Bændablaðið - 19.06.2014, Blaðsíða 20

Bændablaðið - 19.06.2014, Blaðsíða 20
20 Bændablaðið | Fimmtudagur 19. júní 2014 Orkuforðinn okkar Verið velkomin í heimsókn í sumar! Kárahnjúkastífla: Búrfellsstöð: Vindmyllur á Hafinu: Kröflustöð: www.landsvirkjun.is/heimsoknir Kvikmyndatökulið á vegum BBC er nú statt hér á landi og vinnur að því að taka upp náttúrulífsmynd þar sem áherslan verður lögð á æðarfugl, íslenska hestinn, ref og samspil manns og náttúru. Myndin verður sýnd í Bretlandi og Bandaríkjunum á næsta ári og búast má við því að milljónir manns fái að kynnast Íslandi með sýningu hennar. K v i k m y n d a t ö k u l i ð i ð samanstendur af þeim Andy Chastney, sem stýrir verkefninu, k v i k m y n d a t ö k u m a n n i n u m og l jósmyndaranum Ian Llewellyn og Neil Anderson kvikmyndatökumanni. Þeir félagar komu fyrst til landsins í febrúar síðastliðnum og kvikmynduðu vetrarveður, snjókomu og storma og ýmsar náttúruperlur í klakaböndum, svo sem Gullfoss, Dettifoss og Jökulsárlón. Þá mynduðu þeir atferli refa á Hornströndum og munu fara þangað aftur á næstunni. Í þessari ferð hafa þeir verið við tökur við eggjatöku í Grímsey, myndað íslenska hestinn á Hólum í Hjaltadal og fylgst með dúntöku í Hvallátrum á Breiðafirði. „Veðrið hefur verið alveg ótrúlega gott að undanförnu, í raun má segja að helst vanti upp á að við getum myndað í stormi til að sýna náttúruna í öllum sínum myndum,“ segir Andy, sem dáist að náttúrufegurð landsins. Hluti af þáttaröð Myndin er sjónvarpsmynd sem er unnin fyrir BBC og verður sýnd í þætti sem heitir Natural World. Sá þáttur hefur verið á dagskrá í bresku sjónvarpi í aldarfjórðung við miklar vinsældir. Árlega eru framleiddar tólf náttúrulífsmyndir á ári af ýmsum toga. Viðfangsefnin geta verið ljón, snákar, Indland og í raun hvað sem er eins lengi og það er áhugavert og vel gert. Og nú er röðin komin að Íslandi. Andy segir að verkefnið eigi sér nokkurn aðdraganda. „Fyrir um fjórum árum kom upp sú hugmynd hjá mér og Ian félaga mínum að gera mynd um Ísland. Við vissum að það hefði ekki verið gerð mynd af þessu tagi á Íslandi, náttúrulífsmynd, í það minnsta ekki í mörg ár. Við ræddum við íslenska aðila og þá jókst áhugi okkar til muna. Það tók okkur nokkur ár að fá fjármögnun en hingað erum við nú komnir.“ Sambúð manns og náttúru í brennidepli Myndin mun sýna eitt ár í náttúru Íslands, með áherslu á æðarfugl, heimskautarefinn og íslenska hestinn en einnig ýmis önnur dýr í bland. Þar má nefna lundann og aðra sjófugla. „En ekki síst munum við einblína á fólkið, Íslendinga, og sambúð þeirra við náttúruna. Dúntekja er til að mynda skínandi dæmi um nýtingu náttúruauðlinda á sjálfbæran hátt. Það er kannski ekki hægt að segja hið sama um refinn en þurfa ekki allar góðar myndir að hafa skúrk í þeim?“ segir Andy hlæjandi og bætir við: „Það er mjög áhugavert viðfangsefni að fjalla um sambúð refsins við Íslendinga. Frá því að Ísland byggðist má segja að hafi staðið barátta milli manna og refs. Refurinn hefur sýnt mikla þrautseigju í þúsund ár þannig að hann er snjall skúrkur.“ Einnig sýnd á Animal Planet Næst á dagskrá er að fara og fylgjast með laxveiði í Laxá á Ásum og í Selá. Til stendur að klára myndatökur í haust, en þá hyggjast Andy og félagar mynda smölun og stóðrekstur. Myndin verður síðan klippt og tekin til sýninga á næsta ári á BBC 2. Sömuleiðis hafa náðst samningar við Discovery Animal Planet, en þar munu bandarískir áhorfendur fá tækifæri til að sjá myndina. Að sögn Andys er það fremur sjaldgæft að myndir af þessu tagi sem unnar eru fyrir BBC séu teknar til sýninga vestra en þar hafi menn verið heillaðir af verkefninu. Meðaltalsáhorf á National World í Bretlandi er um fimm milljónir áhorfenda og fylgjast milljónir manns með Animal Planet í Bandaríkjunum. Það er því ljóst að myndin verður mikil landkynning fyrir Ísland þegar hún verður tekin til sýninga. Myndarinnar beðið með óþreyju Andy kveðst fullur aðdáunar á Íslendingum og því hvernig þeir umgangist náttúruna. „Það er frábært að sjá í hversu nánu sambandi Íslendingar eru við náttúruna og hvernig þeir lifa með henni, hvernig sambúð manns við náttúru er sjálfbær. Það verðum við mjög varir við þegar við ræðum við fólk víðs vegar um landið, bændur og aðra. Við höfum til að mynda verið í sambandi við Orra Vigfússon, sem hefur unnið ótrúlega vinnu við að verja laxastofna á norðlægum slóðum um langa hríð.“ Þá segir Andy að þrátt fyrir að ekki verði fjallað um það í myndinni sé það hans skoðun að sú leið sem Íslendingar hafi farið varðandi verndun fiskistofna í hafinu í kringum landið sé aðdáunarverð og ætti að vera fyrirmynd fiskveiðistjórnunar annars staðar. Á meðan þeir Andy, Ian og Neil dvelja hér á landi blogga þeir um dvölina og verkefnið á vefsíðunni Footstepsofgiantsblog.wordpress. com. Að sögn Andy hefur bloggsíðan fengið mikla athygli og vakið óþreyju eftir sýningu myndarinnar í Bretlandi. /fr BBC gerir náttúrulífsmynd um Ísland – Verður sýnd í Bretlandi og Bandaríkjunum á næsta ári Myndir / Ian Llewellyn Andy Chastney, sem stýrir verkefninu, ásamt kvikmyndatökumanninum og ljósmyndaranum Ian Llewellyn og Neil Anderson kvikmyndatökumanni.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.