Bændablaðið - 19.06.2014, Page 24

Bændablaðið - 19.06.2014, Page 24
24 Bændablaðið | Fimmtudagur 19. júní 2014 Borgar sig að eiga rúllusamstæðu? Framhald Í síðustu grein bjó ég til dæmi þar sem ég bar saman kaup á rúllusamstæðu og verktaka. Ég er búinn að fá nokkur viðbrögð við greininni, aðallega um forsendur útreikninga. Einn aðili vildi meina að ég hefði gert ráð fyrir of lágu söluverði tækjanna í lok rekstrartímabils og að menn væru að greiða hærra fyrir rúllun en ég sagði. Vissulega má gera athugasemdir við þessar forsendur en þeir sem ég talaði við höfðu sjálfir ekki sett niður fyrir sig kostnað við að eiga og reka tæki eins og ég gerði. Í rekstri er það aðalatriðið að menn gefi sér forsendur til að reikna út frá þekktum staðreyndum og geri sér grein fyrir kostnaði og tekjum. Markmið rekstrar er væntanlega að hámarka laun og hagnað en ekki að eiga tæki. Forsendur fyrir útreikningum eru aldrei annað en þær upplýsingar sem eru fyrir hendi. Það má sem dæmi setja spurningarmerki við hátt verð sjö ára gamalla tækja; þegar endurnýjunarþörfin í sveitum eykst eða nýting á þeim tækjum sem eru þegar í gangi batnar lækkar verð á tækjum í endursölu. Verð á sjö ára gömlum tækjum ræðst af framboði og eftirspurn, ekki innkaupsverði. Ef við höldum áfram með þetta „dæmi“ er gert ráð fyrir að vextir séu 9%. Þetta líkan er notað til að meta hvort það borgar sig að kaupa tækið. Ég fjallaði ekki um greiðsluflæðið, innkomu (tekjur) og kostnað auk afborgana lána (gjöld). Gefum okkur núna að viðkomandi bóndi hafi keypt vélina en ekki hugsað út í kostnaðinn við að eiga og reka tækið. Hann þarf að fá lán fyrir mismun á innkomu og útgjöldum þar sem fjárfestingin er dýrari en verðið sem verktakinn bauð honum. Fjármagnskostnaður hefur mikil áhrif á arðsemi verkefna. Þar sem vextir hér eru háir skiptir verulegu máli að hafa mikið eigið fé í fjárfestingum til að verkefni geti staðið undir sér til lengri tíma. Í þessu tilfelli kemur útstreymi fjárfestingarinnar á undan innstreymi, þ.e.a.s. fjárstreymið er ekki jákvætt fyrr en í lok tímans. Þá þarf að taka lán til að brúa tapið eða þá að ganga á sparifé. Almennt eru menn ekki að velta fyrir sér þessum þáttum, þar sem undir venjulegum kringumstæðum fjárfesta menn ekki ef einfalt arðsemismat stendur ekki undir sér. Svona til upprifjunar: Bóndi þarf að velja á milli þess að kaupa rúlluvél og stærri dráttarvél, sem fjárfesting upp á 15 milljónir, eða láta rúlla fyrir sig. Gert er ráð fyrir að hann selji rúlluvélina á sjö milljónir eftir sjö ár. Tap er öll árin nema síðasta árið þegar vélin er seld. Það tap þarf að fjármagna með viðbótarláni, svo sem eins og yfirdrætti í banka. Miðað við 9% vexti af láninu og að viðbótarfjármagn sé yfirdráttarlán sem beri 12% vexti eykst tapið úr tæpum 1.300 þúsund í rúmar 3,4 milljónir króna, miðað við að lánið rúlli áfram þar til tækið er selt. Einfaldast er þó að hugsa hvað rúllun kostar á einingu miðað við að rúlla sjálfur eða fá verktaka. Ef tækin eru keypt er framleiðsluverðið 1.570 krónur, eða 270 krónum meira en verðið hjá verktakanum. Tjón hans vegna rangrar fjárfestingar er því 459 þúsund krónur (240*1.700 rúllur) á ári næstu sjö árin. Að lokum, til að ná árangri í rekstri ættu bændur að skoða reglulega hjá sér hvort það borgi sig að selja tækin og kaupa að verktaka til að vinna fyrir sig. Sjá töflu með útreikningum á vefsíðunni burekstur.blog.is Kvótaverð á mjólk Í framhaldi af þessum vangaveltum er fróðlegt að velta fyrir sér kvótaverðinu eins og það er að þróast. Kvótakerfið hefur í gegnum tíðina verið baggi á bændum að því leyti að við það að stækka búin þarf að kaupa aðgang að markaðnum dýru verði. Það er öfugsnúið, þar sem ekki er hægt að reka bú öðruvísi en að fá beingreiðslur. Þetta þarf að laga. Á árunum fyrir hrun skipti mikið af kvóta um eigendur. Ekki voru neinar forsendur til að viðkomandi kaupendur gætu endilega staðið undir þessu fjárhagslega. Líklegasta skýringin á því að menn fengu þá niðurstöðu að það borgaði sig að kaupa kvóta á yfir 350 til 420 kr. var sú að menn treystu því að kvótinn héldi verðmæti sínu. Afleiðing af háu verði á kvóta er sú að erfitt er að byggja fjós. Þegar neyslan eykst hratt eins og síðustu ár geta búin ekki aukið afkastagetu sína. Þeir sem vilja auka framleiðsluna geta það ekki, þar sem núverandi framleiðslugeta er fullnýtt. Nú eru bændur sem eru að byggja fjós að treysta á fullt afurðarstöðvarverð á umfram mjólk verði næstu árin. Eftir tvö ár þarf að endurnýja búvörusamninga og þá þarf að semja þannig að kvótaverð haldi áfram að lækka til að sagan endurtaki sig ekki og kvótaverð komi ekki í veg fyrir hagræðingu í greininni og stækkun á búum. Ég sé ekki annað fyrir mér en að verð á kvóta haldi áfram að lækka verulega, enda áhættan af því að kaupa kvóta of mikil. Kvótakerfið hefur undanfarin ár tafið framþróun í greininni, þar sem of dýrt hefur verið að kaupa kvóta. Það sem eftir situr er: Hvernig stóð á því að kvótaverð náði þessum hæðum á árunum eftir 2007? Meiri umfjöllun um búrekstur á burekstur.blog.is Jón Þór Helgason Meistaragráða fyrir geitfjárrannsóknir Rannsakaði atferli, hópamyndum og fæðuval íslensku geitarinnar Hrafnhildur Ævarsdóttir lauk nýlega meistaragráðu í líffræði við Háskóla Íslands, en í lokaverkefni sínu rannsakaði hún atferli, hópamyndun og fæðuval íslensku geitarinnar. Íslenska geitin hefur lítið verið rannsökuð hér á landi og eru því allar upplýsingar verðmætar í ljósi verndargildis og áframhaldandi uppbyggingu stofnsins. Stofninn er í útrýmingarhættu og höfum við skyldum að gegna að vernda hann. Mikilvægt er að auka áhuga á að rækta og halda geitur bæði vegna þess og vegna margvíslegra möguleika í að koma afurðum þeirra í verð. Geitaverkefnið kom þannig til að Sif Matthíasdóttir, eiginkona Jörundar Svavarssonar, prófessors við Háskóla Íslands, hafði samband við Hrefnu Sigurjónsdóttur, prófessor við Háskóla Íslands og aðalleiðbeinanda verkefnisins, í leit að nema til þess að rannsaka geitur sem þau hjónin höfðu þá nýlega eignast. Í samráði við Ólaf R. Dýrmundsson, ráðunaut hjá Bændasamtökum Íslands, var ákveðið að rannsaka atferli og hópamyndun íslensku geitarinnar. Seinna bættist fæðuval við rannsóknina þegar Anna Guðrún Þórhallsdóttir, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, kom