Bændablaðið - 05.06.2014, Page 35
35Bændablaðið | Fimmtudagur 5. júní 2014
Fréttaskýring
Oft er skriplað á skötu í umræðum um hvalveiðar og gert lítið úr hlutum sem ekki þykja henta málstaðnum:
Milljónir höfrunga hafa verið
drepnar á síðustu 50 árum
Ísland, Japan og Noregur eru þær
hvalveiðiþjóðir sem mest hafa
verið gagnrýndar á undanförnum
árum. Umhverfisverndarsamtök
á borð við World Wildlife Fund
og Greenpeace og fleiri hafa t.d.
beitt sér mjög gegn hvalveiðum
Íslending á þeim forsendum að
hvalirnir séu í útrýmingarhættu.
Umræðan hefur verið mjög á
tilfinninganótum og hefur forseti
Bandaríkjanna meira að segja
látið teyma sig inn í þessa umræðu
og haft uppi hótanir gegn Íslandi.
Spurning um rétt og skynsemi
Stoltir Íslendingar halda því gjarnan
fram að sjálfbærar hvalveiðar á okkar
hafsvæði sé fyrst og fremst spurning
um sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar
til að nýta auðlindir sjávarins. Þar
hafa menn vissulega nokkuð til síns
máls og í átökum þjóða á milli snýst
þetta oft um að halda rétt á spilunum.
Þjóðir sækja ekki svo auðveldlega
til baka rétt sem þær hafa glutrað úr
höndum sér. Samt ætti það ekki að
skaða neinn að ræða af skynsemi rök
þeirra sem vilja að Íslendingar hætti
öllum stórhvalaveiðum. Það hlýtur
t.d. að vera umhugsunarefni hvort
Íslendingar eigi yfir höfuð að stunda
slíkar veiðar ef þær skaða ímynd og
hagsmuni landsins á alþjóðlegum
vettvangi meira en hagurinn af
veiðunum getur nokkru sinni orðið.
Það mætti til dæmis hugsa sér að lýsa
því yfir að hlé verði gert á veiðum
stórhvela um ótiltekin tíma án þess
að afsala með því nokkrum rétti.
Ekki boðlegt að hagræða
sannleikanum
Í svona skák hefur það heldur aldrei
þótt góð latína í áróðursstríði að
réttlæta hvalveiðar með því að segja
að aðrar þjóðir séu verri. Slíkt virkar í
bara umræðunni eins og rifrildi barna
í sandkassa. Þrátt fyrir það gefur
það umhverfisverndarsamtökum
alls ekki heimild til að hagræða
sannleikanum um veiðar annarra
þjóða og kalla t.d. stórfellt
smáhvaladráp Bandaríkjamanna
„slysaveiðar í net“.
Oft heyrist fullyrt að
Bandaríkjamenn veiði enga hvali í
dag fyrir utan fáein stórhveli sem
heimilaðar eru veiðar á forsendum
frumbyggjaveiða í Alaska. Virðist
Obama Bandaríkjaforseti líka trúa
því staðfastlega þegar hann sendir
Íslendingum tóninn. Á sama tíma
stuðlar hann að hernaðartilraunum
bandaríska flotans með hljóðbylgju-
búnað, þrátt fyrir að talið sé að
þær tilraunir geti drepið þúsundir
sjávarspendýra.
Þegar nánar er rýnt í hvalveiðar
Bandaríkjamann kemur líka ýmislegt
athyglisvert í ljós.
Stórfelt smáhvaladráp
Veiðar Bandaríkjamanna eru, fyrir
utan frumbyggjaveiðar við Alaska,
hefur undanfarna hálfa öld að mestu
verið bundnar við dráp á smáhvölum,
einkum höfrungum. Hafa þeir
verið drepnir í stórum stíl á liðnum
áratugum og að verulega leyti án
þess að kjötið væri nýtt. Ekki bara
hundruðum eða þúsundum saman
heldur svo milljónum skiptir. Hafa
þessi smáhvalir einkum verið drepnir
sem meðafli við túnfiskveiðar á
austanverðu Kyrrahafi.
Höfrungar notaðir
til að finna túnfisk
Í skýrslu FORSEA Institute of Marine
Science um höfrungadrápið kemur
fram að höfrungar hafi beinlínis
verið notaðir og þeim fórnað í
stórum stíl við túnfiskveiðarnar, ekki
síst við veiðar á gulugga túnfiski.
Sjómenn áttuðu sig á að túnfiskur
fylgdi höfrungunum eftir og þegar
höfrungatorfur komu upp til að
anda var hringnót kastað utan um
torfurnar í þeirri vona að túnfiskur
kæmi með höfrungunum í netin.
Það var því sannarlega ekki um
neinar „slysaveiðar“ á höfrungum
að ræða. Megnið af höfrungunum
drapst auðvitað af súrefnisskorti við
slíkar veiðar þegar þeir komust ekki
upp á yfirborðið til að anda.
Það var ekki fyrr en um 1980,
þegar farið var að beita svokallaðri
„backing down“ veiðiaðferð, þar
sem reynt var að draga netin undir
höfrungana, að drápið á þeim fór að
minnka.
