Skírnir - 01.01.1972, Page 149
HEIMIR PÁLSSON
Hjónin á Hlíðarenda
Fáeinar athugasemdir
I
FÁar NOKRÆNAR bækur hafa orðið tilefni jafnmikilla skrifa og
sagan af Njáli Þorgeirssyni og sonum hans. Má undarlegt kallast,
að enn skuli þykja ástæða til að hefja umræður um aðalpersónur
sögunnar. En skoðanir eins hafa jafnan kallað á gagnstæða túlkun
og skoðanir annars. Svo er og hér, að sá er þessar línur ritar, er
fyrst og fremst til þess hvattur af því hann samsinnir ekki sumu
sem um söguna hefur verið ritað.
Rétt er í upphafi að geta þriggja aðila, sem kallast má að valdi
mestu um tilurð greinarkornsins. Rit Einars Olafs Sveinssonar um
Njálu hafa ætíð heillað mig á margan hátt. Sumt hefur mér þótt þar
svo skarplegt, að betur yrði ekki gert. En annað hefur jafnan vakið
mig til leitar að gagnstæðunni ellegar nokkuð annarri túlkun við-
fangsefnis. Sama er að segja um skoðanir samkennara míns Jóns
Böðvarssonar. Þeir sem þeim eru kunnugir, munu sjá hér mörg
merki þess, að annaðhvort sé honum samsinnt eða hugmyndir hafi
kviknað af hans hugmyndum. Þriðji aðili sem skylt er að geta
þegar, er nemendur mínir við Menntaskólann við Hamrahlíð nú um
tveggja vetra skeið. Sumt er hér beinlínis frá þeim komið, og marg-
oft hefur rökstuðningur þeirra reynzt haldbetri en minn, þótt til hins
sama hafi leitt.
Alkunna er í daglegu lifi, hversu þær ástæður er við teljum
liggja til gerða okkar, eru oft og tíðum langt frá því að vera hinar
raunverulegu ástæður. Á yfirborðinu gildir eitt, en sé skyggnzt
dýpra, blasir allt annað við. Um árabil hafa slíkar tylliástæður verið
meðal vinsælla viðfangsefna sálarfræðinga. Idugmyndin er að taka
hér til athugunar tvær af aðalpersónum Njáls sögu og reyna að
rekja þræði þá sem liggja kynnu frá athöfnum til ástæðna, einkum
þar sem þær blasa ekki við. Með þessu er að sjálfsögðu aðeins stefnt