Bændablaðið - 05.06.2014, Side 36

Bændablaðið - 05.06.2014, Side 36
36 Bændablaðið | Fimmtudagur 5. júní 2014 Utan úr heimi Fastar akstursleiðir um túnin – Sænskir vísindamenn hafa nú sýnt fram á ótvíræða kosti þess til þess að ná aukinni uppskeru af spildum með smárablöndum Notkun á föstum akstursleiðum um kornakra er vel þekkt fyrirbæri, til þess að bæla og hefta sem minnst vöxt planta þegar verið er að vinna á ökrunum s.s. við áburðargjöf, úðun, vökvun og fleira. Til þessa hefur hins vegar ekki tíðkast að notast við fastar akstursleiðir um tún en sænskir vísindamenn hafa nú sýnt fram á ótvíræða kosti þess, sér í lagi til þess að ná aukinni uppskeru af spildum með smárablöndum en með því að aka alltaf í sömu sporunum um túnin má auka uppskeru þeirra bæði mælt í kílóum og gæðum. Þjöppun óæskileg Smári og aðrar skyldar belgjurtir eru mikilvæg uppspretta próteins í fóðri búfjár en gallinn við belgjurtirnar er vissulega skammur líftími sé meðferð þeirra ekki þeim mun betri. Í Svíþjóð er þjöppun túna nokkuð sem hefur verið horft sérstaklega til, með líftíma smára í huga, enda hefur þjöppun veruleg áhrif á rótarvöxt smárans og þar með á uppskeruna. Langtímaáhrif þjöppunar, s.s. akstur um tún, getur leitt til þess að smárinn hopar að fullu og hverfur. En það er ekki bara smárinn sem getur hopað við þjöppun, það sama gildir um margar aðrar plöntur þannig að því minni sem heildar þjöppun jarðvegsins er, því betra. Reyndin er sú að sé ekki hugsað sérstaklega um þennan þátt geta ólíkar akstursleiðir legið um allt að 80% spildanna en með stöðluðum akstursleiðum má draga þessa yfirferð niður í 10-15%! Hvað er til ráða? Ætli maður að gera sitt besta til þess að aka í sömu hjólförunum aftur og aftur þarf þó meiri tækni en að nota helstu kennileiti í landslaginu. Með því að nýta sér GPS-tæknina er hins vegar hægt að ná afar langt og ef dráttarvélin er jafnframt búin sjálfstýribúnaði verður vart komist lengra í nákvæmninni. Hefðbundið GPS kerfi er þó ekki nógu nákvæmt til þess að stjórna dráttarvél með og því notast flest stýrikerfi dráttarvéla við svokallað RTK (Real Time Kinematic) kerfi en það, í tengslum við GPS kerfið, gefur mun meiri nákvæmni við stýringu og allt niður í +/- 2 sentímetra! Í dag eru allar nýjar dráttarvélar fáanlegar með sjálfstýribúnaði og auk þess eru á markaðinum nokkrir aðilar sem selja slíkan búnað í eldri vélar en samkvæmt talningu vélaráðgjafa, hjá Þekkingarsetri landbúnaðarins í Danmörku, þá eru í það minnsta tólf framleiðendur á markaðnum í dag með búnað sem hægt er að setja í dráttarvélar og gera þær sjálfkeyrandi. CTF (Controlled Traffic Farming) Til þess að ná bestum árangri með fastar akstursleiðir þarf að notast við sk. CTF-kerfi til að nýta spildur sem best og lágmarka óþarfa umferð um þær. Kerfið byggir á því að öll tæki séu af staðlaðri stærð eða fast hlutfall af mestri vinnslubreidd tækis svo alltaf megi sömu akstursleiðirnar um túnin. Fyrir vikið verður vissulega mikil þjöppun akstursleiðanna, sem aftur getur leitt til þess að gera þurfi ráðstafanir vegna þess að þær vaðast upp. Á móti kemur að