Skírnir - 01.01.1983, Page 40
SKÍRNIR
38 KRISTJÁN ÁRNASON
En nú þarf það ekki að vera svo að það sem riæst okkur blasir
sé allur veruleikinn, og vera kann að eitthvað sé í okkur sem
teygir rætur sínar langt út fyrir stund og stað og að þau skáld-
verk sem við teljum klassísk birti okkur einmitt dýpstu og al-
mennustu þætti mannlífsins og þar með okkar eigin lífs. Og
svo vill til að þau forngrísku leikhúsverk sem liér hafa verið
sýnd og nefnd voru í upphafi hafa furðuvel megnað að hitta í
mark og skírskota beint til þess sem við höfum í kringum okkur
og draga fram í dagsljósið þau öfl sem ráða lífi manna nú sem
fyrr, ef grannt er skoðað. Þannig sýnir okkur Antígóna í eitt
skipti fyrir öll árekstur þess veraldlega valds, sem kann sér engin
takmörk í hentistefnu sinni, við þau gildi sem einstaklingar
setja sér í lífi sínu og líta á sem varanleg. Og Oidípús konungur
birtir okkur jafnvel enn skýrar fánýti mannlegrar viðleitni en
þasr bókmenntir og fræði okkar aldar sem kenndar eru við fárán-
leika eða tilvistarspeki, og einnig þá einurð sem maðurinn þarf
til að horfast í augu við sannleikann um eigin aðstæður og
firra sig öllum þægilegum blekkingum. Og vart gat bætzt
skeleggari liðsmaður en Lýsistrata Aristófanesar þeim sem berj-
ast gegn stríðsæsingaröflum og vilja auka ítök hagsýnna hús-
mæðra í þjóðmálum á okkar dögum.
En þegar nú hið nýkomna verk, Óresteia, er annars vegar, þá
virðist við fyrstu sýn nokkuð annað uppi á teningnum og tengsl
þess við nútímann ekki liggja í augum uppi og það jafnvel
vera heldur en ekki hjáróma við ýmislegt það sem við teljum
öðru fremur nútímalegt. Látum vera að í verkinu séu viðliorf
ríkjandi sem við hér á landi gætum einkennt með orðinu alda-
mótaleg og koma fram í trú á framþróun mannkyns til þroska,
sátta og samlyndis undir æðri handleiðslu, á „gróandi þjóðlíf
og þverrandi tár“, því slík viðhorf gera höfundinn a.m.k. ekki
fjarlægari okkur en þjóðskáldin okkar á nítjándu öld. öllu
alvarlegra hlýtur að teljast að Æskýlos gengur beinlínis í ber-
högg við þær hugmyndir um jafnræði karla og kvenna sem hver
boðar nú í kapp við annan um þessar mundir, þar sem hann
fer ekki einungis afar niðrandi orðum um kvenkynið og „ótamd-
ar fýsnir í eðli kvenna" heldur boðar óskoraðan föðurrétt og
afneitar eign móður á afkvæmi sínu með skringilegum líffræði-