Skírnir - 01.01.1972, Side 191
SKIRNIR
BRÉF TIL SKÍRNIS
189
arsalnum. Ritdómari hefði getað sparað sér leiðan grun hefði hann litið í
gestabók salarins.
Umrædd handrit las ég þó ekki fyrst og fremst með það í huga að skapa
mér textafræðilegan grundvöll. Fyrir hendi voru verk (sérstaklega hin ágæta
útgáfa Finns Sigmundssonar), sem þjónuðu mínum tilgangi fyllilega. Það er
fjarri mér að vanmeta þær útgáfur, sem skapaðar eru á textafræðilegum
grundvelli (historisch-kritische Ausgaben), en þó held ég, að slík verk séu
ekki án undantekninga nauðsynleg forsenda bókmenntarannsókna. Eg vona,
að ritdómari og ég getum a. m. k. orðið sammála um það, að slík „l’art-pour-
l’art-fílológía" sé hvorki okkar sérgrein né skilningi á bókmenntum til gagns
eða vegsauka, svo ekki sé minnzt á allar þær mikilvægu bækur, sem aldrei
hefðu verið skrifaðar, ef bókmenntafræði hefði verið takmörkuð við rit út-
gefin á textafræðilegum grundvelli eða þrælbundin alvizku þeirra.
Þó hjaðnar sú von sem dögg fyrir sólu, þegar Eysteinn skrifar um „það al-
gjöra fræðilega stefnuleysi“, sem í bók minni sé ríkjandi. Ég segi það honum
og mér til hugarléttis, að ég hafði ekki í hyggju að skrifa þá bók, sem hann
segir mig ekki hafa skrifað.
Aftur á móti dáist ég að þeirri festu ritdómara að missa aldrei sjónar á
sínum eigin vísindaskoðunum og grundvallarboðorðum þrátt fyrir öll þau von-
brigði, sem bók mín olli honum; þessi einurð ljáir honum þann ágæta hæfi-
leika, að geta sett eftir eigin geðþótta takmörk öllu því, sem skrifað verður
um Bólu-Hjálmar og verk hans. Það gefur auga leið að ég, sem vildi líta á
Bólu-Hjálmar og verk hans frá sem flestum hliðum og með ýmsum aðferðum,
sprengi þau takmörk, sem hann setur mér. Sjálfur get ég engin slík takmörk
■sett. Bókmenntir sem fræðigrein er varla fyrir menn, sem sjá allt svart á
hvítu, og ég efast um, að áralangar heimsóknir á Landsbókasafn og Þjóð-
skjalasafn hefðu veitt mér skarpskyggni af þeirri tegund sem veitir fullvissu,
eða að nánari kynni af handritum Bólu-Hjálmars hefði gert mér kleift að
skrifa þá bók, sem uppfyllt hefði allar óskir Eysteins Sigurðssonar.
Því verð ég að láta mér nægja þá von, að til sé fólk, þar á meðal „inn-
fæddir Islendingar“, sem fundið geti fróðleik í bók minni. Ef svo á að verða,
hlýtur þetta fólk að lesa vel og nákvæmlega, án fordóma, án eintrjáningshátt-
ar. Þetta held ég í „fræðilegu stefnuleysi“ mínu, að sé ein af grundvallar-
reglum vísindalegrar iðju. Án hennar væru skoðanaskipti neikvæð í eðli sínu,
og vísindin hjóm eitt.
Köln í maí 1972
Eberhard Rumbke
SVAR
I tilefni af ofangreindri athugasemd Eberhards Rurnbke vil ég taka fram,
að því fer fjarri, að ég vilji vanmeta það gagn, sem bókmenntafræði geti haft
af því að styðjast við greinar eins og sálai'- eða þjóðfélagsfræði. En hins vegar