Bændablaðið - 19.06.2014, Blaðsíða 33

Bændablaðið - 19.06.2014, Blaðsíða 33
33Bændablaðið | Fimmtudagur 19. júní 2014 Rannsóknir og skráning á eyðibýlum Eyðibýli á Íslandi – sumarið 2014 Í sveitum landsins er fjöldi eyðibýla og yfirgefinna íbúðarhúsa sem mörg hver eru vel byggð og geyma merka sögu. Markmið verkefnisins Eyðibýli á Íslandi er að rannsaka og skrá umfang og menningarlegt vægi eyðibýla og annarra yfirgefinna íbúðarhúsa í sveitum landsins. Jafnframt að stuðla að björgun áhugaverðra og byggingarsögulega mikilvægra húsa, m.a. með endurgerð og nýtingu í ferðaþjónustu. Þegar verkefninu lýkur liggur fyrir verðmætur þekkingargrunnur um búsetu og líf Íslendinga fyrr á tímum. Fyrstu skref verkefnisins voru tekin sumarið 2011 þegar rannsókn fór fram á eyðibýlum og yfirgefnum húsum á Suðurlandi. Afraksturinn var heildstætt yfirlit um 103 yfirgefin hús sem kom út í veglegu riti, Eyðibýli á Íslandi, bindi eitt. Sumarið 2012 náði rannsóknin yfir tvo landshluta, Norðurland eystra og Vesturland. Þá voru skráð 236 hús og gefin út tvö bindi af ritinu. Sumarið 2013 náði rannsóknin yfir Vestfirði og Norðurland vestra og voru þá skráð 216 hús og einnig gefin út tvö bindi. Hefur rannsóknin því alls náð til 555 húsa og gefin hafa verið út fimm bindi. Sumarið 2014 mun rannsóknin ná yfir Austurland annars vegar og Suðvesturland hins vegar. Þá munu níu háskólanemar úr arkitektúr, þjóðfræði, ferðamálafræði og fornleifafræði vinna við rannsóknina með stuðningi Nýsköpunarsjóðs námsmanna, Húsafriðunarsjóðs og fleiri aðila. Fyrstu vet tvangsferðir sumarsins hefjast í sveitar- félögunum Vopnafjarðarhreppi og Djúpavogshreppi 10. júní nk. Vettvangsferðir á Suðvesturlandi munu hefjast 7. júlí næstkomandi. Hugtakið eyðibýli er hér notað í nokkuð þröngum skilningi. Rannsókn nær til yfirgefinna íbúðarhúsa í sveitum landsins sem ekki hafa verið tekin til annarra nota. Þau skilyrði eru gefin að húsið hafi a.m.k. fjóra uppistandandi útveggi. Húsin þurfa ekki endilega að standa á eyðijörð heldur geta þau staðið á jörð í búnytjum. Eyðibýli geta haft mikla þýðingu af ýmsum ástæðum. Þau geta verið merkar menningarminjar og mikilvægar heimildir um byggðasögu. Aldur húsanna, húsagerð eða byggingarlag þeirra getur verið sérstakt en einnig er sérstaða húsanna í búsetulandslagi sveitanna oft mikil. Markmið verkefnisins er að meta menningarlegt vægi einstakra húsa og varðveita þannig valin yfirgefin hús á Íslandi. Í framhaldinu að kanna hvort grundvöllur sé fyrir því að eyðibýli og yfirgefin hús í sveitum landsins verði gerð upp af eigendum þeirra og/eða stofnað félag um rekstur og útleigu þeirra í ferðaþjónustu. Verkefnið var, veturinn 2012, tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands, Menningarverðlauna DV og Hvatningarverðlauna iðnaðarráðherra. Rannsóknum sumarsins lýkur með kynningu á verkefninu og bókaútgáfu á haustmánuðum. Með tíð og tíma mun ritröðin Eyðibýli á Íslandi ná yfir öll yfirgefin íbúðarhús í sveitum landsins. Rannsóknarhópur sumarsins er fullur tilhlökkunar fyrir komandi könnunarleiðöngrum og sendir landsmönnum fyrir fram sínar bestu kveðjur. Hægt er að fylgjast með framgangi