Bændablaðið - 05.06.2014, Page 46

Bændablaðið - 05.06.2014, Page 46
46 Bændablaðið | Fimmtudagur 5. júní 2014 Lesendabás Eru nýju fjósin betri? Ný fjós og breytt eldri fjós líta nú dagsins ljós hvert á fætur öðru. Ég hef reynt að þefa eftir áliti eigenda nýrra og breyttra fjósa um kosti og galla að þeirra mati og hvað aðallega breytist til batnaðar, nú eða til hins verra. Í langflestum nýjum fjósum eru mjaltaþjónar og er umfjöllun þessi byggð á upplýsingum bænda með slíkan mjaltabúnað. Hér er því samantekt þess sem oftast bar á góma og í stórum dráttum. Misjafnt er hvort byggt er yfir geldneyti og kálfa um leið og mjólkurkýrnar og ekki er óalgengt að eldri fjósbyggingar séu teknar undir fyrir þann hluta bústofnsins. Þar sem bændur hafa sett smákálfana í nýbygginguna er nær alls staðar um að ræða hálmstíur og mikill sjáanlegur munur er á þroskaferli, heilbrigði og hirðu og er það vel Þær skoðanir sumra bænda að kýrnar verði fyrir of mikilli truflun í nærveru smákálfa á sér færri talsmenn og ætti ekki að verða til þess að smákálfarnir séu látnir líða fyrir í lakari aðstöðu. Júgurheilsa kúa í nýju fjósunum batnar hjá langflestum, skýringin er sennilega að lausaganga kúa í fjósum og mjúkir legubásar stuðla ótvírætt að betra heilsufari hvað varðar júgur og fótamein. t.d. eru spenastig og ákomur á spena nær óþekkt vandamál. Klaufir slitna meir og oftast verða beiðsli sjáanlegri en í hefðbundnum básafjósum. Betri loftræsting Loftræsting er nær undantekninga- laust betri í nýju fjósunum og hitastig nær kjörhitastigi kúa, þetta virðist kúnum mjög til heilsubótar. En til upplýsinga verður að vera ljóst að ekki dugir að setja einungis upp opinn mæni (opnanlegan þakglugga) heldur verður að setja loftinntök efst á hliðar fjóssins eða vindnetsglugga svo að loftræstingin virki sem skyldi, þ.e. loft inn á hliðum og út um þakgluggann. Hef séð nokkur fjós þar sem vantar loftinntök og það er hálfkák. Burðarsjúkdómar og kálfadauði virðast ívið sjaldgæfari, en um þetta eru skiptar skoðanir. Oftast eru þó góðar burðarstíur, til dæmis hálmstíur í nýjum fjósum sem stuðla að áhættuminni burði ef kúnum er á annað borð komið þangað tímanlega. Kýrnar eru sjáanlega ánægðari vegna lausagöngunnar og trúlegt er að heilbrigði þeirra sé almennt betra t.d. vegna frjálsræðis þeirra, minni spenameina, minnkandi fótameina og beinasjúkdóma. Langflestir telja sig sjá aukin nyt, sem er að miklu leyti tilkomið vegna tíðari mjalta og betri heilsu kúnna almennt, en algengt orðið nú í seinni tíð að mætingar til mjalta eru komnar 2,8-3 á sólarhring einu til tveim árum eftir að nýbyggingin er tekin í notkun. Þetta hefur breyst mikið frá því á fyrstu árum mjaltaþjónanna en þá voru 2,3-2,4 mjaltir á sólarhring algengt. Þó er vert að hafa í huga að sennilega eru svo tíðar mjaltir ekki eins algengar nú síðustu mánuði vegna þess að margir hafa freistast til að fjölga kúm vegna beiðni um meiri mjólk og loforða um fullt verð fyrir umframmjólk þannig að víða er orðnar of margar kýr á hvern mjaltaþjón þannig að bið verður of löng á álagstímum og þá í raun hagnast menn mjög lítið með fjölgun kúa auk þess sem trúlegt er að meira fari að bera á álags sjúkdómum. Nokkuð víða hækkar líftala í tanksýnum, mismikið en þetta á ekki að þurfa að gerast ef þrif eru fullnægjandi, básar þurrir og hreinir, göngusvæði hrein og kýr þar með hreinar. Nær allir höfðu aukið þrif í fjósi og á mjaltaþjóni og þannig tekist að halda líftölunni undir úrvalsflokksmörkum. Það er vel launuð vinna. Einnig voru víða hærri mælingar vegna frírra fitusýra (ffs), þó er þetta engan veginn regla og hjá mörgum hækkar þessi mælingaþáttur ekki og tekið skal fram að hjá flestum sem voru að glíma við hækkandi ffs tókst að lagfæra þann annmarka með ráðgjöf þannig að viðunandi varð. Aðalorsök hækkunar á ffs voru of tíðar mjaltir lágmjólka kúa, frystikæling og hrærupískun í tank þegar mjólkin er minnst eftir losun. Mun meiri tíma er varið í fjósþrif, þrif á básum, undirburð eins og áður er komið fram og einnig í tölvuvinnu til að skoða kúahópinn og huga að afbrigði sem