Bændablaðið - 19.06.2014, Blaðsíða 4

Bændablaðið - 19.06.2014, Blaðsíða 4
4 Bændablaðið | Fimmtudagur 19. júní 2014 Fréttir Nú styttist í mánaðamótin þegar Landsmót hestamanna á Hellu verður sett. Hestamenn eru orðnir uppveðraðir yfir þessari hátíð sem að jafnaði er haldin annað hvert ár. Síðast landsmót var haldið í Reykjavík fyrir tveimur árum við misjafnar undirtektir en nú fer það eins og áður segir fram á Hellu í fimmta sinn en það var síðast haldið þar árið 2008. „Ég hef góða tilfinningu fyrir þessu móti en það er spurning hversu fjölmennt það verði. Við erum að vonast til þess að þarna verði að lágmarki 10.000 manns. Það er hins vegar ómögulegt að spá í hvernig það mun verða því veðrið ræður svo miklu í þessum efnum, sem og stemmingin sem myndast. Ef það fer saman, gott veður og góð stemming, þá getum við endað í góðri aðsókn og það vonum við auðvitað“, segir Haraldur Þórarinsson formaður Landssambands hestamannafélaga. A-úrslit færð fram á laugardagskvöld Spurður hvort hann haldi að eitthvað sérstakt muni einkenna landsmót nú nefnir Haraldur mikinn fjölda hrossa í kynbótasýningu. „Mér sýnist að það sé að koma mikill fjöldi kynbótahrossa til endurdóms. Það er hugsanlega vísbending um að það sé slök sala á hrossum núna og menn séu að koma með hross í dóm til að hækka þau og gera söluvænlegri. Þá sýnist mér að það verði óhemju spenna í kringum A-flokkinn í ár. Það eru komnir inn feikilega sterkir hestar í þann flokk núna. Við erum líka búin að færa úrslitin í A-flokki á laugardagskvöldið, þetta hefur yfirleitt verið endapunkturinn á mótinu á sunnudegi, en nú verður þetta hápunktur laugardagskvöldsins ásamt töltkeppninni. Ég held að það megi bara enginn missa af þessu. Þetta verður algjör veisla.“ Aðspurður segir Haraldur að hann hafi þó ekki áhyggjur af því að minni stemming verði á lokadegi landsmóts þrátt fyrir að búið sé að færa úrslit í A-flokki. „Ég held að þegar menn verði komnir á mótið muni þeir horfa á úrslit í B-flokki líka. Sá flokkur hefur verið mjög sterkur undanfarin mót og það er mikil eftirvænting eftir honum. Fjórgangshestar eru mjög vinsælir í sölu og það er mikil eftirspurn eftir þeim og ég held að það verði mjög mikil spenna varðandi þá keppni.“ Haraldur segist mjög spenntur, líkt og venjulega, fyrir því að fylgjast með ungu stóðhestunum. „Það er alltaf gaman að horfa á og spá í framfarirnar í greininni og það er ekki síst greinanlegt í þessum flokkum.“ Viljum sjá sem frjálsasta hesta Eins og þekkt er tók stjórn Landssambands hestamannafélaga ákvörðun um að banna notkun tungubogaméla með vogarafli í keppnum á vegum sambandsins. Haraldur segir að hann eigi ekki von á að það bann muni hafa áhrif á frammistöðu á mótinu. „Ef eitthvað er þá eigum við bara eftir að sjá betri eðlisgæðinga á mótinu. Þeir hestar sem við munum sjá ná árangri þarna eru bara virkilegir gæðingar. Við höfum kennt íslenska hestinn við frjálst fas og fleira og við ættum bara að vilja sjá hestana með sem frjálsastan búnað en ekki búnað sem er notaður til að þvinga fram óeðlilegan fótaburð og höfuðburð.“ Ánægja með beinar útsendingar Samningar um beinar útsendingar frá mótinu náðust við Ríkisútvarpið og fagnar Haraldur því. „Það hafa verið skiptar skoðanir um hvort við eigum að senda út frá þessum mótum en ég er sannfærður um að svo sé. Þeir sem geta mætt, þeir mæta. Þeir sem ekki geta komist á svæðið af einhverjum ástæðum geta þá notið þess að horfa á í sjónvarpinu. Ég held að partur af því að efla hestamennskuna hljóti að felast í því að auka aðgengi að henni með sem mestum hætti.