verkefnisins á Facebook: www.facebook.com/Eydibyli Einnig má hafa samband við rannsakendur í gegnum netfangið eydibyli@eydibyli.is. Stapadalur við Arnarfjörð á Vest- fjörðum. Heiði 1 og 2 á Langanesi. Dagverðará á Snæfellsnesi. Bækur um merka byggingarhefð Torfhúsin njóta virðingar Þegar kom fram á 20. öldina þóttu torfbyggingar ekki merkilegar, þær voru rifnar eða látnar grotna niður þúsundum saman um land allt, bæði kirkjur, bæir og útihús. Nú er öldin önnur og íslenski torfbærinn þykir með því merkasta sem Íslendingar leggja til byggingarlistar heimsins. Íslenski torhúsaarfurinn er á leið á heimsminjaskrá UNESCO. Fyrir ári sendi Björn G. Björnsson hönnuður frá sér fjórar snotrar myndabækur um tiltekin atriði menningararfsins, meðal annars um torfkirkjurnar sem eftir eru á Íslandi og stóru torfbæina. Bækurnar fást bæði á íslensku og ensku. Salka gefur út. Verðmætur menningararfur Stóru torfbæirnir á Íslandi eru heimsóttir; Árbær í Reykjavík, Glaumbær í Skagafirði, Laufás í Eyjafirði, Grenjaðarstaður í Aðaldal, Þverá í Laxárdal, Bustarfell í Vopnafirði og Keldur á Rangárvöllum, auk þess sem litið er við í safnbænum í Skógum undir Eyjafjöllum. Þessi torfhús eru einstök að allri gerð og eitt af því merkasta sem Íslendingar eiga. Í sumum þessara bæja var búið langt fram á 20. öld og í flestum þeirra eru starfrækt byggðasöfn. Húsin eru því í notkun og hafa enn meira gildi fyrir vikið. Mörg önnur hús úr torfi, bæði stór og smá, er að finna á Íslandi þótt þetta séu glæsilegustu dæmin um þessa séríslensku húsagerð. Fimm torfkirkjur í upprunalegri mynd Torfkirkjurnar íslensku sem enn standa í upprunalegri mynd eru aðeins fimm. Kirkjan á Víðimýri í Skagafirði er talin þeirra fegurst, Grafarkirkja á Höfðaströnd elst og fornlegust og Saurbæjarkirkja í Eyjafirði er stærst. Kirkjan á Hofi í Öræfum er yngst og bænahúsið á Núpsstað er þeirra langminnst. Sú sjötta er Safnkirkjan í Árbæ, sem reist var 1961 úr viðum eldri kirkju frá Silfrastöðum í Skagafirði. Það má því segja að fjórar séu af Norðurlandi en tvær af Suðurlandi. Stafbyggð torfkirkja var síðan reist við Þjóðveldisbæinn í Þjórsárdal í tilefni af þúsund ára kristnitöku árið 2000. Til stendur að tilkynna íslenskan byggingararf úr torfi á lista UNESCO yfir heimsminjar. Grenjaðarstaður í Aðaldal. Þar er einn stærsti torfbær á Íslandi, alls um 775 fermetrar. Hann var byggður árið 1865 og árið 1958 opnaður sem byggðasafn. Björn G. Björnsson hönnuður hefur samið bækur um íslensku torfbæjar- hefðina. Yst í Blöndudal rís hvítt steinhús úr grænu túni, sá bær er nefndur í Ártúnum og annar bær yngri stendur litlu sunnar í sama túni þar sem núverandi bændur búa, en handverkskonan Sigríður Ólafsdóttir hefur verið húsmóðir í hvíta húsinu síðan 1947. Þar bjó hún með manni sínum, Jóni Tryggvasyni, söngstjóra og bónda, en hann lést 2007. Strax á fyrstu búskaparárum sínum fór hún að rækta garð sunnan við bæinn en skógarreiturinn ofan við túnið var girtur síðar í tilefni af fimmtugsafmæli hennar. Allt hefur þetta dafnað vel. Hún saknaði þess þó stundum að hafa ekki bæjarlæk í Ártúnum eins og hún hafði alist upp við, en árnar Blanda og Svartá