getur verið ábending um að eitthvað sé að viðkomandi grip. Það gengur hins vegar misvel að koma kjarnfóðrinu í kýrnar og stundum verða minnimáttar kvígur og kýr útundan, það er eiga í basli með að éta óáreittar í kjarnfóðurbásnum vegna yfirgangs frekra og háttsettari kúa sem reka þær of oft frá. Þessu hafa róbótasmiðir bæði Delaval og Lely séð við og bjóða nú lokaða kjarnfóðurbása þ.e. sem loka með hliði sem gengur utan yfir kúna þegar hún er komin í fóðurbætinn. Meiri þrif í lausagöngufjósum og flórþjarkar nauðsynlegir Lausagöngufjósin eru því miður oft óþrifalegri en góð básafjós sem hugsað er vel um en með aukinni vinnu við þrif er hægt að hafa þessi fjós ágæt. Þetta er þó mjög misjafnt og hefur batnað mikið nú síðustu árin vegna þess að flestir sem byggja í dag eru með haughús undir öllu og flórþjark (sköfuróbóta) en þannig búnaður heldur fjósinu og þar með kúnum miklu þrifalegri og þurrari en hefðbundnar sköfur, svo ekki sé nú talað um sköfukerfi með ofanáliggjandi brautum sem kýrnar skripla á með tilheyrandi slettum upp um allt, hef séð slettur uppi í lofti fjósa með slíkar sköfur. Það er varla hægt annað en segja við bændur sem hyggja á nýbyggingu – „Ekki láta ykkur detta í hug aðra sköfutækni en flórþjark“. Engin haldbær rök fyrir að klippa ekki kýrnar Eitt er það sem stundum er lakara í nýjum lausagöngufjósum og viðurkennt er af mörgum sem ég hef rætt við, en það er sú tilhneiging að klippa ekki kýrnar og kenna menn um eða bera fyrir sig að meira umstang sé að klippa kýr í lausagöngu því það verði að setja þær í aðhald og auk þess sé það kalt í fjósinu að ekki sé sama þörf á. Á þessa röksemd fellst ég ekki og bendi á að það er ekki kuldinn sem er slæmur fyrir kýrnar heldur raki og bleyta þannig að slíkur fyrirsláttur er ekki réttmætur. Þetta er ekki í takt við það að bændur vita allir hvað kúnum er fyrir bestu. Átsjúkdómar svo sem doði, súrdoði og þemba virðast ívið minni en í gömlu fjósunum en hjá nokkrum ber meira á þessum krankleika en áður. Of oft eru mistök gerð varðandi það að geta mismunað nægilega í gjöf sem að flestra mati vegur þungt með tilliti til nythæðar og átsjúkdóma. Þarna er átt við heygjöf eða gróffóður. Þá virðist á nokkrum bæjum þar sem júgurheilbrigði er lakara en þurfa þykir, smitferli vera meira í lausagöngufjósum, trúlega vegna þess að kýr leka sig í bása hingað og þangað um fjósið og verra er að koma því við að flokka kýr í forgangsröð til mjalta s.s. mjólka júgurhraustar kýr á undan þeim lakari, það síðast talda á þó ekki við um róbótafjósin eins og gefur að skilja. Sýnataka og greining úr kúm fyrir geldstöðu, reglubundin PCR- greining úr tanksýnum og velvakandi bændurnir sem skoða afbrigðilega mælingar og leiðnitölur daglega eru forsenda velgengni ásamt auðvitað þessu síumrædda, þurrum og hreinum básum. Flestir höfðu gert ráð fyrir smákálfastíum jafnvel fleiri en einni til að sortera eftir aldri og voru flestir að nota hálm sem er það besta fyrir ungviðið en gallinn var sá að stundum áttu þeir ekki hálm og erfitt var að útvega hann og stundum langt að sækja. Og of víða höfðu menn gert þau afdrifaríku mistök að vera með alltof litla drenmöguleika þannig að hálmurinn varð of fljótt blaut drullusoffa og þurfti þá oftar en menn bjuggust við að þrífa stíuna og endurnýja hálminn í stað þess að bæta við hann reglulega ákveðinn tíma. Það er mat mitt eftir skoðun margra fjósa að hálmstíugólf verði annað hvort að vera steinbitar og haughúsið nái undir stíurnar og ef það er ekki hægt að hafa þá fláa í miðjunni með ristarniðurfalli þvert yfir stíuna þ.e. gólf halli að miðju og helst ekki undir 5-7%. Allir voru sammála um að velferð kvígukálfana væri forgangsatriði enda um að ræða tilvonandi mjólkurkýr, tekjumyndun og lífsafkoma bændanna. Að lokum, ég veit ekki um einn einasta bónda sem er óánægður með nýja fjósið sitt en margir hafa þó talað um að þeir myndu hafa suma hluti öðruvísi ef þeir byggðu aftur. Kristján Gunnarsson Ráðgjafi hjá Bústólpa. Nýja fjósið á Moldhaugum. Lokanlegur kjarnfóðurbás.

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.