Skírnir - 01.01.1972, Síða 42
40
SVEINN SKORRI HOSKULDSSON
SKÍRNIR
Ég uppgötvaði snemma, að konan höfðaði einúngis til hins illa í veru
minni. Alt, sem ég hugsaði, var ilt, svo fremi að hugur minn beindist að henni.
Hver hugsun mín um konuna er blettur á sál minni. Fyrir einglinum í veru
minni er ekkert það til, sem kona heitir. Manninum í veru minni stendur
stuggur af konunni eins og ógeðslegum betlara. Dýrið í veru minni sér sinn
eftirsóknarverðasta mótíngja, þar sem hún er. Satanseðli mitt nýtur konunnar
af hlakkandi fagnaði.
[-----]
Konan er nefnilega hvorki meira né minna en hættulegasti meðbiðill Guðs
og keppinautur, þar sem sál mannsins er í tafli. Það eru tvö reginöfl innan
vorrar jarðnesku tilveru, sem heya reipdrátt um sál mannsins. Annars vegar
er hinn svokallaði Guð, takmark hinnar andlegu þrár mannsins; hins vegar er
hold konunnar. (171-175).
Þegar Steinn síðar kemur heim frá klausturlífi í Evrópu, freistar
Diljá, sem þá er gift, fullþroska kona í Reykjavík, hans. Konan sem
kynferöisvera verður honum jafnvel tákn guðlegrar opinberunar,
þegar hann hugsar um Diljá:
Eingin kona fal sólgnari kvenleik í vaxi lenda sinna. Hreyfíngar hennar vóru
eins og hreyfíngar óumræðileikans. I barmi hennar andaði lífsaflið sjálft.
Djúpt í skauti hennar sváfu aldir og óbornir, aldir, sem biðu vekjarans og
þess að mynnast við eilífðina. Barmur hennar var alfullkominn eins og Guðs
handaverk. Móðurmjólkin, hugsaði hann. Mundi nokkurt afl sterkara en það,
sem elur hvítan brjóstmylkínginn? Hann leit á arm sinn, sem hún hafði snöggv-
ast lagt í hlekki, og sá, að án hennar var sköpunarverkið ófyrirsynju. Konan er
ekki aðeins móðir mannanna, heldur dýrlínganna, já, jafnvel Jesú Krists
sjálfs. Ave Maria, gratia plena, Dominus tecum... (403-404).
Sumarnótt á Þingvöllum dregur Diljá Stein Elliða á tálar, og er
það minni, sem oftar birtist í sögum Halldórs. Eftir ástarfund þeirra
gengur Steinn forkláraður út í íslenzka náttúru. Þar hefði sögunni
getað lokið með fundi hins himneska í hinu jarðneska, en skáldið
kaus henni annan endi. Suður í Róm hrindir Steinn Elliði Diljá
endanlega frá sér til að ganga sjálfur óskiptur í þjónustu heilagrar
kirkju. Andinn sigrar holdið, vélabrögð djöfulsins megna ekki gegn
almætti guðs. Síðustu orð Steins við Diljá eru:
Maðurinn er blekkíng. Farðu og leitaðu Guðs, skapara þíns, því alt er
blekkíng nema hann. (499).
Að þvi er varðar afstöðuna til kvenna, er skáldsagan um Sölku
Völku bein andstæða við og svar gegn Vefaranum mikla frá Kasmír.