Skírnir - 01.01.1983, Blaðsíða 173
SKÍRNIR
RITDÓMAR
167
og fjórum árum síðar eða 1923 komu íslenskar þjóðsögur og ævintýri út í
Jena í þýðingu Hans og Idu Naumann. Eftir þetta varð tæplega sextíu ára
hlé á útgáfu íslenskra þjóðsagna á þýsku, en árið 1980 kom út í Reykjavík
„Sagen und Marchen aus Island". Það var Hubert Seelow sem stóð að þeirri
útgáfu. Kurt Schier gerir grein fyrir þessum útgáfum öllum, nefnir hvaðan
hver útgefandi hafi tekið þjóðsögur og ævintýri og hann nefnir einnig hvern-
ig að hverri útgáfu hafi verið staðið, metur gildi þeirra, dregur fram það
siem vel hefur verið gert hverju sinni, en bendir einnig á hitt sem ábóta-
vant hefur verið. Er mikils virði að hafa allan þann fróðleik tiltækan á ein-
um stað.
Þá er einnig mikils um vert þær athugagreinar sem fylgja hverri sögu. Er
þar gerð grein fyrir heiti sögunnar á íslensku og hvaðan hún er tekin til
þýðingar, hvort það er úr prentuðu þjóðsagnasafni eða af hljómbandi. Þá
er einnig gerð grein fyrir fyrri prentunum ef um þær er að ræða og greint
frá öðrum gerðum af sömu sögu. Einnig er sagt hver sagði söguna upphaf-
lega og skýrt frá því hvar á íslandi sögumaður var. Sé sagan tekin af hljóm-
bandi, þá er einnig gerð grein fyrir því hvernig hún sé sögð. Taka sumar
þessar athugagreinar yfir hálfar og heilar síður í bókinni og er að þeim hinn
mesti fengur.
Aðeins í einu tilviki sýndist mér upplýsinga vera vant í athugagrein. Er
það þar sem segir frá „Sögunni af Sigurði", sem Kurt Schier kallar: Die
Geschichte von Sigurd und seiner Schwester, sem er öllu meira réttnefni, því
að sagan greinir allt eins frá systur Sigurðar eins og honum sjálfum og hún
er engu síður söguhetja. Þessa sögu hefur Guðríður Finnbogadóttir sagt
inn á hljómband fyrir Hallfreð Örn Eiríksson árið 1967. Hún er kunn í öðr-
um löndum (AaTh 892) og Shakespeare hefur notað hana sem uppistöðu í
verk (Cymbeline). Hins vegar kemur ekki fram hjá Kurt Schier, að önnur
afbrigði séu til af þessari sögu á íslandi og i alþjóðlegum minnaskrám er
þess raunar ekki heldur getið. En svo vill til, að þessi saga er til í a.m.k.
einu íslensku þjóðsagnasafni. Er það íslenskar þjóðsögur og -sagnir Sigfúsar
Sigfússonar, XIII. flokkur. Æfintýri og dæmisögur, sem út kom í Reykjavík
1958, bls. 83—92. Sagan heitir hjá Sigfúsi Veltihnöttur gæfunnar og segir
að Brynhildur Haraldsdóttir í Firði í Seyðisfirði hafi skráð hana eftir minni
móður sinnar. En útgáfan hjá Sigfúsi er sagt að sé skráð eftir þvi handriti
árið 1921.
Hjá Sigfúsi Sigfússyni eru meginminni öll hin sömu og í sögu Guðríðar.
Nokkur munur er þó á þessum tveimur gerðum og verður hér drepið á helstu
atriði, sem að vísu eru öll minni háttar. Þannig er í upphafinu hjá Sigfúsi
ekki gert ráð fyrir því að systirin, sem heitir María og bróðirinn Jóhann, sé
honum fremri í líkamlegu atgervi og riddaraíþróttum. María er hins vegar
„meybarn svo fagurt, að mikið bar af sveininum". María er þó krýnd til
ríkisins með bróður sínum „þvi að hún mun reynast þér vitrari", segir
faðir þeirra. í þessari gerð er það með öðrum orðum andlega atgervið og
fegurðin sem systirin hefur fram yfir bróður sinn, en í Guðríðar gerð var