Skírnir - 01.01.1983, Page 38
KRISTJÁN ÁRNASON
Oresteia á íslandi
Ef við í tilefni af því að harmleikurinn Óresteía eftir Æskýlos
var fluttur á fjölum þjóðleikhúss íslendinga í vetur sem leið
lítum um öxl og hyggjum að því hve margir grískir sjónleikir
hafi sézt á sviði hér á landi og hvaða aðilar hafi staðið fyrir því,
þá telst okkur svo til að í atvinnuleikhúsunum í liöfuðborginni
hafi alls þrír harmleikir verið settir hér á svið: Antígóna (1969)
í Iðnó og Oidipús konungur (1978) og nú síðast Óresteia í Þjóð-
leikhúsinu. Menntaskólanemar og áhugamenn eiga heiðurinn
af því að fjórir skopleikir Aristófanesar (Lýsistrata, Þingkonurn-
ar, Skýin, Plútos) komust hér einnig fyrir almennings sjónir á
íslandi, en fyrrtalda verkið var síðar (1972) einnig sýnt í
Þjóðleikhúsinu og í sjónvarpi. Hvort með þessu sé vel eða
slælega að verki staðið af hálfu leikhúsanna skal ekki dæmt
um hér, enda sjálfsagt ekki gott að segja til hve mikils við
getum ætlazt af slíkum stofnunum í voru fámenna landi.
Sá háttur sem einatt er hafður á, þegar metin skal frammi-
staða okkar eða menningarlegur status, að bera okkur sam-
an við nágrannaþjóðir og þá einkum og sérílagi við „frænd-
þjóðirnar" á Norðurlöndum, mundi útheimta of mikil tölu-
leg gögn til að liann verði hafður á hér, og því skal hér
sleppt öllum tilburðum í þá átt. Hins vegar vasri ekki úr
vegi fyrir þá er láta sig leikhúsmál skipta að glöggva sig á því
út frá okkar eigin aðstæðum hvaða þörf sé á og hvaða grund-
völlur sé fyrir slíkum sýningum. Eitt af því sem einkennir leik-
listarhefð okkar er það hve hún er ung og að við eigum hér
enga klassík sem heitið gæti á okkar máli, þannig að við verðum
að leita út fyrir landsteina ef flytja á verk sem er meira en
hundrað ára gamalt eða verk sem er ritað í upphöfnum klass-