mætast utan við heimatúnin og kyrjuðu stundum saman svo undir tók í dölunum þegar vöxtur hljóp í þær í vorleysingum. Áratugir eru liðnir síðan Sigríður fór að leggja stund á handverk og listsköpun. Hún ólst upp við heimilisiðnað, Stefanía föðursystir hennar rak saumastofu í Reykjavík og Sigríður vann tvo vetur syðra á Saumastofunni Gullfossi. Sú kunnátta kom sér vel þegar hennar eigin fjölskylda stækkaði og hún saumaði mikið á börnin sín sjö. Þegar hún var í Kvennaskólanum lærði hún vefnað og kom sér upp vefstól heima í Ártúnum. Sigríður Ólafsdóttir er fædd uppi á Laxárdal 4. nóvember 1924, dóttir hjónanna Jósefínu Pálmadóttur og Ólafs Björnssonar sem lengi bjuggu á Mörk en síðar í Holti á Ásum, og hún var yngst fjögurra systkina. Hún giftist Jóni Tryggvasyni árið 1946 og þau stunduðu hefðbundinn búskap í Ártúnum þar til Tryggvi sonur þeirra og fjölskylda hans tóku við búrekstrinum á síðasta fjórðungi aldarinnar, en um þær mundir gat Sigríður farið að sinna hugðarefnum sínum betur. Hún tók sér pensil í hönd og fór að mála, sótti námskeið eða fékk leiðbeinanda með námskeið heim í stofu og lét fleiri njóta góðs af. Heima í stofu Sigríðar hangir stórt teppi, riddarateppi, saumað af henni, og það verður meðal sýningargripa í húsi hennar í sumar, en börn hennar ætla að standa fyrir sýningu á handverki hennar og málverkum í tilefni af níræðisafmæli hennar í ár. Sýningin er á heimili Sigríðar í Ártúnum og verður opin alla daga kl. 14-18 frá föstudegi 19. júlí til mánudags 4. ágúst og er gestum boðið að koma og skoða handverk og myndir og ganga í blómagarðinn. Handverkssýning að Ártúnum í Blöndudal: Býður gestum heim í stofu – Sigríður Ólafsdóttir heldur upp á níræðisafmælið Sigríður í Ártúnum verður 90 ára í nóvember. Hér er hún við nokkur verka sinna. Séð heim að Ártúnum í Blöndudal. Tungnaréttir vígðar á sumarsólstöðum Tungnaréttir hafa staðið við fossinn Faxa í Tungufljóti frá árinu 1955. Síðan þá hefur margsinnis verið réttað þar, bæði sauðfé og hrossum, jafnvel eintómu fólki. Síðastliðin tvö sumur hafa Tungnamenn endur- byggt réttirnar, þær voru orðnar ónýtar og ekki dugði lengur að lappa upp á þær. Til að standa að endurbyggingunni og afla fjár til framkvæmdanna stofnuðu bændur félagið Vini Tungnarétta með þátttöku allra þeirra sem bera hag Tungnarétta fyrir brjósti. Vinir Tungnarétta hafa haft allar klær úti til að aura saman fyrir efninu og unnið takmarkalausa sjálfboðavinnu við bygginguna sjálfa. Oft er sagt að margar hendur vinni létt verk. Það hefur sannast við endurbyggingu réttanna, en einnig má segja að hér hafi samhentur hópur manna lyft grettistaki með góðri aðstoð fjölmargra sem komu að verkinu á einn eða annan hátt. Laugardaginn 21. júní verða nýju réttirnar vígðar við hátíðlega athöfn og hefst samkoman kl. 14.00. Við bjóðum öllum vinum Tungnarétta, formlegum sem óformlegum, að koma í réttirnar þennan dag til að fagna verklokunum með okkur og til að afhenda sveitarfélaginu Bláskógabyggð hið nýja mannvirki. /Stjórn félagsins Vinir Tungnarétta. Réttardagur í Tungnaréttum á öldinni sem leið. Mynd / Ingimundur

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.