Skírnir - 01.01.1972, Side 216
214
RITDÓMAR
SKÍRNIR
tökunnar. Hann sýnir fram á, að kristindómurinn hafi verið grimm og misk-
unnarlaus trú. Með kristindómnum þvarr sjálfsbjargarviðleitni fólksins og
við tók ríkisforsjá. Morð og manndráp var framvegis litið á með hræsni,
þeirri hræsni, sem fólst í, að boðorðið „þú skalt ekki mann deyða“ þýddi í
reynd „dreptu ekki óvin þinn, en dreptu óvini konungsins og guðs þíns“ (bls.
92). Kristnitalcan var því mannlega og móralskt séð stórt spor aftur á bak (bls.
98), enda lágu eingöngu stjórnmálalegar ástæður til kristnitökunnar á Is-
landi, en engar aðrar.
Sjötti kafli nefnist „Getur tíminn staðið í stað og hvað er dauðinn?" Höf-
undur sýnir þar fram á, að ekki sé gerður greinarmunur á raunverulegum og
sögulegum tíma í Islendingasögum. Allt snýst um atburðinn og óþekkt er
með öllu, að tíminn sé óháður atburðarásinni. Þar af leiðir svo, að tími í
íslendingasögum er ekki samfelldur straumur, heldur tengist tíminn atburð-
unum og er aðeins til í þeim. Kjarni atburðarásarinnar er ætíð atburðurinn,
en maðurinn sem slíkur er utan við og þátttakandi í atburðunum. Ef engir
atburðir gerast, hættir tíminn að vera til. I konungasögunum má hins vegar
sjá þess merki, að tíminn slítur sig frá atburðunum.
Tengslin við fortíðina eru afar sterk, en fortíðin er skynjuð sem röð kyn-
slóða, en ekki sem ópersónulegur tími. Viðhorfið við dauðanum verður
að skilja í þessu samhengi. Menn óttuðust ekki dauðann, en höfðu áhyggjur
vegna hefndar eftir víg og vegna fégjalda. Forlagatrúin var mönnum stuðningur
gagnvart dauðanum. Sennilega má finna rætur þessarar forlagatrúar í rúm-
myndun tímans, þ. e. tíminn var skynjaður sem nálægt og fjarlægt í rúmi
(bls. 112). Það eru því tímahugmyndir manna, sem ákveða afstöðuna gagn-
vart dauðanum. Þar eð tíminn heldur áfram að vera til eftir dauðann, er
engin ástæða til að óttast að deyja (bls. 116).
Síðasti kaflinn „Er það þess virði að snúa sér frá þessum heimi?“ er
óvenjulegur sem lok vísindaritgerðar, enda segir höfundur það sjálfur. Höf-
undur bregður sér frá heiminum og ræðir heila nótt við drauginn Þorleif á
sjöttu hæð í herbergi nokkru á Hótel Sögu. Fuli alvara liggur þó í öllu sam-
an. Sé skilningur undirritaðs réttur, þá reynir höfundur að gera sér grein fyrir,
hvernig ísland nútímans líti út í augum manns frá landnámsöld. Jafnerfitt
og er fyrir fornmanninn að skilja nútímann, er fyrir okkur að skilja fortíðina.
Fortíðin verður okkur því ætíð óskiljanleg, nema við setjum okkur inn í and-
legan heim fólks þess tíma. Áleitnari er þó sú spurning höfundar, sem lesa
má milli línanna í þessum kafla, þ. e. „Hvert stefnir Island og íslenzk menn-
ing?“ Raunar ætti sérhver íslendingur að velta þessari spurningu fyrir sér i
fullri alvöru. Kvíði höfundar er augljós, og sá kvíði ætti einnig að vera hvers
íslendings.
í lok bókarinnar eru tilvitnanir og skýringar, sem bera vott um hina djúp-
stæðu þekkingu höfundar á efni sínu. Prentun og frágangur eru til fyrir-
myndar.
Bók Steblin-Kamenskijs er mikið listaverk og raunar hreinasta snilldar-
verk, enda vafalaust árangur margra ára, ef ekki áratuga, hugleiðinga um
þessi efni. Bókin er rituð á frábærlega fögru, en þó einföldu rússnesku máli.