Skírnir - 01.01.1972, Side 32
30 SVEINN SKORRI HÖSKULDSSON SKÍRNIR
skap. Þar er orsakasamhengið þó svo flókið og margþætt, að skyn-
samlegt er að draga ekki of skjótar og einfaldar ályktanir.
Augljóst virðist samt, að á ýmsum skeiðum bókmenntasögunnar
hafi verið ríkjandi ákveðin tízka eða hugmyndir í kvenlýsingum.
Vafalítið hafa félagslegar aðstæður kvenna verið stefnumótandi í
mörgum tilvikum. Þannig geta hæði trúarlegar og stéttarlegar hug-
sjónir verið til skýringar á madonnudýrkun og riddararómantík
miðalda.
Þegar nær dregur okkar tímum er auðvelt að benda á ákveðnar
ölduhreyfingar í tízku kvenlýsinga.
Á tímum tilfinningaskáldsögunnar á 18. öld eru ríkjandi fíngerð-
ar, saklausar, kornungar ástkonur, og þá gerð kvenna ber einnig
hæst á rómantíska skeiðinu, þar sem þær birtast gjarna sem kyn-
ferðilegir mótleikarar byronskra flagara. Leiða þær aðstæður
ósjaldan til ákaflega tárvotra ástarharmleikj a. Hinar saklausu,
hjartahreinu og fórnfúsu konur, sem sóa ást sinni og góðleik á gil-
menn sína, hafa eignazt eftirminnilega fulltrúa í Gretu Fásts og Sol-
veigu Péturs Gauts.
Einhvers staðar hefur verið sagt um Balzac, að hann hafi í skáld-
sögum sínum uppgötvað þrítugu konuna. Frá og með honum og út
raunsæisstefnuna færist hin fullþroska, gáfaða og víðsýna kona
fram á sjónarsviðið. I skapgerðarstyrk sínum og heillyndi standa
slíkar konur andspænis ístöðulitlum og flöktandi sveimhugum karl-
kyns. Þeim getum við kynnzt í sögum Túrgenéffs eða í leikritum
Ibsens frá raunsæisskeiðinu.
Þessi kvengerð, sem bókmenntaleg tízka, helzt mjög í hendur við
vaxandi ásmegin kvenréttindahreyfinga 19. aldar og hugmyndir
þess tíma um aukinn rétt og sj álfsforræði kvenna.
Með frumstæðisstefnu nýrómantíkurinnar og nietzscheönskum of-
urmennishugmyndum aldamótanna kemur upp ný tízka: Konan sem
jarðbundin og holdtekin kynferðisvera. I stað andlegrar staðfestu
verður nú aðalsmark hennar þjónustulund ambáttarinnar og tak-
mark lífs hennar þungun og barnsburður.
Þótt þannig megi benda á nokkrar meginlínur í kvenlýsingum,
er hér flestra þátta ógetið, enda er viðfangsefnið yfirgripsmeira og
flóknara en svo, að því verði gerð nokkur skil í fáum orðum.
Reyndar stendur sá maður, sem hyggst fjalla um kvenlýsingar í