með í fyrstu vettvangsferðina upp á Háafell í Hvítársíðu þar sem stærstu geitahjörð landsins er að finna. Rannsóknin varpaði því ljósi á hvernig geitur eyða helst tíma sínum í haga, hvers konar hópa þær mynda og hvað þær éta. Rannsóknarvinnan fór fram að sumar- og haustlagi á tveimur bæjum, Háafelli í Hvítársíðu þar sem stór hjörð geita er, og Brennistöðum í Flókadal þar sem minni hópur er haldinn í afmarkaðra hólfi. Mikilvægt var að vera með geitunum í eins langan tíma í einu og hægt var og gátu dagarnir orðið fremur langir yfir sumartímann. Að sögn Hrafnhildar eru geitur þó heillandi dýr og ekki amalegt að eyða þessum tíma með þeim og skyggnast inn í líf þeirra. Geitur ekki sérstaklega ættræknar Í ljós kom að geiturnar mynda tiltölulega litla hópa sem leysast þó oft upp, en algengasta hópastærð var 2–5 geitur. Þær virðast ekki vera neitt sérlega ættræknar því að hóparnir voru sjaldan samsettir af skyldum einstaklingum svo sem mæðgum eða systrum, eins og sést oft hjá sauðfé þegar það er í haga yfir sumartímann. Geiturnar eyddu meira en helmingi dags í haga í beit eins og flestir grasbítar gera. Það kemur þó fæstum geitabændum á óvart að geiturnar kunnu illa við rigningu og hreinlega hurfu hóparnir í skjól þegar rigndi, en það átti bæði við um Háafell og Brennistaði. Geiturnar á Brennistöðum eyddu minni tíma í beit og má því ætla að stærð hólfs hefur áhrif á beitina, þar sem þær höfðu minna svigrúm til þess að ferðast um sitt hólf en Háafellsgeiturnar. Á beit virtust geiturnar mest gæða sér á grösum en fæðuval virðist vera samspil framboðs tegunda á svæðinu, aðgangi að túnum og heyrúllu við bæinn. Verkefnið reyndist einstaklega áhugavert og telur Hrafnhildur að þarna hafi skapast sérstök tækifæri til að skyggnast inn í líf íslensku geitarinnar. Á myndinni frá mastersvörninni 11. apríl sl. talið frá vinstri: Dr. Sigurður S. Snorrason, Háskóla Íslands, dr. Anna Guðrún Þórhallsdóttir, Landbúnaðar- háskóla Íslands, Hrafnhildur Ævarsdóttir M.Sc., dr. Hrefna Sigurjónsdóttir, Háskóla Íslands, og dr. Ólafur R. Dýrmundsson, Bændasamtökum Íslands, sem var prófdómari. Lesendabás Landssamband eldri borgara 25 ára Samstaðan skiptir máli Það voru framsýnir menn sem stofnuðu til Landssambands eldri borgara (LEB) fyrir 25 árum, nánar tiltekið þ. 19. júní 1989. Í fyrstunni hét það Samtök aldraðra en var seinna breytt í það sem nú er. Stofnfundurinn var á Akureyri og fyrsti formaður var Aðalsteinn Óskarsson, Akureyri. Tíu félög eldri borgara stóðu að stofnun landssambandsins en í dag eru þau 54 með tæplega 21.000 meðlimi. Í slíkum fjölda getur verið mikill styrkur ef samstaða næst um málin. Meginmarkmið Landssambands eldri borgara er að vinna að hagsmunamálum eldri borgara og koma fram fyrir hönd aðildarfélaganna gagnvart stjórnvöldum. Það gerir landssambandið með því að veita stjórnvöldum ráðgjöf varðandi stefnumótun og áform um aðgerðir í þágu eldri borgara. Einnig með því að gefa umsögn um lagafrumvörp sem snerta að einhverju leyti hag eldri borgara, og var á sl. vetri gefin umsögn um 15 frumvörp og/eða þings- ályktunartillögur á Alþingi. Jafnframt hefur lands