Skírnir - 01.01.1965, Blaðsíða 31
Skírnir
Rúnavisur frá Björgvin
29
og margir hafa hent á sömu lausnir og leiðréttingar án þess
að vita hver af öðrum. I þessari grein ætla ég því engan að
nefna, en fylgja heldur reglunni „geymt, en ekki gleymt“.
Til hægðarauka hef ég skipt bundnu textunum í tvo flokka,
texta með Edduháttum og texta með dróttkvæðaháttum, en
annars fjalla ég um textana í tímaröð.
Elzta rúnaristan undir Edduhætti fannst í lagi, sem tíma-
sett er til síðasta fjórðungs 12. aldar. Þetta er merkilegur
texti. Á ráðningu rúnanna leikur enginn vafi, þær eru allar
mjög skýrar (l.mynd). Reyndar er keflið brotið, en óger-
legt er að skera úr, hvort eitthvað vantar í áletrunina. Hún
getur verið heil og óskert, eins og hún er nú: #)
a) hæil:seþu:ok:ihuhum:goþom
b) þor:þik:þig:gi:oþin:þik;æihi;
Heíl(l) sé þú
ok í hugum góðum.
Þórr þik þiggi.
ÓSinn þik eigi.
Svo sem sjá má, er þetta vísuhelmingur undir eins konar
galdralagi, með tvennum samhliða ljóðlínum, en vísan fylgir
ekki alls kostar venjulegum bragreglum. Undarleg mótsögn
virðist vera í vísunni. Fyrst er heillakveðja eins og sú, sem
við þekkjum úr Hymiskviðu, ll.vísu:
Ver þú heill, Hymir,
í hugum góSum.
Síðan kemur sú ósk, að Þór og Óðinn megi þiggja og eiga
þann, sem ávarpaður er. Þetta getur talizt jafngilda því að
kalla dauða og bölvun yfir hann, eins og Styrbjarnarþáttur
segir, að Eiríkur konungur hafi gert, þegar hann kastaði
reyrsprota yfir her Styrbjarnar og sagði: ÓSinn á ySr alla.
Nánari útfærslu hins sama finnum við svo í Hárbarðsljóðum,
24. visu, þegar Hárbarður (Óðinn) ögrar andstæðingi sínum
í mannjöfnuðinum með því að skipta þeim dauðu þannig, að
*) Aths.: Þess skal getið, að í öllum rúnatextunum eru bandrúnir
leystar upp án sérstakrar auðkenningar.