Bændablaðið - 05.06.2014, Qupperneq 34

Bændablaðið - 05.06.2014, Qupperneq 34
34 Bændablaðið | Fimmtudagur 5. júní 2014 Fróðleiksbásinn Vilmundur Hansen þjóðfræðingur og garðyrkjufræðingur Sumarblóm og aðrar skrautjurtir geta farið vel í kerum og pottum af öllum hugsanlegum stærðum og gerðum. Ílátin geta verið hvernig sem og hluti að skreytingunni bara svo lengi sem þau heldur mold. Hægt er að fá margar og fjölbreytilegar gerðir af ílátum undir plöntur, til dæmis potta, tunnur, körfur og ker úr plasti eða leir. Einnig er boðið upp á gott úrval hengipotta, plast, bast og leir og svalakassa. Ekkert mælir gegn því að nota hluti af heimilinu undir blómin. Ég hef til dæmis séð gúmmískó, dósir undan niðursuðuvörum og stígvél notuð sem blómapotta og gamalt salerni sem útipott með góðum árangri. Það sem einna helst þarf að gæta að við val á íláti er að það þoli frost ef það á að standa úti yfir veturinn og það á helst að vera gat í botninum til þess að vatn safnist ekki fyrir í því. Moldin í kerin Sömu reglur gilda um jarðveg í ílátum og beði, það verður að vinna hann vel og gæta þess að frárennsli sé gott. Ef ekki er gat á ílátinu er nauðsynlegt að setja lag af grófu efni, til dæmis grófan vikur, smásteina eða leirkúlur, í botninn þar sem afrennslisvatn getur safnast fyrir án þess að ræturnar fúni. Þetta á sérstaklega við ef ílátið stendur undir berum himni. Ílát sem stendur á þurrum stað þarf aftur á móti að vökva reglulega. Engin ástæða er til að skipta um jarðveg í ílátinu á hverju ári, nóg er að gera það á nokkurra ára fresti ef jarðvegurinn er blandaður með áburði á vorin. Ef skipta þarf um mold má setja hvers konar venjulega gróðurmold í ílátið. Einnig er hægt að hressa upp á gamla mold með því að blanda hana með lífrænum áburði og nokkrum kornum af tilbúnum áburði. Gott er að hvolfa mold úr þröngu íláti sem standa á úti yfir veturinn. Mold þenst mikið út þegar hún frýs og hætta er á að pottar og ker úr plasti og leir springi undan þenslunni. Skrautblóm og kryddjurtir Yfirleitt eru sumarblóm lítil þegar þeim er plantað út á vorin en þau stækka yfir sumarið og því er hæfilegt að planta þeim með tíu til tólf sentímetra millibili. Stórgerðar plöntur eins og pelargóníur og margarítur þurfa aftur á móti meira pláss. Ílátið kann því að virðast tómlegt til að byrja með en gróðurinn þéttist fljótt. Hægt er að setja allar tegundir sumarblóma í potta. Stjúpur, fagurfíflar, skrautnálar, flauelsblóm og silfurkambur eru klassískar en ekkert sem mælir gegn því að planta hádegisblómum, nellikum, pelargóníum og tóbakshorni í svarkassa og potta í skjóli. Einnig getur verið fallegt að planta hengijurtum eins og brúðarauga, skjaldfléttu eða hengitóbakshorni út við jaðra ílátanna og láta plönturnar flæða yfir kantana. Þeir sem eru hagsýnir geta plantað matjurtum. Blöð ýmissa matjurta geta verið mjög falleg, til dæmis á kartöflum, rófum, hnúðkáli, beðju, salati, steinselju og grænkáli. Það má einnig búa til lítinn kryddjurtagarð í ílátum og planta í það rósmaríni, sítrónumelissu, myntu eða öðrum tegundum kryddjurta. Jarðarberjaplöntur fara einstaklega vel í hengipottum og með því að rækta þær í þeim dregur úr aðgengi snigla að þeim. Runnar og sígrænt Vel kemur til greina að planta skrautrunnum eins og töfratré, skrautkirsir, kvistum og rósum í potta eða ker. Allar þessar tegundir blómstra fallega og eru blaðfagrar eftir blómgun. Sígrænir runnar eins