Bændablaðið - 19.06.2014, Blaðsíða 28

Bændablaðið - 19.06.2014, Blaðsíða 28
28 Bændablaðið | Fimmtudagur 19. júní 2014 Lesendabás Aðbúnaður í fjósum Viltu bónus? – 1. hluti Ég hef gegnum tíðina og þegar ég starfaði sem mjólkureftirlitsmaður varið miklum tíma í að fá mjólkurframleiðendur í forvarnarvinnu, bæði vegna líftölu í mjólk og frírra fitusýra (ffs) en ekki síst þegar júgurheilbrigði og frumutala á í hlut, því ljóst er að lyf eru engin lausn heldur þrautarlending þegar júgurbólga er annars vegar. Þegar líftalan skutlast upp eða stighækkar eða mæling er há í ffs er oft of seint í rassinn gripið og bónusgreiðsla viðkomandi mánaðar er fokin út í veður og vind og verður ekki aftur tekin. Frekar fúlt finnst bændum „oftast“, því til eru bændur og ég þekki nokkra sem gefa lítið fyrir bónusinn og finnst forvarnarvinna í þessum efnum illa launuð. Hverjum er sama um bónusinn og hverjum ekki skiptir ekki máli en mér finnst það hljóti að muna um að fá um 1,70 kr./l í ofanálag fyrir gæðamjólk, t.d. þýðir það fyrir 350 þúsund lítra bú tæpar 600.000 kr. á ári takist að framleiða úrvalsmjólk í öllum mánuðum. Einn bóndi í þessum stærðarflokki sagði að bónusinn borgaði allan dýralækniskostnað búsins á árinu auk nokkurra kassa af rauðvíni eins og hann orðaði það sjálfur og glotti um leið, greinilega ánægður með lífið og tilveruna. Forvarnir gegn júgurbólgu og hárri frumutölu Ætla að byrja á að viðra skoðanir mínar á forvörnum og vinnu gegn júgurbólgu og hárri frumutölu jafnvel þó svo að MS hafi nú ráðið dýralækni til að aðstoða mjókurframleiðendur í þeim efnum og vonandi að kúabændur kunni að meta það ágæta framtak. En sem sé, frumutalan fyrst og síðar pistlar um önnur atriði sem varða bónusgreiðslur. Ég vona að það sé ljóst að þó að ég nefni hér og fari yfir atriði og vinnubrögð sem allir bændur þekkja vel og þarf vanalega ekki að segja þeim er ekki hægt að úttala sig um þessi mál nema nefna alla flóruna, sama hve augljós hún er vönum bændum. Gott atlæti smákálfa skilar sér Það er eðlilegast að byrja á því að ræða smákálfana, kvígurnar, sem góða byrjun á forvörnum og það er óumdeilanlega skynsamlegt að reyna að tryggja að byrjun sogatferlis verði ekki í smákálfastíunum. Ef smákálfarnir læra að sjúga hver annan í uppeldinu eru mun meiri líkur á sugum á eldri stigum, þeir byrja oft vegna vanlíðanar og leiðinda að sjúga eyru hver annars og rata síðan oftast að lokum í júgursvæðið. Góð forvörn við slíku er að kálfunum líði vel og eru þá leguaðstæður og þurrt umhverfi stærsti þátturinn, þ.e. hafa þá t.d. á þurrum og miklum hálmi við hæfilegt hitastig 13–15 °C og þrif séu það góð að flugnaplága angri þá ekki. Það er hörmung að sjá smákálfa þakta flugum sem angra þá og skríða inn í eyru þeirra og augu. Smákálfum við slíkar aðstæður líður verulega illa og þeir eru vansælir. Forvörn við flugnaplágu er hreinlæti, hreinir gripir, góð loftræsting, lágt hitastig og hafa flugnaspjöld eða láta eitra ef ekki tekst að halda flugunni í skefjum. Lítil rýr kvíga sem elst upp við lakar aðstæður verður sjaldan góð mjólkurkýr og beri hún með júgurbólgu er líklegt að hennar fyrsta mjaltaskeið verði einnig hennar síðasta. Byrjið strax að leyfa þeim að kroppa í fóðurbæti, það eykur á þroskaferli þeirra. Aldrei skyldi hafa smákálfa á berum steinbitum, raunar ekki nokkra skepnu. Smákálfum virðist einnig líða betur innan um aðra kálfa á svipuðu reki, eru félagslyndir og kúra sig saman þegar þeir liggja, þannig að góð hóphálmstía er að mínu mati mun betri en einstaklingsbox ef þroskaferli er haft til hliðsjónar. Það er gríðarlega áríðandi að hálminum sé haldið þurrum, þ.e. að bætt sé reglulega á hann og síðan mokað út og endurnýjað þegar hann fer að verða blautur og skítugur. Einnig er talið frumskilyrði að smákálfurinn fái mikinn brodd fyrstu dagana eftir fæðingu því þannig fær hann mótstöðuna