Skírnir - 01.01.1983, Side 113
SKÍRNIR TVEIR HÖFUNDAR EGILS SÖGU 107
II. EFNISATRIÐI
Þegar „ok er —“ tengingar verða ráðandi, erum við komin að
57. kafla Egils sögu. Maður skyldi því halda, að þar skipti alger-
lega um efni. En þá rekum við okkur á, að Egill hafði enn ekki
lokið reikningsskilum sínum við Berg-Önund. Að vísu kvatt
Arinbjörn vin sinn, sbr. bls. 164 (ÍF):
Arinbjörn var með konungi í leiðangri, en áðr hann fór heiman, þá lagði
Egill skipi sínu til hafs ok helt í útver þat, er Vitar heita, út frá Alda. Þat
er komit af þjóðleið; þar váru fiskimenn, ok var þar gott at spyrja tíðendi; þá
spurði hann, at konungr hafði gjört hann útlaga.
Þá kemur merkileg setning í Eglu: „Eitt kveld sigldu þeir Egill
út á haf, en fiskimenn reru þá inn til lands, þeir er til njósnar
höfðu settir verit um farar þeira Egils“ (165). Það virðist vera
hálfklaufalegt og ólíkt rökfestu í fyrri hluta að bera njósnir,
eftir að Egill sigldi á haf út. En Egill sneri við og fellir Berg-
Önund og síðar Rögnvald konungsson, sem ef til vill er ósann-
söguleg persóna, bara nefndur hér.
Sem sagt, efnislega hefur sagan ekki skilist við þá Egil og Berg-
Önund eða lokið þeim þætti. En þetta er bara ein hlið málsins.
56. kafli endar á skilnaði Egils og Arinbjarnar, eftir að Arin-
björn hafði fengið „Agli skip þat, er vel var haffæranda" — og
vissi ekki betur en Egill héldi beint til Islands. 57. kafli hefst
á setningunni: „Haraldr inn hárfagri setti sonu sína til ríkis í
Noregi, —“ Eins og sjá má, eru þar greinileg efnisskil. Hvernig
kemur þetta saman og lieim við áframhaldandi þátt Egils og
Berg-Önundar?
Sannast sagna fara frá og með 57. kafla undarlegir hlutir að
gerast. Þá vaknar spurningin: Er frásögnin til söguloka ótrú-
legri en fram að þessum kafla? Gerum stutt yfirlit. Forsagan þar
til Egill kemur við sögu sína er allt að því þriðjungur bókar,
þegar tillit er tekið til kvæðanna. Það er saga Kveldúlfs og til-
koma Hildiríðarsona. Eðli Kveldúlfs, hamremi hans, er næstum
sögulega sannað við samanburð annarra sagna. Þórólfur sonur
hans fellur á oflæti sínu í skiptum sínum við Harald hárfagra.
Saga Hildiríðarsona er vel skrifuð sem kunnugt er og hafa þeir
sér nokkuð til málsbóta. Afrek Egils sem þrevetra barns er væg-