Bændablaðið - 05.06.2014, Qupperneq 32

Bændablaðið - 05.06.2014, Qupperneq 32
32 Bændablaðið | Fimmtudagur 5. júní 2014 Finnsku matreiðslumennirnir sem taka þátt í Food & Fun. Íslensk hugmyndafræði löguð að finnsku umhverfi: Food & Fun í Finnlandi – Tíu veitingastaðir í Turku þátttakendur í hátíðinni Food & Fun verður haldið í Finnlandi 1. til 5. október næstkomandi, í Turku. Borgin er álíka stór og Reykjavík, eilítið fjölmennari þó, og er á suðvesturströnd Finnlands. Mikill áhugi er á hátíðinni og munu tíu veitingastaðir taka þátt í Food & Fun í Finnlandi. Siggi Hall, frumkvöðull og skipuleggjandi Food & Fun á Íslandi ásamt Baldvini Jónssyni, hefur unnið að skipulagningu hátíðarinnar fyrir hönd viðburðafyrirtækisins Main Course sem hefur umsjón með verkefninu í Finnlandi, rétt eins og á Íslandi. „Það hefur verið mikill áhugi á Food & Fun hjá Finnum undanfarin ár. Í fyrra komu um 70 manns frá Finnlandi til Íslands bara til að vera á hátíðinni og útlit fyrir enn frekari fjölgun í ár. Við höfum átt í þó nokkrum samskiptum við Finnana og þau samskipti urðu til þess að þessi hugmynd kom fram, að halda Food & Fun í Turku. Ég var gestakokkur á veitingastað í Turku í fyrrasumar og þá hófust þessar umræður fyrir alvöru. Svo ákváðum við bara að slá til og gera þetta, það var ákveðið núna í apríl eða maí síðastliðnum. Við erum því bara að vinna að því að setja upp hátíð með sömu hugmyndafræði og við höfum beitt hér heima en aðlaga hlutina þó að finnsku umhverfi.“ Turku svipuð Reykjavík Siggi segir Turku henta mjög vel fyrir Food & Fun hátíðina. Borgin sé lifandi, þar sé vaxandi ferðamannaiðnaður og uppbygging í veitingageiranum. Í Turku er stór ferjuhöfn sem mikil umferð fer um á hverjum degi, ferjurnar sigla þaðan til og frá Svíþjóð og Álandseyjum. „Turku er borg sem er býsna svipuð og Reykjavík. Íbúar eru ungir og framsæknir, það er mikið af nýjum veitingastöðum og um margt hentar borgin vel fyrir Food & Fun hugmyndafræðina.“ Mikil Íslandshátíð Að sögn Sigga verður hátíðin í Finnlandi þó aðeins minni í sniðum en hún hefur verið hér á landi síðustu ár. „Þetta verða ekki nema tíu veitingastaðir sem taka þátt. Það koma hins vegar matreiðslumenn víðs vegar að líkt og hér heima, frá Íslandi, Norðurlöndunum og frá Ameríku og verða gestakokkar á veitingastöðunum. Þeir munu svo keppa sín á milli líkt og hér heima. Samtímis verður haldin stór Erró-sýning í Turku þannig að það verður talsverð Íslandstenging þarna. Íslenska sendiráðið í Finnlandi verður virkur þátttakandi og auðvitað Icelandair, en hátíðin verður meðal annars haldin í samstarfi við þá. Það er mikill og góður hótela- og veitingaskóli í Turku- borg og þangað fer sendinefnd frá Hótel- og matvælaskólanum í Kópavogi, bæði nemendur og kennarar, til að kynna hvað er að gerast hér á landi í þeim efnum og hugsanlega með nemendaskipti í huga. Auk þess verður haldin þarna matarbókamessa á sama tíma. Það verður því mikið um að vera.“ Áhugi á íslensku lambakjöti Siggi segir að íslenskur landbúnaður og matur muni leika hlutverk á hátíðinni. „Skyrið okkar íslenska er náttúrulega gríðarlega vinsælt í Finnlandi og svo er mikill áhugi á íslenskum fiski, ekki síst bleikju. Finnar hafa svo töluverðan áhuga á að fá íslenskt lambakjöt enda liggur framtíð þess í útflutningi eins og ég hef oft sagt. Finnland er í raun ekki mikið matvælaframleiðsluland og því eru að mínu viti miklir möguleikar í útflutningi þangað út, að koma vörum á framfæri. Þannig er Food & Fun, það er alltaf íslenskt og til að koma Íslandi og íslenskum vörum að á heimsvísu.“ Aldrei að vita hvað gerist næst Siggi vill ekki tala um útrás Food & Fun, enda sé orðið útrás komið með svo vondan stimpil á sig að það sé varla að menn þori að nota það. „Þetta er engin útrás, við slógum bara til og ákváðum að gera þetta. Það hafa komið upp hugmyndir um Food & Fun í öðrum borgum og þær eru margar góðar. Ef þetta gengur vel er aldrei að vita hvað gerist næst.“ /fr

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.