Skírnir - 01.01.1983, Page 99
SKÍRNIR MÁLRÆKT, BÓKMENNTIR OG FJÖLMIÐLAR 93
þátt máls sem lítt eða ekkert hefur verið ræddur: setningafræði-
legt hlutverk orðasmíðar eins og samsetningar og afleiðslu.
En mennskt mál er ekki aðeins tengiliður eða brú milli sam-
tímamanna. Lestrar- og skriftarkunnátta hefur gert úr því brú
frá fortíð til nútíðar. Sameiginlegt mál nútímamanna og fyrri
tíðar opnar okkur sýn til þeirra með allt öðrum og skýrari
hætti en ef einvörðungu væri um að ræða endursögn með öðru
málfari en þeir notuðu til að skrá hugarheim sinn. Á sama hátt
á málið að verða brú frá okkur til framtíðarinnar, þótt nútíma-
tækni hafi einnig fært okkur aðrar og fjölbreyttari leiðir til að
sýna kynslóðum framtíðarinnar betur inn í heim nútímans.
Málvernd er sá þáttur málræktar sem drýgstan má telja til að
varðveita skilning nútíðar og framtíðar á því sem þegar hefur
verið skráð, hvort sem var í upphafi ritaldar á íslandi eða eftir
miðja 20. öld, því að málvernd stuðlar að því að framtíðin skilji
þetta gamla mál þótt aldir líði. Og það verður varla betur gert
en með því að varðveita það mál sem á slíkum rituðum textum
er, varðveita það þannig að það sé tiltækt framtíðinni bæði til
að skilja það og nota.
Þessi varðveisluskylda á við alla þætti máls, orðaforða, merk-
ingar, setningafræði, og framburð. (Hér er rétt að minna á að
setningafræði á við langtum fleira en greiningu í setningar-
hluta, frumlag, andlag, einkunn og þvílíkt. Hún á ekki síður
við venjureglur um notkun hverrar einstakrar beygingarmynd-
ar. Það er til að mynda setningafræðileg regla í íslensku að and-
lag sagnar verður að vera í aukafalli, sumar sagnir taka með sér
aðrar sagnir í nafnhætti án þess að nafnháttarmerki komi á
undan og svo framvegis.)
Þótt framburðarmunur sé nútímamönnum ekki hemill á að
skilja ritaðan 13. aldar texta íslenskan, verður varðveisla fram-
burðar að vera með í þessari upptalningu vegna þess að of mikl-
ar framburðarbreytingar draga mjög sennilega með sér ritmáls-
breytingar síðar. — Auk þess skulum við vona að afkomendur
okkar eftir þúsund ár eigi þess kost að sjá og heyra íslendinga
frá síðari hluta 20. aldar. — Að sjálfsögðu eru einnig önnur rök
fyrir varðveislu framburðar, rök skýrleika og almennrar aðgrein-
ingar.