Skírnir - 01.01.1983, Page 42
SKÍRNIR
40 KRISTJÁN ÁRNASON
Loks kom hinn þriðji með frelsi og frið
í fangl — eða skapadóm?
Ó, hvenær mun fornum heiftum linna
og hamingjudagur renna?
En hér er ekki um kynslóðir að ræða í venjulegum skilningi,
heldur má sjá í þeim ákveðin tímaskeið í sögu mannkynsins
sem ná frá grárri forneskju til þess tíma er Æskýlos sjálfur lifir
á og er uppgangstími aþenskrar borgarmenningar. Þannig er
allt atferli Atreifs æði villimannslegt og endurspeglar tíma blóð-
ugra hefnda, barnamorða og mannfórna, og syni hans Agamemn-
on kippir að vissu leyti í kynið þegar hann fórnar dóttur sinni
Ífígeneiu. En með Órestesi er kviknuð sú glæta siðferðis sem
vekur honum hrylling á eigin gerðum og fær hann til að leggja
mál sitt í hendur óvilhallra guða og manna og hlíta dómi þeirra.
Guðirnir og samband manna við þá taka einnig breytingum
á þessu skeiði, þannig að bilið milli guða og manna minnkar.
Þeir birtast í fyrstu sem blóðþyrstir og fjarlægir og vilji þeirra
er ráðinn með hjálp spádómslistar, en er á líður komast þeir æ
meir í bland við mennina, er ljósguðinn Apollon og vizku-
gyðjan Aþena spígspora meðal þeirra og selja vald sitt í hendur
manna í stað þess að ráðskast einungis með þá. Enn greinileg-
ar kemur þessi þróun fram í því er Refsinornirnar umbreytast í
Hollvættir.
Æskýlos lætur sér ekki nægja að lýsa á ytra borði þeim at-
burðum sem verða á þessari vegferð heldur túlkar þá einatt í
kórsöngvum verksins og eygir að baki þeirra ákveðið löggengi
sem hann gerir grein fyrir á heimspekilegan hátt. Hér er um að
ræða gagnvirkt eða díalektískt ferli þar sem ein misgjörð kallar
fram aðra af hálfu þess sem fyrir henni varð, og sektin sem gjald-
ast skal fyrir færist frá manni til manns, og mundi sú keðja
vera órjúfandi, ef ekki spryttu upp úr þeim þjáningum sem
þessu fylgja sú vizka og skynsemi sem ein megnar að leiða til
sátta hin andstæðu og stríðandi öfl og hefja þau upp til nýs
hlutverks. Þau mannvíg sem mynda megináfanga þessarar þró-
unar, barnamorð, dótturfórn, makavíg og móðurmorð, vega
einungis misþungt vegna þess ólíka hugarfars sem er á bak við
þau, allt frá blindu hatri og hefndarþorsta til þess er Órestes