Skírnir - 01.01.1972, Page 37
SKÍRNIR
KVENMYND EILÍFÐARINNAR
35
flestar tengdari skauti holds og annarra áþreifanlegra, jarðneskra
efna. Þannig birtast konur í sögum Laxness ýmist sem dularverur,
álfkynja, loftkenndar draumsýnir eða þær búa yfir þyngd, myrkri
og frjómagni moldarinnar, grósku hennar og lífskrafti.
Svo alhliða og auðugt er það líf, sem mætir okkur í sögum Hall-
dórs Laxness, að þess munu fá dæmi, að hann hafi verið sérstak-
lega orðaður við ástarskáldskap. Verk hans sýna svo margar aðrar
hliðar mannhfs í slíkri fjölbreytni, að mönnum sést gjarna yfir, að
hann er eitthvert erótískasta skáld Islendinga fyrr og síðar. Þetta
verður hins vegar ljóst, þegar sjón er beint að einum þætti verka
hans eins og kvenlýsingum. Kynbundin ást milli karls og konu er
meira hreyfiafl frásagnar og atburða í sögum hans en nokkur önn-
ur frumlivöt mannlegs lífs. Af þeirri kynferðilegu spennu vex sögu-
efnið. Annað bindi sögunnar um Sölku Völku ber undirtitilinn
Pólitísk ástarsaga. Flestar meiri háttar sögur Halldórs gætu borið
heitið ástarsaga — að vísu með mismunandi forteikni.
Nú skal freistað með ofurlítið nánari athugun að finna nokkurn
stað þeim staðhæfingum um megineinkenni kvenlýsinga í skáldsög-
um Halldórs, sem hér hefur verið haldið fram.
Strax í fyrstu skáldsögu hans, Barni náttúrunnar, birtast sam-
einaðir í aðal-kvenpersónu bókarinnar tveir meginþættir kvenlýs-
inga hans. Kvenhetja bókarinnar er í senn álfaættar og jarðnesk, og
þannig birtist hún fyrst á síðum bókarinnar:
Hún hafði víst verið að baða sig í ánni, en klætt sig í bláan kjól, einan
saman, tií bráðabirgða, eftir að hún kom upp úr.
[-----]
Og þarna stóð hún svo niðri í hvamminum, og horfði upp til þeirra, í bláa
kjólnum, hálfhneptum, svo að sá í mjallhvít brjóstin, berfætt með bera arma.
Hún var falleg og æfintýraleg, og fráleitt eldri en 17 ára.
Hárið var jarpt og þykt, ekki neitt ýkjasítt, og flaksaðist laust og vott niður
um bakið. (12-13).
Aðal-karlhetja bókarinnar, Randver, sem er bölsýnn kvenhatari,
trúir því í aðra röndina, að konan sé álfaættar:
Þama stóð þá huldumærin, sem hann hafði séð hjá ánni þá um daginn!
Hún var klædd í sama bláa kjólinn [...]. (32).
Hann kemst svo að því, að stúlkan heitir einmitt Hulda, en þegar