og alparós, lífviður, buxus, barlind garðaýr, sópar, einir og jafnvel bambusar gefa kerunum fallegan svip og geta staðið í þeim langt fram eftir vetri. Þeir sem vilja halda sígrænum plöntum og viðkvæmum tegundum af skrautrunnum lifandi og fallegum á milli ára þurfa að geyma ílátin með plöntunum í á skjólgóðum stað yfir veturinn. Eins er gott að vefja plönturnar með striga eða akrýldúk til að verja þær fyrir köldum vetrarvindum og vorsól. Staðsetning ílátanna Til að blómstrandi plöntur í pottum og kerum dafni vel þurfa flestar sól hluta úr degi og skjól. Það ætti ekki að vera vandamál þar sem yfirleitt má flytja ílátin til eftir því hvernig sólin skín og vindurinn blæs. Sígrænir runnar, til dæmis lífviður og garðaýr, þola mjög vel að standa í skugga og þrífast jafnvel betur þar en í sól. Hengiplöntur þola illa vind og því nauðsynlegt að setja þær í skjól ef spáð er vondu veðri. Þær fara einnig illa fái þær ekki vatn reglulega og eru lengi að jafna sig. Ræktað í pottum og svalakössum Gróðursetning trjáplantna • Við gróðursetningu trjáplantna skiptir mestu að rétt sé staðið að verki, að vin- nubrögð séu vönduð og að eingöngu sé plantað út góðum og hraustum plöntum. • Meðan á gróðursetningu stendur skal gæta þess að plönturnar verði fyrir sem minnstu hnjaski og að moldin haldist sem mest á rótunum. Rætur plantna þola illa sólarljós og útfjólubláir geislar sólarinnar fara illa með þær. Því má ekki líða langur tími frá því að berrótarplöntur eru teknar upp eða plöntur teknar úr potti þar til þær eru settar niður aftur. • Sé nauðsynlegt að geyma plönturnar áður en þær eru gróðursettar skal koma þeim fyrir á skuggsælum stað og vökva vel. • Best er að gróðursetja tré og runna áður en vöxtur hefst á vorin og strax eftir að frost fer úr jörðu, eða á haustin eftir að hæðarvexti plantnanna lýkur. Eftir að hæðar- og laufvexti lýkur á sumrin og brum hafa náð að þroskast setja plöntur nokkurn kraft í rótarvöxtinn. Það er tilvalið að nota haustið til að gróðursetja eða flytja tré. Eftir gróðursetningu að hausti er gott að setja þokkalegan stein við hliðina á litlum trjám. Hann kemur í veg fyrir frostlyftingu og veitir trénu skjól og yl. • Fyrir gróðursetningu skal stinga upp beð eða holu í hæfilegri dýpt fyrir tréð eða runnann og gott er að bæta lífrænum áburði í jarðveginn til að gera hann safaríkari fyrir plöntuna. Æskileg dýpt beða fyrir tré og runna er 60 til 80 sentímetrar eða þrjár til fjórar skóflustungur. • Varast skal að gróðursetja plöntur í dældir á flatlendi þar sem vatn gæti safnast fyrir. Aldrei má gróðursetja tré dýpra en þau stóðu áður og gott er að lyfta jarðveginum upp í svolítinn kúf og gróðursetja í hann þannig að rótarháls plöntunnar nemi við hæstu holubrún. • Greiða skal ræturnar út í holuna eins og hægt er og gæta þess að plönturnar standi lóðrétt í holunni. Síðan er moldinni mokað að og þjappað varlega að rótunum þannig að plönturnar standi vel og séu ekki lausar í jarðveginum. • Séu tré orðin meira en einn og hálfur metri á hæð er nauðsynlegt að setja staur niður með þeim sem stuðning fyrstu árin á meðan þau eru að ræta sig og koma sér fyrir. Eftir að plöntunni hefur verið komið fyrir á sinn stað þarf að vökva vel og gæta þess næstu daga að ræturnar þorni ekki. Fjöldi tegunda planta. Hægt er að vefja plönturnar. Meðan á gróðursetningu stendur. Svalakassar henta vel.

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.