Skírnir - 01.01.1965, Blaðsíða 127
Skírnir
Helgileikir og herranætur
117
dýrlingar okkar væru kannski ekki helgir nema til hálfs,
mátti vel semja um þá leiki. Jarteiknasögur skortir ekki um
þann sæla Þorlák biskup honum til lofs og dýrðar, en engir
kraftaverkaleikir eru okkur kunnir. Nógu átækt (dramatiskt)
hefur söguefnið verið í ævi Guðmundar góða. Hafa leikir
um hann glatazt? Máríu orti margur lof, en settu munkarnir
hana nokkurn tíma á svið á klaustrunum héma?
Ef við nú höfnum kenningunni um langa hefð úr kaþólsku
í bili, ekki vegna þess hún sé svo ósennileg í sjálfu sér, held-
ur einfaldlega sakir þess að heimildir skortir, má hugsa sér
áhrif frá Danmörku um eða eftir siðaskipti. Með endurreisn-
artímanum breytist nokkuð skólaleikjahald þar í landi, sem
hafði þar sem annars staðar borið nokkurn keim af Teren-
tiusi. Nú hófust upp hyllingar kóngi og drottningu til lofs
og dýrðar; hugmynd að slíku mun ugglaust fyrst að sækja
til ítalskra trionfi eða sigurhátíða, sem vinsælar urðu á end-
urreisnartímanum. Þar mun hafa verið raðað í skrúðgöngu
eftir mannvirðingum, en óneitanlega er ýmislegt á Herra-
nótt, sem gæti verið þannig til komið, þó að konunghollusta
íslenzku skólapiltanna kunni að hafa verið ívið minni og
þeir hagað öllu að eigin smekk. Annað er það, sem gæti
styrkt þessa kenningu. Herranótt heitir öðru nafni Herra-
dagur, og Herredagen hét þing allra stétta í Danmörku á
16. og 17. öld.
En hvað sem öllum þessum bollaleggingum líður, er stað-
reynd, að Herranæturhalds er getið um 1740, og það er í
Skálholti. Um svipað leyti tíðkast á Hólum svokallaðar leik-
veizlur, það er á dögum Steins biskups Jónssonar. Erfitt er
að gera sér grein, í hverju þær eru fólgnar. Kannski er séra
Jón Steingrímsson að lýsa einni slíkri, þegar hann segir frá
því i ævisögu sinni, að skólapiltar tóku sig til og léku, að
þeir væru sýslumaður og flækingur. Það hefur tvímælalaust
verið run að ræða hreint leikatriði, hvort sem textinn hefur
verið skrifaður eða innblástur augnabliksins hefur ráðið hon-
um. Líklegra er þó, að leikurinn í leikveizlu Steins biskups
hafi verið dansleikir. Rétt er og að geta hér lítillega áhuga
séra Þorsteins Péturssonar á Staðarbakka, sem setur saman