Bændablaðið - 05.06.2014, Blaðsíða 42
42 Bændablaðið | Fimmtudagur 5. júní 2014
Hvernig gróffóður framleiðir þú í sumar
og hvernig fóður hyggst þú nota næsta vetur?
Gróffóður er mismunandi að
gæðum eftir því hvar það er
ræktað, hvaða tegundir eru
notaðar, eftir sláttutíma og fl. Það
er mikilvægt að gera sér grein fyrir
því hvað gróffóðrið sem á að nota
næsta vetur inniheldur af próteini,
orku og steinefnum til þess að
geta valið það viðbótarfóður sem
passar best og gefur hagkvæmustu
fóðrunina.
Kostnaður við efnagreiningu
gróffóðurs borgar sig mjög fljótt
þegar mögulegt er að finna þá
fóðursamsetningu sem hentar hverju
sinni – ef stefnt er að hagkvæmri
fóðrun og hámarks afurðum.
Þegar gripirnir fá úr fóðrinu öll
þau næringarefni sem nauðsynleg
eru til framleiðslu þýðir það
einfaldlega meiri og betri framleiðsla
og heilbrigðari dýr. Það er jafn
óhagkvæmt að offóðra eins og það
er að vanfóðra skepnurnar.
Hirðingarsýni eða verkuð sýni
Það er algengt að taka hirðingarsýni
en þó eru sífellt fleiri sem velja að
taka verkuð sýni. Hirðingarsýni gefa
okkur upplýsingar um fóðrið þegar
það er hirt af velli, en verkuð sýni
gefa okkur upplýsingar um fóðrið
eins og það er gefið. Það á ýmislegt
eftir að gerast í verkuninni sem við
náum ekki höndum yfir ef tekin eru
hirðingarsýni, en þetta á sérstaklega
við um votheysverkun og þegar rúllur
eru með lægra þurrefnisinnihald en
50-60%.
Þegar tekin eru verkuð sýni þarf
fóðrið að hafa legið í stæðu eða
rúllu í 4-6 vikur. Því er mikilvægt að
skipuleggja sýnatökuna strax þegar
fóðrinu er keyrt heim. Þá er hægt
að taka frá þær rúllur sem nota á í
sýnatökuna og hafa til hliðar en það
auðveldar allt aðgengi að þeim og
minnkar príl í rúllustæðum. Þær eru
svo gataðar að 4-6 vikum liðnum og
gefnar í kjölfarið. Við sýnatökuna er
gott að miða við að hafa a.m.k. 2-3
rúllur/bagga í hvert sýni og gott að
miða við að senda eitt sýni úr hverri
stæðu.
Hversu mörg sýni þarf að
efnagreina?
Það er nauðsynlegt að senda inn sýni
sem gefa sem besta yfirsýn yfir það
fóður sem er til fóðrunar komandi
vetur.
Það er ekki nauðsynlegt að taka
sýni úr öllum túnum en góð regla er
að senda sýni úr annars vegar fyrri
slætti (hugsanlega flokka í nýræktir
og gömul tún) og annað úr seinni
slætti. Þá er rétt að senda verkað sýni
úr grænfóðri og ef eitthvað sérstakt
einkennir hluta fóðursins sem er til
á bænum.
Hafðu samband
Ráðunautar RML geta hjálpað til við
skipulag sýnatökunnar. Hafi bændur
spurningar eða vangaveltur um
hversu mörg sýni henti hverju sinni
er auðvelt að taka upp símann eða
senda tölvupóst á fóðurráðunaut sem
kemur með góð ráð. Eins geta bændur
pantað sýnatöku á heimasíðu RML.
Það er mjög til bóta ef búið er
að skipuleggja sýnatökuna áður
en rúllum er keyrt heim. Seinna í
sumar fara ráðunautar um sveitir
landsins og taka sýni hjá þeim
sem þess hafa óskað og senda til
efnagreininga hvort heldur sem er
til Landbúnaðarháskólans eða BLGG
í Hollandi, allt eftir því sem bóndinn
óskar.
Upplýsingar um verð á sýnatöku
og efnagreiningum eru að finna á
heimasíðunni rml.is
Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins
Berglind Ósk
Óðinsdóttir
Starfsmannastjóri
hjá RML boo@rml.is
Upplýsingatæknibásinn
Verkefnisstjóri
í tölvudeild BÍ
jbl@bondi.is
Jón Baldur Lorange
ESA rannsakar háhraðaverkefni stjórnvalda
Eftirlitsstofnun EFTA, ESA,
ákvað um mitt ár 2013 að hefja
rannsókn háhraðaverkefni
stjórnvalda hér á landis sem
unnið hefur verið af Símanum.
Kom þetta fram í orðum Ketils
Einarssonar, lögfræðings hjá
ESA, á námskeiði sem Póst- og
fjarskiptastofnun stóð fyrir 21.
Maí síðastliðinn, en ESA hefur
verið með málið í skoðun frá 2011.
Var ákveðið að hefja rannsókn
þar sem þar sem öll skilyrði
um ríkisstyrki vegna háhraða
fjarskiptaneta virtust ekki vera
uppfyllt.
Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, og
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS)
stóðu fyrir námskeiði um ríkisstyrki
vegna háhraða fjarskiptaneta þann
21. maí sl. og sótti dálkahöfundur
námskeiðið. Hlutverk ESA
er eins og kunnugt er að hafa
eftirlit með því að þær aðgerðir
stjórnvalda á Íslandi, Noregi og
Liechtenstein sem heyra undir
EES samninginn séu í samræmi
við reglur hans. Námskeiðið sóttu
fulltrúar fjarskiptafyrirtækja og
veitufyrirtækja sem standa að
lagningu jarðstrengja, fulltrúar
ýmissa hagsmunasamtaka og
starfsmenn PFS.
Starfsmenn ESA, þau Ketill
Einarsson lögfræðingur, Emily
O´Reilly hagfræðingur og Fabian
Kaisen lögfræðingur sem öll stýra
meðhöndlun einstakra mála hjá
eftirlitinu fóru yfir helstu þætti þess
hvernig hið opinbera getur komið að
fjármögnun háhraða fjarskiptaneta
skv. EES samningnum.
ESA rannsakar framkvæmdina
Björn Geirsson yfirlögfræðingur
PFS flutti inngangsorð og stýrði
námskeiðinu. Ketill Einarsson,
lögfræðingur hjá ESA, fór yfir
þau mál sem hefðu borist ESA
og þar á meðal kærumál vegna
háhraðaverkefnis sem var á vegum
stjórnvalda og Síminn framkvæmdi
eftir að hafa unnið útboð um
verkefnið. Það kom fram að ESA
hefur verið með háhraðaverkefnið
til skoðunar frá árinu 2011 þar sem
leitað var svara frá hlutaðeigandi
aðilum, en um mitt ár 2013 ákvað
stofnunin að ástæða væri til að
hefja rannsókn á málinu þar sem
öll skilyrði um ríkisstyrki vegna
háhraða fjarskiptaneta virtust
ekki vera uppfyllt, og snýr það
að heildsölufyrirkomulaginu og
stækkun verkefnisins. Nánar verður
fjallað um námskeið ESA og PFS
síðar.
Bóndi berst fyrir betra
netsambandi
Hafdís Sturludóttir, bóndi í
Húsavík á Ströndum, sendi
Fjarskiptasjóði og Póst- og
fjarskiptastofnun bréf í
upphafi maí mánaðar vegna
baráttu hennar fyrir viðunandi
netsambandi. Hafdís er orðin
seinþreytt á slitróttu netsambandi
og hér birtist hluti úr bréfi hennar
með góðfúslegu leyfi höfundar:
„Í janúar fór netsambandið að
detta út í tíma og ótíma. Ég notaði
öll trixin, endurræsa routerinn,
endurræsa tölvuna, slökkva á router
á nóttunni og allt sem mér datt í hug.
Ekkert breyttist né batnaði. Í mars
hittust 4 íbúar á sama svæði og þá
barst þetta í tal og kom í ljós að það
var sama vandamál hjá þeim öllum.
Þar sem þeir tengdust allir sama
sendi bárust böndin að honum. Það
var haft samband við Símann og í
framhaldi vorum við með facebook
eftirlit á hvenær væri að detta út
netið. Auðvitað vorum við ekki
alltaf á netinu þessi hópur en það
komu í ljós sömu tímar sem netið var
að detta út. Í framhaldi endurræstu
þeir sendinn. Ekkert breyttist. Ég
kvartaði aftur og fékk þau svör að
allt væri bilað á Vestfjörðum þann
daginn og viðgerð væri í gangi og
þá myndi þetta komast í lag. Seinni
partinn í apríl kvartaði ég einu sinni
enn. Ég var að fá svar núna áðan. Það
eru líkur á að sendirinn sé eitthvað
bilaður og vonast til að farið verði í
málið á næstu vikum.“
Hafdís segir í bréfinu að hún sé
ekki sátt við þetta svar með það í
huga að netsambandið sé að detta
út 2-3 mínútur á hverri klukkustund
og þegar sambandið detti út vegna
bilunar taki langan tíma að bregðast
við. Nýlega hafi Síminn hringt í
bændur til að tilkynna að til stæði
að mæla allt niðurhal, innlent einnig,
á sama tíma og boðið yrði upp á
öflugra samband. Rétt er geta þess að
Húsavík á Ströndum var einn af þeim
um 1.800 stöðum á landinu sem voru
hluti af háhraðaverkefni stjórnvalda.
Þessu verkefni er nú lokið, lauk
formlega 1. mars eða 1. apríl á
þessu ári, og óljóst hvað tekur við
fyrir íbúa á öllum þessum stöðum.
Dálkahöfundur hyggst leita svara við
því í næsta Bændablaði ásamt því að
fylgja eftir bréfi Hafdísar til PFS og
Fjarskiptasjóðs.
Frá námskeiði ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA og Póst- og fjarskiptastofnunar,
talið frá vinstri: Fabian Kaisen, Ketill Einarsson, Emily O´Reilly og Björn
Geirsson.