sambandið síðast liðin ár haldið fræðslu- fundi með aðildarfélögunum um allt land um hin ýmsu mál sem snerta hag eldri borgara og veitt upplýsingar um starf LEB, hvaða málum sé verið að vinna að og hvaða árangur hafi náðst. Landssambandið rekur einnig heimasíðu leb.is og gefur út tímaritið Listin að lifa tvisvar á ári, sem sent er frítt til allra meðlima félaganna. Nú í vor var gefið út veglegt afmælisblað af Listinni að lifa, sem prentað var í tvöföldu upplagi, eða 45.000 eintökum, og sent á öll heimili landsins þar sem bjuggu einhverjir 60 ára eða eldri. Dreifing blaðsins var meiri en venjulega vegna 25 ára afmælisins. Starfið fram undan Það hefur verið ákaflega gefandi starf og skemmtilegt að heimsækja félög eldri borgara. Sjá hvaða starfsemi er í gangi, hvernig aðstaðan er og hversu lifandi starfið er í hverju félagi. Ég vænti þess að á næsta vetri takist okkur í stjórn LEB að heimsækja þau félög sem við náðum ekki sl. vetur, en veðurfarið í janúar og febrúar var ekki beint hagstætt til ferðalaga í dreifbýlinu og þurfti því nokkrum sinnum að aflýsa fyrirhuguðum fundum. Með samningi sem við höfum gert við Velferðarráðuneytið höfum við tekið að okkur setu í mörgum starfshópum á vegum stjórnvalda, s.s. um endur- skoðun almannatrygginga, um endurskoðun laga um málefni fatlaðra og félagsþjónustu sveitarfélaga, starfshópi um velferðartækni í félagsþjónustu, um húsnæðismál og um mótun fjölskyldustefnu, og eigum fulltrúa í stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra. Það má því nærri geta að það hefur verið nóg að gera hjá stjórn LEB, því stjórnarmenn hafa tekið að sér flest þessi verkefni, svo að stjórnin hefði yfirsýn yfir málin. Í þessum starfshópum er fjallað um mörg hagsmunamál okkar, s.s. húsnæðismál, almannatryggingar, lífeyrismál, starfslok, heima- þjónustu og hjúkrunarheimili. Það væri hægt að tíunda margt fleira úr starfi Landssambands eldri borgara. Ritnefndin gefur út og safnar efni í Listin að lifa. Fjármálaráðið leitar eftir styrktaraðilum og gerir samninga við fyrirtæki. Kjaranefndin fylgist með kjaramálum á breiðum grundvelli og sendir frá sér ályktanir. Velferðarnefndin tekur fyrir allt er varðar heimaþjónustu og hjúkrunarheimilin. Í vetur hefur stjórnin lagt mikla áherslu á að stofnað verði Öldungaráð í öllum sveitarfélögum nú að loknum sveitarstjórnarkosningum, og hefur því yfirleitt verið vel tekið. Með því væri kominn samstarfsgrundvöllur milli eldri borgara og sveitar- stjórnar manna. Og með því getum við haft áhrif á hvernig búið er að okkur í heimabyggð. Þannig hefur starf Landssambandsins verið að eflast mjög hin síðari ár, og á 25 ára afmælinu getum við litið yfir farinn veg með stolti og þakkað þeim sem hafa á liðnum árum unnið að málum okkar innan LEB af óeigingirni og lagt sig alla fram um að koma góðum málum áfram. Ég vænti þess að þannig muni það verða áfram og Landssamband eldri borgara verði virkt og sterkt afl í þjóðfélaginu sem ekki er hægt að ganga fram hjá við ákvarðanatöku um hagsmunamál hins stóra hóps eldri borgara landsins. Til hamingju með 25 ára afmælið. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.