Skírnir - 01.01.1972, Side 197
SKÍRNIR
RITDÓMAR
195
Vissulega má greina nokkurn mun á efnistökum einstakra höfunda, og virðist
mér í stórum dráttum, að skilgreininga og ritskýringa á skáldverkunum sjálf-
um gæti meir að tiltölu hjá hinum sænsku og dönsku höfundum en flestum
hinna, sem beita meir sögulegum og samanburðarbókmenntafræðilegum að-
ferðum. Beinna þjóðernislegra sjónarmiða gætir helzt hjá norska höfundinum
Philip Houm. Ég bendi t. a. m. á kafla hans um norskar bókmenntir 1830-60,
þar sem meir ber á upphrópanakenndum lofsyrðum og huglægu mati en vel
fer í verki sem þessu.
Að mínu viti hafa íslenzku höfundarnir allir komizt vel frá verki sínu, og
hefur þeim þó verið sérstakur vandi á höndum, þar sem þeir hafa miklu
minna en aðrir getað reist á grundvallarrannsóknum eða rækilegum íslenzk-
um yfirlitsritum.
Með því að íslenzkar bókmenntir eru miklu ókunnari á Norðurlöndum en
a. m. k. bókmenntir miðþjóðanna þriggja, er eðlilegt, að kynningarsjónarmiða
gæti meir hjá íslenzku höfundunum en flestum öðrum. Mætti fremur finna að
því, að nefnd séu lauslega of margir höfundar og skáldverk frá síðustu tveimur
öldum og of lítil áherzla lögð á meginlínur, en hinu, að unnt sé að hafa uppi
ásakanir um, að sleppt hafi verið marktækum eða þýðingarmiklum höfundum.
I verki sem þessu klýtur ávallt meginathyglin að beinast að forgöngumönnum
ákveðinnar bókmenntaþróunar og höfundum, sem sett hafa aðalsvip á tiltekin
skeið, en síður að sporgöngumönnum og síðalningum hverrar stefnu, nema
til komi sérstakir iistrænir verðleikar þeirra.
I heild sinni mega íslenzku kaflarnir vera unnendum íslenzkra bókmennta
fagnaðarefni. Þær hafa ekki áður verið kynntar á jafnfræðilegan og myndar-
legan hátt meðal grannþjóða okkar.
Nordens litteratur er sýnilega rit, sem er ætlað læsu fólki, og er ekki mikil
áherzla lögð á ytri glæsileik, t. a. m. eru engar myndir í ritinu. Má vera að
nokkuð þunglamalegt útlit bókanna torveldi þeim vinsældir meðal almennings.
Hér er á ferðinni traust og vandað yfirlitsrit, sem virðist henta vel til notk-
unar handa stúdentum, sem leggja stund á norrænar bókmenntir, en vera
einnig við hæfi allra fróðleiksfúsra manna.
Sveinn Skorri Höskuldsson
HANS KUHN
DASALTE ISLAND
Eugen Diederichs Verlag. Köln/Diisseldorf 1971
ÞÝzkir fræðimenn hafa löngum verið iðnir við að þýða og skýra íslenzkar
fornbókmenntir, enda þótt heldur hafi dregið úr slíkri iðju í seinni tíð. Rit-
safnið Thule hefur þó enn á ný verið gefið út, og margar þýðingarnar endur-
skoðaðar. Bók Hans Kuhns er eins konar fylgirit með þessum þýðingum. Þar
reynir höfundurinn að gefa alhliða lýsingu á þjóðlífi Islendinga á miðöldum.