Skírnir - 01.01.1983, Page 49
SKÍRNIR
ÓRESTEIA Á ÍSLANDI
47
allt ha£i þjónað verkinu sem slíku, allra sízt þau stílbrot sem
áður var minnzt á. Líkanið af hinni undurfögru mynd af fæð-
ingu Afródítu, sem var látin prýða hallarvegg konunganna í
Argos, þótt það hafi glatt augað, var ekki beint til þess fallið
að seiða fram það andrúmsloft sem hæfir upphafi leiksins eða
þjóna atriðinu þar sem varðmaðurinn bíður einn úti í stjörnu-
bjartri nóttinni. Höll Atreifs var síður en svo neitt gleðihús, og
þeir andar er þar voru á sveimi báru allt annan svip en hin
brosmilda gyðja.
Þegar á allt er litið verður sýning Þjóðleikhússins á Óresteiu
að teljast því til sæmdarauka og þótt það væri ekki fyrir annað
en að liafa stuðlað að þýðingu verksins landslýð til varanlegrar
eignarábók. Vonandi telja þó leikhúsyfirvöld ekki að með henni
og tveim áðurnefndum sýningum sé nóg að gert í flutningi
grískra harmleikja hér á landi. Það er að vísu gömul speki að
allt sé þegar þrennt er, en henni má líka beita sem röksemd fyr-
ir því að enn sé nokkuð vangert: harmleikjaskáld forngrísk eru
vanalega nefnd þrjú, og af þeim hefur hið síðastnefnda, Evrí-
pídes, ekki enn verið kynntur hér á leiksviði, þótt hann sé sá
meðal harmleikjaskáldanna sem nefna mætti, eins og Jan Kott
hefur nefnt Shakespeare, samtímamann okkar. í hans hlut féll
nefnilega að horfa á hnignun og upplausn þeirrar aþensku
borgríkismenningar sem Æskýlos lofsyngur svo mjög í Óresteiu,
og taka að sér það Kassöndruhlutverk að mæla varnaðarorð fyrir
daufum eyrum.