gegn sjúkdómum og byggingu ónæmiskerfisins frá móðurinni og þéttingu garnakerfisins. Þetta er allt saman forsenda þess að kálfurinn haldi hreinlega lífi og nái hreysti. Eldri kvígur og aðbúnaður í stíum og básum Þegar kemur að eldri kvígum þ.e. eftir 6 mánaða aldurinn er það sama uppá teningnum þ.e. þurrt og gott legusvæði, annnað hvort hálmur eða það sem ekki er síðra, mjúkir legubásar. Síðan er hið augljósa eftir, að halda fengnum hlut þegar kýrin er farin að mjólka og þar ber fyrst að nefna að borið sé í básana og þeim haldið eins þurrum og hægt er. Skynsamlegt er að nota gott sag og blanda því saman 50/50 eða 60/40 við t.d. Staldren, sem er þurrkandi og sýklahemjandi duft sem fæst víða, m.a á Bústólpa. Sér í lagi er þetta mikilvæg forvörn í lausagöngufjósum þar sem kýr liggja ekki á sama básnum og geta því mögulega lekið sig í bása út um allt fjós, sem getur haft þær afleiðingar að smitferli eykst til muna. Notið aldrei spæni undir kýr vegna hættu á að flísar stingist í spena eða spenaop og myndi sár sem oftast endar með júgurbólgu því aragrúi er af sjúkdómsvaldandi sýklum í básunum sem bíða færis að komast í æti. Júgurbólgan Ef hægt er ber að reyna að mjólka kýr með júgurbólgu á eftir heilbrigðum kúm. Þetta er raunar erfitt í lausagöngu og nánast ógerlegt í róbótafjósum en þar gerir þetta minna til því róbótinn skolar hylkin eftir hverjar mjaltir og minnkar þannig líkur á millismiti. Ef júgurbólga er mikið vandamál í fjósi getur verið til bóta að nota góðan spenaúða, ég segi úða því sá galli er á dýfuglösum að þau geta orðið smitberi milli kúa nema hreinlæti þeirra sé þeim mun betur gætt, þ.e. glösin þrifin og tæmd daglega. Spenaúðinn þarf helst að mynda lokunardropa neðan í spenaopinu til þess að hæfileg vörn sé að, þ.e. speninn sé sem mest lokaður eftir mjaltir til hindrunar nýsmiti upp í gegnum spenaopið. Dýfur sem innihalda joð eru hátt skrifaðar þessa stundina. Það tekur spenaopið og varnarkerfi spenans u.þ.b. hálfa klst. að lokast og mynda viðunandi vörn gegn utanaðkomandi sýklum eftir mjaltir. Þetta meðfædda varnarkerfi er gríðarlega öflugt en getur skaðast og orðið lélegt ef t.d. mjaltir eru óvandaðar, soghæð mjalta ekki á réttu róli eða ónýtt spenagúmmí svo eitthvað sé nefnt. Fyrstu merki um að eitthvað sé að er útdregin slímhimna í spenaopinu og kross sprunginn spenaendi. Er mjaltakerfið í lagi? Fylgist vel með mjaltakerfinu hvort heldur hefðbundnar mjaltir eru eða sjálfvirkar og sparið ekki fyrirbyggjandi skoðanir, mælingar og yfirferð þjónustuaðila. Þá ber að nefna varnir gegn spenastigi sem er alvarlegur skaðvaldur, einn sá algengasti. Þá er básinn og bindingarnar, ef kýr eru bundnar, ofarlega á áhættuskránni. Burt með klafa og keðjubindingar og reimar í staðinn, lækka kantinn milli báss og fóðurgangs niður fyrir 15 cm, mjúkar mottur í bása. Einnig að mjólkandi kýr, kýr í geldstöðu eða yfirhöfuð kýr sem farið er að koma undir séu ekki hafðar í stíum með hörðu undirlagi og þá sér í lagi ekki á steinbitum vegna eigin stighættu, stighættu af öðrum kúm og ekki síst kulda frá haughúsi. Eru klaufirnar snyrtar? Að endingu og ekki síst er atriði sem er mjög mikilvægt, en það er klaufahirðan. Ofvaxnar klaufir eru undirrót margra sjúkdóma í kúm, m.a. júgurbólgu, svo ekki sé nú talað um stighættu kúa með ofvaxnar klaufir þar sem hættan er mest þegar þær eru að standa upp eða leggjast. Látið endilega snyrta klaufir a.m.k. árlega því ef það er gert reglulega verða minni líkur á helti sem oft má sjá á nýklaufskornum kúm sem voru með mikið vaxnar klaufir fyrir. Þá að lokum hið augljósasta, hrein og þurr fjós með hreinar og klipptar kýr eru mun líklegri til að vera laus við júgurbólgu, þetta er staðreynd. Hér hafa verið nefnd nokkur atriði sem skipta miklu máli í forvarnartilgangi en ljóst er að ef öll atriði sem skipta máli hefðu flotið með