um aðra hluta túnanna er þá í raun aldrei ekið! Samstilling vinnslubreiddar Hægt er að velja ólíkar aðferðir við skipulag akstursleiða en oftast hlaupa þessar stærðir á fjórum metrum, þ.e. bil á milli leiða eru 4, 8 eða 12 metrar en því breiðara sem bilið er – þeim mun minna verður heildarálagið á spilduna. Þegar þetta er sett upp er alltaf miðað við það tæki sem er með minnsta vinnslubreidd og svo margfeldi af þeirri breidd. Oftar en ekki er það sáðvélabreidd sem ræður þessari stærð erlendis en væntanlega er það sláttubreiddin sem oftar en ekki ræður þessu hér á landi. Þó svo að 12 metra vinnslusvæði sé mikið notað erlendis þá eru oft notast við aðrar staðlaðar breiddir svo sem 9; 10,67 eða 13,5 metra. Þetta fer allt eftir því hvaða tæki eru oftast í notkun á viðkomandi búi. Hér á landi er líklegt að miða megi við 9 metra í mörgum tilvikum. Samstilling hjólabils Eitt er að koma sér upp vélaflota sem er með staðlaða vinnslubreidd og/eða margfeldi af vinnslubreidd minnsta tækis. Hitt er svo að tækin hafi svipað hjólabil. Í dag er þar afar mikill fjölbreytileiki en oft hentar 2ja metra bil, mælt úr miðju hjóli í mitt hjól, sem einskonar meðalbreidd. Það getur þó þýtt að í einhverjum tilvikum þarf hreinlega að breyta hjólabili tækis, en í dag fæst margskonar aukabúnaður til þess fyrir flest tæki sem seld eru bændum einmitt í þessum tilgangi. Skipulagning leiða Að síðustu þurfa svo spildurnar vissulega að henta fyrir notkun á CTF kerfi en sé bil á milli skurða t.d. hugsað í upphafi með staðlaða vinnslubreidd í huga, er auðveldara að koma þessu kerfi í notkun. Oftast skipuleggja bændur kerfið sitt þannig að notast bæði við fastar leiðir og svo leiðir mitt á milli fyrir minni vinnslubreiddir. Þannig er oftast ekið eftir hinum föstu leiðum en svo einstaka sinnum farið eftir öðrum leiðum. Reynslan frá Svíþjóð Líkt og hér að framan hefur komið fram hafa fastar leiðir fyrst og fremst verið notaðar við kornrækt en nú í seinni tíð, með sífellt breikkandi vinnslubreidd landbúnaðartækja, hafa augu bænda opnast fyrir mögulegum kostum þess að vera einnig með fastar akstursleiðir í hefðbundinni grasframleiðslu. Sænskir vísindamenn hafa einmitt verið að skoða þetta náið og sl. ár kom út skýrsla í Svíþjóð [Kontrollerad trafik (CTF)] sem byggir á viðtölum við fjóra bændur sem hafa tileinkað sér notkun á CTF en allir eru með sjálfstýribúnað í vélum sínum. Í stuttu máli sagt voru þeir einhuga um mikilvægi þess að nýta sjálfvirkni við stjórn tækjanna og voru ánægðir með virknina. Þá töldu þeir allir að með stækkandi tækjum, og sér í lagi þyngri tækjum, þá væri orðið nauðsynlegt fyrir alla bændur að huga að því að draga úr álagi á spildurnar og þar með jarðvegsþjöppunina sem hin mikla umferð veldur. Snorri Sigurðsson sns@vfl.dk Nautgriparæktarsviði Þekkingarsetri landbúnaðarins í Danmörku Fjarstýrðu tækin eru alltaf að verða stærri og stærri. GPS-sjálfstýribúnaður í dráttarvél. GPS-hjólbörur. Sjálfstýribúnaður við stýrishjól. Stjórntölva fyrir sjálfstýringu. För eftir vélar og tæki á túni.

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.