Skírnir - 01.01.1983, Page 71
65
SKÍRNIR ÍSLENSKT SALTARABLAÐ í SVIÞJÓÐ
stafurinn, sterkgulur á litinn og afmarkaður með dökkum út-
línum, er einfaldur að allri gerð. Leggur hans klofnar á liægri
hlið og í efra og neðra horni vinstra megin þar sem hann endar
í þrískiptum laufblöðum. Þverbandið í stafnum er rautt og gult
að lit. Stafurinn er settur á rétthyrndan, blámálaðan grunn
sem skreyttur er hvítu laufskrauti. Ut frá stafreitnum liggja
greinar eftir efri spássíu og niður ytri spássíu. Teinungar þess-
ir eru skreyttir greinastúfum, smálaufum og kúlum og kvíslast
síðan í smágreinar sem enda í laufblöðum. Ofan á teinunginum
efst á síðunni situr fugl. Myndin inni í stafnum er af heilagri
þrenningu, nánar tiltekið náðarstólnum. Bakgrunnur myndar-
innar er grænn, skreyttur rauðu deplamunstri. Guð faðir situr
í sessubúnu sæti og hvílir þvertré krossins í olnbogabótum hans.
Hann réttir upp báðar hendur og blessar með þeirri liægri.
Guð faðir er klæddur blágrænum kyrtli og rauðgulri skikkju
með grænu fóðri og ber dökkbláan, krossmerktan geislabaug.
Kristur á krossinum er með lukt augu. Lendaklæði hans er
ljósblátt og hann ber dökkbláan, krossmerktan geislabaug líkt
og guð faðir. Ofan við liöfuð guðs föður er heilagur andi í
dúfulíki með örlítinn, krossmerktan geislabaug, rauðan að lit.
Sól og máni eru sitt hvorum megin við höfuð guðs föður og ör-
smá ský á boglegg stafsins ofan og neðan við þrenningarmynd-
ina.
Lýsing saltarablaðsins er prýðisvel gerð og einkennist af skýr-
leik og góðu samræmi. Einfaldur og skær stafurinn sker sig
úr skreyttum bakgrunninum og marglitri myndinni. Samt er
þrenningarmyndin haganlega felld að stafleggnum. Hásæti guðs
föður stendur aftan við staflegginn á grunni rétthyrnda reitsins.
Sjálfur situr guð faðir framan við þverband stafsins og fætur
hans hvíla á stafboganum að neðan. Örsmá skýin efst og neðst
á stafleggnum tengja síðan myndhlutana saman í órofna heild.
Listamaðurinn hefur leitast við að gera mynd guðs í stafnum
sem mikilfenglegasta. Hásæti guðs föður er breitt, og hann er
klæddur mikilli skikkju og geislabaugur hans er stór. Hann snýr
beint fram og réttir blessandi upp báðar hendur, en stelling
þessi er í senn einföld og tignarleg. Mynd Krists á krossinum
er lítil og fínleg samanborið við guð föður og skapast þannig