hefði þessi grein verið helmingi lengri. Kristján Gunnarsson ráðgjafi Bústólpa ehf. Kristján Gunnarsson Forvarnir og auglýsingar Það hefur verið ánægjulegt að heyra auglýsingar nokkurra fyrirtækja sem eru með forvarnarboðskap í fjölmiðlum. Sem dæmi minnir Eimskip unga reiðhjólanotendur á að nota hjálm, Bílabúð Benna á að fara aldrei neitt nema með beltin spennt og VÍS er með sínar skemmtilegu auglýsingar í sjónvarpi sem koma víða við. Vonandi er þetta upphafið að öldu auglýsinga í þessum stíl sem lúta að forvörnum hjá fleiri fyrirtækjum. Hvað get ég gert? Nánast allir þekkja einhvern sem hefur látist í slysi eða slasast það alvarlega að viðkomandi bíður þess aldrei bætur. Með því að opna umræðu um slys og ræða afleiðingar þeirra má minnka líkurnar á að þau endurtaki sig. Þetta hefur margsannað sig. Sem dæmi kom ég að umferðarátaki Snigla árið 1993 þar sem í einni auglýsingunni sagði eftirfarandi: „Fyrstu 10 ár Snigla dóu 15 manns á bifhjólum, en af þeim voru 5 fullir. Næstu 10 ár dóu 7 og enginn fullur.“ Árangurinn tvíþættur, annars vegar 100% árangur þar sem enginn dó ölvaður á hjólinu sínu. Hins vegar yfir 50% fækkun banaslysa bifhjólafólks. Þetta þakka ég persónulega því að þarna var mótorhjólafólk að fræða mótorhjólafólk með hjálp fjölmiðla. Bóndi fræðir bónda Því miður eru bændur á Íslandi ekki nógu duglegir að tilkynna slys og óhöpp svo að nánast ómögulegt er að vinna markvisst að forvörnum út frá gagnagrunni. Í síðasta forvarnarpistli nefndi ég hvernig börn eru notuð til að koma forvarnarskilaboðum heim á býli í Bandaríkjunum. Þar er til gagnasafn þar sem þeir sem hafa lent í slysum segja sögu sína. Einhver átakanlegasta sagan er frá K.T. Reynolds frístundabónda, sem heldur fyrirlestra öðrum til varnar af skelfilegri reynslu sinni. Sagan sem hann segir er þegar hann hafði fengið lítinn traktor að láni til að slá gras. Börnin hans þrjú – fimm, átta og níu ára – nauðuðu í honum allan daginn að fá að sitja hring með honum á litla traktornum. Alla tíð sagði hann nei því að það væri hættulegt. Þegar hann var búinn að slá báðu börnin um hringferð á þeirri forsendu að hann væri búinn að slá og þá væri það ekki hættulegt. Með yngsta barnið í fanginu og dóttur sína og son hvort á sínu afturbrettinu ákvað hann að fara smá hring með börnin. Ferðin fékk skelfilegan endi, brettið undan átta ára syninum brotnaði og hann varð undir afturhjóli vélarinnar og lést. Skilaboð K.T. Reynolds til annarra er að standa við að Nei er Nei og að hafa þor til þess að segja nei gerir foreldri að ábyrgari aðila. Margar svona reynslusögur má finna á forvarnarvefsíðum í amerískum landbúnaði, en árangur forvarna í Bandaríkjunum er virkilega mikill og aðferðarfræðin bæði góð og ódýr. Opin umræða skilar árangri Í þessum stuttu forvarnarpistlum hefur verið komið víða við og vonandi einhverjum til fróðleiks. Þó hef ég ekki enn fengið JÁ-svar við spurningu minni þegar ég spyr bændur sem ég hitti hvort slökkvitæki eða fyrstuhjálparpakki sé í traktornum. Ég ferðast mikið og finnst afgerandi misbrestur á notkun fólks í bílum á öryggisbeltum í smærri þorpum og þéttbýliskjörnum úti á landi. Oft sér maður fjórhjól eða sexhjól í vinnu á túnum en allt of oft er enginn hjálmur. Fyrir skemmstu lenti þingmaður í alvarlegu vélsleðaslysi. Í viðtali sagðist hann eiga bæði betri fjarskiptabúnað og brynju sem hann var ekki með í slysinu. Það getur verið í lagi að gleyma veskinu heima í búðarferð en að hugsa um öryggi sjálf síns og annarra á einfaldlega að vera sjálfsögð hugsun hvers og eins. Öryggisbúnaður er til þess að nota hann. liklegur@internet.is Hjörtur L. JónssonÖRYGGI – HEILSA – UMHVERFI KEEP FARM EQUIPMENT IN GOOD CONDITION SAFETY FOR FARMERS STAY FARM SAFE Góður aðbúnaður smákálfa skilar sér margfalt. Gott er að hafa kálfa á þurrum

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.