Skírnir - 01.01.1972, Page 185
SKÍKNIR NORSKAR ÞJÓÐFRÆÐIRANNSÓKNIR 183
urlönd og kannaðir einstakir þættir frásagnarinnar. Síðan er efnið
borið saman við helgisögur í lausu máli, aðallega við Legenda
aurea, en einnig norræna texta þar sem þeir eru til. Kaflarnir eru
yfirleitt fróðlegir og skemmtilegir aflestrar, en verða stundum nokk-
uð lausir i reipunum. Þannig er í kaflanum Kappseilingsvisen tínt
til mikið samanburðarefni sem ekki sýnist vera í neinu sambandi
við kvæðið sjálft. Texti Vedels af þessu kvæði, sem stuðzt er við,
er grunsamlega heillegur og samfelldur, svo að vafasamt verður að
telja að þar sé um ómengaða munnlega geymd að ræða. Annars
er víðast hvar laglega á efninu haldið og ályktanir dregnar af var-
kárni og hófsemi, svo manni hnykkir við þegar fljóta með van-
hugsaðar ályktanir eins og að viðkvæðið vaka med oss julanatt
sem fylgir skánsku afbrigði af Staffanskvœði er talið benda til að
kvæðið sé frá klerkum komið (bls. 85). Þannig er ekki hægt að
skrifa lengur.
Mikil prýði á bókinni eru ljósmyndir af myndskreytingum með
helgisagnaefni úr norskum miðaldakirkjum. Þær eru áþreifanlegt
dæmi þess hvernig helgisagnaefnið var hluti af umhverfi allrar
alþýðu á miðöldum og raunar lengi síðan. Myndirnar eru ágætlega
prentaðar.
í síðasta og lengsta kafla bókarinnar fjallar Ádel Blom um
Draumkvœðið. Elztu og beztu uppskriftir þessa kvæðis eru frá því
laust fyrir miðja 19. öld, og þá þegar var mönnum Ijóst að kvæðið
var efnislega skylt leiðslubókmenntum miðalda. Flestar uppskriftir
kvæðisins eru aðeins brot, einatt samhengislaus eða með ruglings-
legu samhengi, og varla er hægt að segja að þess hafi orðið vart
utan Þelamerkur. Úr þessum rústum reisti Moltke Moe Draumkvæð-
ið í byrjun þessarar aldar og neytti rannsókna sinna á leiðsluritum
miðalda til að skapa úr hinum ýmsu afbrigðum og brotum kvæði
með föstum söguþræði. Endurgerður texti hans hefur síðan verið
þj óðardýrgripur í Noregi, lærður, lesinn og rannsakaður. Bæði
Moltke Moe og Knut Liestpl skrifuðu ritgerðir um kvæðið og töldu
þeir það ort með ákveðin leiðslurit að fyrirmynd á 13. öld.
Á síðustu áratugum hefur það stöðugt verið að koma betur í
ljós að texti Molkte Moes hlýtur að teljast allsendis ófullnægjandi
undirstaða rannsókna á Draumkvæðinu, hvað sem líður listrænu
gildi hans og notagildi í kennslu. Bent hefur verið á að ýmis þeirra