Sjö milljón höfrungar drepnir
og mest af Bandaríkjamönnum
Samkvæmt tölum FORSEA voru
drepnir um 4,8 milljónir höfrunga
við túnfiskveiðarnar á árunum 1959
til 1972. Fram að þeim tíma voru
bandarísk fiskiskip ábyrg fyrir 87%
af öllu höfrungadrápinu samkvæmt
skýrslu FORSEA.
Dregið hefur verulega úr
höfrungadrápinu frá þessum tíma
en eigi að síður áætlar FORSEA
að bandarísk skip hafi frá 1971 til
1996 drepið 1.482.783 höfrunga
og aðrar þjóðir 800.820 höfrunga.
Samtals gerir það tæpar 2,3 milljónir
höfrunga á þessu árabili. Í heild
frá 1959 til 1996 eru þetta því 7,1
milljón höfrunga.
Til samanburðar er talið að
allar atvinnuveiðar á hval á
tuttugustu öldinni, sem voru
mestar í byrjun aldarinnar, hafi
skilað um tveim milljónum dýra.
Enn eru höfrungar drepnir af
bandarískum fiskiskipum, en eigi
að síður beina dýraverndarsamtök
athyglinni miklu fremur að veiðum
japanskra fiskimanna á höfrungum,
grindhvaladrápi Færeyinga sem
og hvalveiðum Íslendinga og
Norðmanna.
Náttúruverndarsamtökin Natural
Resources Defense Council
(NRDC) hafa áætlað að yfir 650.000
sjávarspendýr og þar af um 300.000
höfrungar séu ýmist veiddir til
fæðuöflunar eða ánetjist og séu
drepnir af þeim sökum árlega um
heim allan. Ljóst er því að allar
hvalveiðar Íslendinga, Færeyinga og
Norðmanna samanlagt eru því dropi
í hafið í þeim samanburði þó að erfitt
sé í sjálfu sér að réttlæta með því
hvalveiðar þessara þjóða.
Mönnum var farið að blöskra
höfrungadrápið
Á sjöunda áratug síðustu aldar
var mörgum farið að blöskra
gegndarlaust dráp á höfrungum.
Sett voru lög í Bandaríkjunum árið
1972 sem áttu að draga úr þessu
höfrungadrápi, svokölluð U.S.
Marine Mammal Protection Act. Þau
voru síðan endurskoðuð 1984. Var
túnfiskveiðifyrirtækjunum ætlað að
breyta sinni veiðitækni til að draga
úr höfrungadrápinu og koma því
niður í núll á tveim árum. Ljóst er
að veiðimenn gáfu alls ekki upp
allan höfrungadauða, en samkvæmt
opinberum tölum var áætlað að frá
1970 til 1980 hafi höfrungadrápið
dregist saman úr 500.000 dýrum á
ári í 20.000 dýr á ári.
Túnfiskveiðiflotinn stækkaði
samt á þessum tíma og inn í
veiðarnar komu skip frá Mexíkó,
Venesúela, Ekvador og fleiri Suður-
Ameríkuríkjum og höfrungadrápið
jókst þá á nýjan leik. Komst þetta
höfrungadráp þá í sviðsljósið á
heimsvísu. Sett var fjölþjóðleg
nefnd í málið, „Inter-American
Tropical Tuna Commission“, sem
setti á fót höfrungaverndarátak
árið 1979. Samkvæmt tölum
alþjóðlegs eftirlitsverkefnis jókst
höfrungadrápið eigi að síður úr
20 þúsund dýrum á ári árið 1980 í
133.000 dýr árið 1986.
Bandaríkjamenn töldu sig þó
vera fyrirmynd í verndarstefnunni
og var farið að gera kröfur um að
túnfiskur yrði ekki fluttur inn frá
ríkjum sem stunduðu hömlulaust
höfrungadráp. Þegar kom fram á
árið 1994 var nær ómögulegt að
selja túnfisk í Bandaríkjunum nema
hann fengi stimpilinn „dolphin-safe
tuna“. Fljótlega fór þá að bera á
misnotkun á þessari vottun. Vegna
mikils pólitísks þrýsting var síðan
gert samkomulag sem tók gildi árið
1999, undir heitinu; Agreement
on the International Dolphin
Conservation Program (AIDCP).
Þá var fjöldi „tilkynntra“ höfrunga
sem komu í veiðarfæri sagður vera
kominn undir 3.000 dýr á ári.
Árið 2002 var talið að höfrunga-
stofnar væru vart nema um
fimmtungur þess sem þeir voru þegar
túnfiskveiðarnar hófust fyrir alvöru.
Þrátt fyrir fullyrðingar um minna
höfrungadráp þá er ljóst að mikill
fjöldi höfrunga er enn drepinn árlega
þegar þeir koma í veiðarfæri sem
meðafli í fiskveiðum. Áætlaðar tölur
NRDC um að drepnir séu 300 þúsund
höfrungar á ári sýna vel að ekki er
allt sem sýnist í umræðunni.
Hörður Kristjánsson
hk@bondi.is