Skírnir - 01.01.1972, Page 127
HELENA KADECKOVÁ
Um Hel
i
Um ÞÆR mundir sem Fornar ástir eftir Sigurð Nordal komu út,
árið 1919 var ný hreyfing í þann veginn að hefjast í íslenzkum
bókmenntum. Hin mikla hefð bókmenntanna átti rætur að rekja í
fábreyttu bændafélagi 19du aldar, en sterkasti þáttur hennar var
raunsæ alþýðulýsing. Skáldin leituðust fyrst og fremst við að tjá
það sem allri alþýðu var sameiginlegt: eðli og skapgerð fólksins, hin
hörðu lífskilyrði og siðgæði sveitalífs. Með nýjum tímum tók nýrra
og margbreyttari vandamála og viðhorfa en fyrr að gæta í hinu
forna bændasamfélagi. En bókmenntunum virtist um megn að
bregðast við þeim með sinni sterku raunsæishefð og siðamati sem
háð var verðmætum liðinna tíma.
í þessu efni var brotið í blað með Hel í Fornum ástum. I sög-
unni birtust ný viðfangsefni og ný viðhorf við efninu: vanda nú-
tímalífs var þar lýst af nýju sálfræðilegu innsæi, huglægum og
innilegum stílshætti sem einnig var harla nýstárlegur. En dæmi
Nordals var ekkert einsdæmi. Um sömu mundir og litlu síðar komu
fram fleiri höfundar sem fyrst og fremst leituðust við að tjá ein-
staklingsbundið tilfinningalíf og hugarheim í skáldskap sínum: Stef-
án frá Hvítadal, Davíð Stefánsson, Tómas Guðmundsson, Jóhann
Jónsson, Jón Thoroddsen . . . I lausu máli komu hin nýju viðhorf
gleggst fram í bókum Þórbergs Þórðarsonar, Bréji til Láru, 1924,
og Halldórs Kiljans Laxness, Vefaranum mikla frá Kasmír, 1927.
En segja má að sjálfur kjarni þeirra birtist þegar í Hel.
Þannig verður Hel í samhengi íslenzkrar bókmenntasögu að
mörgu leyti forboði nútímastefnu, eða módernisma, bókmenntanna
síðar meir. Jafnframt er sagan heimild um viðfang höfundarins
við heimspekileg og sálfræðileg vandamál mannlegs lífs og tilveru.