frá
upphafi. Öll hótelherbergi í Reykjavík
séu fullbókuð 16. ágúst og jafnvel þó
að enginn Íslendingur sjái sér fært að
mæta á beikonhátíðina verði allt fullt
af erlendum ferðamönnum.
Sjálfir segjast þeir ekki verða
sjálfir með nein skipulögð
skemmtiatriði, heldur geti þeir sem
vilja komið fram og skemmt fólki
á eigi forsendum. Í fyrra gekk til
dæmis karlakór um á meðal gesta og
söng hástöfum. Einnig hefur komið
fram lúðrasveit, blústónlistarmenn
og fleiri. Hugmyndin er að hátíðin
sé sem mest eins og sjálfsprottið
karnival fyrir alla fjölskylduna.
Einstakt tækifæri fyrir kynningu
á íslenskum matvælum og
matargerðarlist
„Við verðum því með einstakt
tækifæri til að kynna fyrir túristunum
íslensk matvæli og matargerðarlist
ásamt íslenskri matarstemmingu
og gleði. Slíkt getur haft gríðarlega
mikið vægi fyrir íslenskan
matvælaiðnað. Það er ekki bara gott
fyrir íslenska svínabændur, heldur
líka gott almenn fyrir allar íslenskar
matvælaafurðir og kynningu á þeim,“
segir Sigfús.
Með sterk tengsl á Strandir
Benedikt Ingi Tómasson er einn af
forsprökkunum. Hann segist vera
Reykvíkingur en á ættir að rekja
til Hólmavíkur og í Kúvíkur á
Reykjafirði í Strandasýslu sem og í
Súgandafjörð.
Greinilegt er að Ísland er ekki
sérlega stórt þegar talið berst að
tengslum manna, því báðir þessara
Beikonbræðra geta rakið þræði í
Kaldbaksvík á Ströndum þaðan sem
undirritaður blaðamaður er einnig
ættaður.
Þannig er að stóra tvílyfta
húsið sem sumir kannast við í
Norðanverðri Kaldbaksvíkinni
var eitt sinn kaupmannshús sem
Jensen nokkur kaupmaður byggði
í Kúvíkum í Reykjafirði meðan þar
var mikill verslunarstaður. Amma
Benedikts var fædd og uppalin í
Kúvíkum og lék sér þá gjarnan við
Ínu Jensen kaupmannsdóttur sem bjó
í umræddu húsi. Foreldrar Benedikts
eiga nú sumarbústað í Kúvíkum.
Kaupmannshúsið var síðan dregið
á sleða til Kaldbaksvíkur og þá
eignaðist Oddur Ólafsson afi Sigfúsar
einn tólfta hluta í húsinu og þar gistir
Sigfús nú á hverju sumri.
Góður og skemmtilegur hópur
Benedikt segir að Beikonbræðralagið
sé myndað af góðum og
skemmtilegum hópi með ólíka
menntun og bakgrunn. Sjálfur er
hann verkfræðingur og Sigfús er
sagnfræðingur, viðskiptafræðingur
og trommari. Þá er í hópnum
viðskiptafræðingur, læknir,
lögfræðingur, sölustjóri auk
þess sem þar er baráttujaxl úr
Verslunarmannafélagi Reykjavíkur.
Þá eru þar einnig innanborðs,
kokkur, gullsmiður, kennari og
barítónsöngvari.
„Allt eru þetta menn sem hafa
ást á lífinu og þykir gaman að gera
skemmtilega hluti,“ segir Benedikt.
„Það er líka mikil orka í þessum
hópi og ekki til neitt sem heitir
vandamál. Við látum því ekkert
stoppa okkur og erum í fluggír
allan daginn. Þegar við komum
svo allir saman vantar ekkert upp á
hugmyndaflugið. Ég get nefnt sem
dæmi að þegar við komum saman
á lokafund viku fyrir hátíðina í
fyrra var búið að gefa það út að
bannað yrði að koma fram með
nýjar hugmyndir um hátíðina, nóg
væri að gert. Samt fæddust 25 nýjar
hugmyndir á fundinum.“
–Er þá aldrei neitt væl í
hópnum um að eitt og annað sé
óframkvæmanlegt?
„Nei , það er ekki hlustað á slíkt.
Við framkvæmum bara hlutina og
höfum gaman af. Við fáum ekki
borgað fyrir okkar vinnu, heldur
erum við að gera þetta af því að
okkur finnst það skemmtilegt. Í
leiðinni reynum við að láta gott af
okkur leiða fyrir samfélagið.“
Fáránleg hugmynd frá
bandarískum beikonbræðrum
„Forsagan að þessari beikonhátíð
er að einn vinur okkar, Hjalti
Guðmundsson, er læknir og var í
framhaldsnámi í hjartalækningum í
Háskólanum í Iowa í Bandaríkjunum.
Hann kynnst strák sem var með
honum í námi sem sagði honum að
bróðir hans væri með beikonhátíð.
Þar var um að ræða Blue Ribbon
Bacon Festival sem var haldin í
Des Moines, sem er höfuðborg Iowa.
Beikonhátíð Reykjavíkur, Reykjavík
Bacon Festival, sem haldin hefur
verið á Skólavörðustíg undanfarin
ár, er því systurhátíð Blue Ribbon
Bacon Festival.
Þegar menn fóru að ræða þetta
var nefnt að dagur svínsins í þessu
mikla svínarræktarríki er 1. mars.
Kanarnir höfðu einhversstaðar heyrt
að bjórdagurinn á Íslandi væri líka 1.
mars. Þar sem beikonhátíðin gengur
mikið út á beikon og bjórneyslu,
þá voru aðstandendur bandarísku
beikonhátíðarinnar fljótir að átta
sig á því að þeir yrðu bara að fara til
Íslands. Fóru þeir þá að athuga hvort
einhver þekkti ekki Íslending til að
koma á nauðsynlegum tengslum. Þá
Beikonbræðralagið á Íslandi heldur Reykjavík Bacon Festival hinn 16. ágúst:
Allsherjar matarkynning með fölskvalausri
gleði og karnivalstemmingu
– Sprottið upp úr galinni hugmynd beikonbræðra í Iowa í Bandaríkjunum sem orðin er að pólitísku beikonbandalagi við Ísland
Þeir Benedikt Ingi Tómasson og Sigfús Ólafsson úr Beikonbræðralaginu
Mynd / HKr.
Mynd / Beikonbræðralagið
Mynd / Beikonbræðralagið