“ /fr Laugardagskvöldið verður mikil veisla – Landsmót hestamanna á Hellu hefst 30. júní Skógardagurinn mikli í Hallormsstaðaskógi – Dúkkulísurnar snúa aftur í skóginn eftir 30 ár Skógardagur inn mik l i verður haldinn í tíunda sinn í Hallormsstaðaskógi laugardaginn 21. júní. Dagskráin er margbreytileg að venju. Hin fornfræga hljómsveit Dúkkulísurnar stígur á svið, en nú eru 30 ár liðin frá því að sveitin stóð á sviði í Hallormsstaðaskógi síðast. Svo er spurning hvort skógarhöggsmenn á Austurlandi ná Íslandsmeistaratitlinum í skógarhöggi aftur austur. Dagskráin hefst reyndar kvöldið áður, föstudagskvöldið 20. júní, þegar Landssamtök sauðfjárbænda og sauðfjárbændur á Austurlandi bjóða til veislu í Mörkinni á Hallormsstað. Þar verður grillað lambakjöt og tónlistarfólk skemmtir gestum á sviði. Um hádegi á laugardag hefst svo sjálfur Skógardagurinn mikli með Skógarhlaupinu þar sem hlaupnir verða 14 kílómetrar um skógarstíga. Skráning hefst kl. 11 en ræst verður kl. 12. Einnig er í boði skemmtiskokk, 4 km hlaup fyrir alla, sem ræst verður kl. 12.15. Íslandsmeistaramót í skógarhöggi Formleg dagskrá hefst síðan klukkan 13 í Mörkinni Hallormsstað með Íslandsmeistaramótinu í skógarhöggi. Þar er heitasta spurningin hvort hraustir skógarhöggsmenn eystra ná titlinum aftur austur, en sigurvegari í fyrra var Örn Arnarson, sem keppti fyrir Skógrækt ríkisins á Suðurlandi. Skógar- og nautabændur bjóða upp á heilgrillað naut og með því, grillaðar verða pylsur en líka soðið ketilkaffi og steiktar lummur að hætti skógarmanna. Af skemmtiatriðum má nefna Héraðsdætur og Liljurnar, Pjakk og Petru og hestaleiguna á Hallormsstað sem sér um að teyma undir börnum svo eitthvað sé nefnt. Skógardagurinn mikli er samvinnuverkefni Skóg- ræktar ríkisins, Héraðs- og Austurlandsskóga, Félags skógarbænda á Austurlandi, Barra gróðrarstöðvar og Skógræktarfélags Austurlands. /MÞÞ Stefnir í met í kynbótasýningum Arion frá Eystra-Fróðholti með næsthæstu einkunn sem náðst hefur Mikil spenna ríkir fyrir kynbótasýningar á Landsmótinu á Hellu sem hefst um mánaðamótin. Sýningar vorsins fóru fremur rólega af stað en það breyttist heldur betur og gera má ráð fyrir glæsilegum kynbótasýningum á mótinu. Um 80 hross hafa í vor náð 8,50 eða hærra í einkunn fyrir hæfileika og þar af fóru 11 hross yfir 8,80 í einkunn. Þá stefnir í metfjölda í kynbótasýningum á Hellu. Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, mun sinna störfum yfirdómara í kynbótadómum á komandi Landsmóti hestamanna. „Það stefnir allt í mjög sterka kynbótasýningu á landsmóti og mjög fjölmenna, líklega verður met slegið í fjölda kynbótahrossa. Alls hafa 281 hross náð lágmarkseinkunn inn á mótið, 101 stóðhestur og 180 hryssur. Auðvitað falla alltaf einhver hross út af ýmsum ástæðum, meðal annars vegna þess að þeim verður teflt fram í gæðingakeppninni. Það má samt búast við að flest þau hross sem náð hafa lágmarkseinkunn mæti til dóms nú. Mestur fjöldi kynbótahrossa sem hafa komið til dóms á landsmóti var á mótinu á Hellu árið 2004 en þá voru sýnd 244 hross. Ég býst við því að það met verði slegið nú.“ Eyþór segir skýringar á þessari fjölgun geta verið ýmsar, meðal annars hafi nú verið sett lægri lágmörk fyrir klárhross en alhliðahross. „Síðan má nú bara ætla að ræktunin sé að skila árangri og góðum hrossum sé einfaldlega að fjölga.