Skírnir - 01.01.1983, Side 82
76 LÝÐUR BJÖRNSSON SKIRNIR
að tylft galdrakvenna eða vætta undir forsæti Óðins hafi ákveðið
úrslit Brjánsbardaga með galdri.12 Galdragoðið eineygða hefur
því staldrað víðar við en hjá þeim Kormlöðu og Bróður víkingi
í Dyflinni dagana fyrir Brjánsbardaga og meðan orustan stóð.
Unnt var að magna liluti ekki síður en vopn. Þuríður, fóstra
Þorbjörns önguls, reist rúnir á rótarhnyðju og rauð í blóði sínu,
gekk síðan aftur á bak og andsælis umhverfis hnyðjuna og gól
galdra. Hnyðju þessa sendi kerling til Drangeyjar, og fór hnyðj-
an móti veðri frá ströndinni og ekki vonum seinna. Af viðskipt-
um við hana hlaut Grettir það sár, sem mjög dró úr þreki hans.13
Allt til síðustu aldamóta virðist því hafa verið trúað, að unnt
væri að magna hluti og senda þá um langan veg á sjó. Hval-
veiðiskipið Jarlinn fórst við ísland fyrri hluta árs 1897. Næsta
sumar fyrir hafði skipstjóri þess sýnt Hornstrendingum yfirgang
á hvalfjöru. Tveir aldraðir Hornstrendingar eiga til endurgjalds
að hafa magnað tvö rif úr hvalnum og sent þau í veg fyrir Jarl-
inn, og grönduðu þau skipinu.14
Allvíða í íslenskum ævintýrum er getið um hnýti og jafnvel
eldskörunga, sem vísuðu mönnum veg. Má þessu til stuðnings
benda á ævintýrin Sagan af Hans karlssyni, Sagan af Línusi
kongssyni, Sigurður kongsson og Helga karlsdóttir, Valur vesæli
og Rósamunda, Hundurinn Svartur og Hesturinn Gullskór og
sverðið Dynfjöður í safni Jóns Árnasonar.15 Minni þetta kemur
fram í hinum elztu skrásettu ævintýrum, t.d. Himinbjargar sögu,
og kynni því að liafa verið þekkt frá fomu fari.16
Töfragripir af framangreindu tagi eru alþekktir í norskum
ævintýrum. Hnoðans er getið í ævintýrinu Gullslottet som hang
i luften, og skips sem sigldi hvert sem óskað var, í sögunum
Askeladden og de gode hjelperne og Fugl Dam. Getið er um
sverð, sem barðist sjálft, t.d. í sögunni Fiskersónnene. Svipaðs
fyrirburðar er getið í Njálu, er vopn víkinga börðust og sóttu
að eigendum sínum að næturlagi nokkru fyrir Brjánsbardaga.
Öxar, sem hjó sjálf, og reku, sem mokaði, er getið í sögunni Per,
Pál og Espen askeladd, og sagan Kvernen som stár og maler
pá havsens bunn geymir Gróttaminnið. íslenzk ævintýri eigna
hlutum einnig viðlíka eiginleika. Pállinn og rekan í sögunni
Karlssonur, Lítill, Trítill og fuglarnir stungu og mokuðu og