Skírnir - 01.01.1972, Síða 131
SKIRNIR
UM HEL
129
minninga. En hvergi hefur verið dapurlegra en hér.“ (136)
Sveitafólkið heima lægir dramb Alfs, en það dæmir hann ekki.
Það hefur lifað lífi sínu í ævilangri baráttu við óblíð nátt-
úruöfl, við fátæktina og við dagleg skyldustörf, og sjálf hin
frumstæða lífsbarátta hefur gefið lífi þeirra gildi. í þessari frá-
sögn leynir sér ekki virðing skáldsins fyrir ævikjörmn íslenzkrar
alþýðu. En Álfur frá Vindhæli er ekki af hennar heimi. Hann er
önnur manngerð og ævi hans allt önnur. Hann hefur kynnzt marg-
breytni lífsins, auði og örbirgð borganna, óviti og vizku veraldar.
Hann flúði veruleikann á vit drauma, barst eirðarlaus fyrir straumi
líðandi stundar. Þetta viðurkennir hann sjálfur eftir heimkomuna:
„Eg veit vel muninn á lífi okkar. Þú hefur bygt upp úr rústum, ég
hef lagt í rústir,“ segir hann við æskuvinkonu sína, Steinunni.
(148)
En hann getur ekki snúið aftur að frumstæðum verðmætum
bændalífs í sveitinni eða fundið á ný frumglæði síns eigin til-
finningalífs í endurfundunum við æskuunnustu sína. Slík sögulausn
var mætavel hugsanleg, enda algeng, í eldri bókmenntum, en
nægði ekki til að gera skil lífskilningi Sigurðar Nordals í Hel.
Umskipti heimslífs og sveitalífs voru ekki heldur nema einn þáttur í
lífsvanda Álfs frá Vindhæli.
Við ævilok Álfs mætast þræðir sögunnar loks í einu mynztri,
heimspekileg umræða, siðfræði og sálarfræði hennar. 8di kafli, Hel,
er enn fráhverfari venjulegu raunsæi en aðrir kaflar sögunnar, en
myndmál og tákn hans að því skapi margbrotnari.
í ríki Heljar er landslagið suðrænt - raunar blandast norrænt og
suðlægt landslag sífellt saman í náttúrulýsingu sögunnar - og þar
standa fornar gotneskar byggingar. En Hel leiðir Álf með sér inn
í „herbergið hennar móður hans“ og hann sér „andlitsdrætti móður
sinnar í drotningarsvip hennar“, hún á „móðurhjarta og læknis-
hendur“. (151-2) Sjálf er Hel, að nafninu til, komin úr norrænni
goðafræði, gyðja dauðraheima þar sem sóttdauðir menn og elli-
dauðir eru vistaðir. Álfur verðskuldaði hvorki umbun né refsingu,
vítiskvalir né sælu himnaríkis. Vera má að höfundur hafi einmitt
þetta atriði heiðinnar siðfræði í huga þar sem hann skírskotar til
annars bústaðar hinna dauðu, vopnbitinna manna í Valhöll. I sög-
unni segir um Hel:
9