“ Hæst dæmda hrossið eftir kynbótasýningar vorsins er Arion frá Eystra-Fróðholti, 7 vetra gamall klár undan Glettu og Sæ frá Bakkakoti. Arion hlaut 8,91 í aðaleinkunn og 9,25 fyrir hæfileika. Aðeins einn hestur hefur áður hlotið hærri dóm en það er gæðingurinn Spuni frá Vesturkoti sem á sínum tíma hlaut einni kommu hærri aðaleinkunn eða 8,92 og sömu einkunn og Arion fyrir hæfileika. Daníel með 33 hross Sýnandi Arions er Daníel Jónsson sem mun hafa í nægu að snúast á mótinu en hann sýnir 33 hross. Þó er ekki útilokað að einhverjar breytingar verði á mótinu sjálfu hvað varðar knapa því auðvitað er mikið lagt á menn að sýna slíkan fjölda. Ekki liggur fyrir að svo stöddu hvaða hestar verða sýndir með afkvæmum á mótinu að sögn Eyþórs. „Nú verður kynbótamatið uppreiknað eftir dóma vorsins og að því loknu verður spennandi að sjá hvaða hestar ná lágmörkum þar og hvernig þeir raðast til fyrstu verðlauna og heiðursverðlauna fyrir afkvæmi.“ /fr Haraldur Þórarinsson Mynd / HKr. Mynd / HHG Nýr formaður norsku bændasamtakanna Lars Petter Bartnes var kjörinn nýr formaður norsku bændasamtakanna, Norges bondelag, á ársfundi samtakanna sem fór fram í byrjun mánaðarins í Lillehammer. Hann tók við af Nils T. Bjørke, sem er íslenskum bændum að góðu kunnur. Lars er 45 ára gamall kúbóndi sem stundar einnig nautaaeldi, kjúklingaeldi og kornrækt. Hann sat í stjórn samtakanna á árunum 2008 til 2013 og hefur einnig setið í stjórn Nortura, sem er afurðfyrirtæki með kjöt og egg, frá árinu 2004. Bartnes er menntaður búfræðikandidat og býr í Steinkjer í Norður-Þrændalögum. Bartnes þakkaði fráfarandi stjórn fyrir hennar góða starf. „Ég ætla mér að vinna áfram að því að halda Norges bondelag sem sterkum og skipulögðum samtökum,“ sagði hann í þakkarræðu. Kristin Ianssen og Brita Skallerud voru endurkjörnar sem 1. og 2. varaformaður samtakanna. Kristin mun þar með hefja annað starfsár sitt en Brita hefur setið í fjögur ár. /fr Mynd / NB Skinnaverð hélt áfram að lækka við upphaf júníuppboðs Kopenhagen Fur uppboðshússins sem hófst á þjóðhátíðardaginn. Á þessu uppboði má gera ráð fyrir að um 45.000 íslensk skinn verði boðin upp, eða á milli 25 til 30 prósent af íslensku framleiðslunni að sögn Einars Einarssonar loðdýraræktarráðunauts. „Þetta er öll flóran, allir litir og allar tegundir. Skinn hafa lækkað á síðustu uppboðum, í Toronto í Kanada og í Helsinki, um 20 til 25 prósent. Það sem búið er að selja það sem af er uppboðinu núna hefur fallið um 9 til 18 prósent.“ Það þýðir að sögn Einars að skinnaverð er komið talsvert undir framleiðslukostnað. „Ef við gefum okkur að botninum sé náð núna þá gæti meðalverð fyrir árið endað í 4.500 til 5.000 krónum á meðan að framleiðslukostnaðurinn er 7.000 krónur.“ Einar segir þó að þessi lækkun eigi ekki að vera áhyggjuefni fyrir íslenska minkabændur, ekki að svo stöddu. „Þetta er bara eins og þessi bransi er og menn standa þetta af sér. Áhyggjuefnið í mínum huga er fyrst og fremst framleiðslukostnaðurinn. Hann hefur hækkað óhemjumikið síðustu ár og við stöndum orðið bara jafnfætis eða erum með hærri kostnað en í nágrannalöndunum. Við verðum að bregðast við þessari þenslu í þjóðfélaginu sem veldur þessu ef ekki á illa að fara, bæði í okkar geira og annars staðar.“ /fr Minkaskinn lækka enn í verði – ekki áhyggjuefni að svo stöddu segir ráðunautur Mynd / HKr.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.