Skírnir - 01.01.1983, Side 140
134
SVERRIR TOMASSON
SKÍRNIR
sinnar. Játararnir eru einlægt prýddir höfuðkostunum fjórum:
speki, styrk, réttlæti og hófsemi, og systkinin þrjú: trú, von og
kærleikur yfirgefa þá aldrei. Það er þó kraftur hins helga manns
sem er kjarni frásagnarinnar. Vegna verðleika játarans veitir
drottinn honum það að blindir fá sýn, lamaðir rísa upp af
sjúkrabeði og ganga. Þetta andlega atgervi birtir helgi hans þeg-
ar í lifanda lífi, kraftaverkin sem gerast að honum Iátnum
(miracula post mortem) sanna hana og hvorttveggja sýnir dýr-
linginn sem eftirlíkjara Krists. Þær andstæður helgisagnagerð-
anna tveggja sem ég hef lýst hér að framan leiða frásögnina
að einni lausn: dauða dýrlingsins og hvernig hann lifir áfram í
óteljanlegum jarteinum.
Áhrif helgisagnaritunar á veraldlega sagnagerð virðast eink-
um hafa verið varanlegust á persónusköpun hetjusagna og kon-
ungsímynd miðalda, enda þótt boðskapur þeirra og siðferðis-
hugmyndir hafi sett svip sinn á flestar bókmenntagreinir á
miðöldum. Helgisagnaritarar litu á sig sem sagnfræðinga (histo-
rici), en munurinn á veraldlegri sagnaritun og helgisagnaritun
liggur í skilningi þeirra á veruleikanum. Á yfirborðinu koma að-
ferðir beggjasagnagerðaeinsfram: tilvísanir til heimilda eru með
sama hætti, stuðst er við tímaröð (ordo naturalis) við skráningu
atburða. Ritningin var fyrirmynd helgisagnaritarans. Hann leit
á sig sem sporgöngumann guðspjallaskáldanna fjögurra, frásögn
þeirra var honum veruleiki og líf hins helga manns var fram-
hald þess veruleika á jörðu. Helgisagnaritarinn hirðir lítt um
að skrá veraldlegar staðreyndir; innra líf dýrlingsins og boð-
skapurinn skiptir hann mestu máli og enginn skyldi leggja
raunspekilegan mælikvarða á helgisögur miðalda. Á hinn bóg-
inn var veraldleg sagnaritun oft undir miklum áhrifum frá
lífsskoðun guðfræðinga, einkum á fyrri hluta miðalda. Þjóð-
arsaga var þá skrifuð eins og hún væri endurtekning á sögu
Ísraelíta og sami maðurinn skrifaði stundum hvorartveggja
bókmenntagreinir sem báðar áttu að ala upp áheyrendur, hvor
á sinn máta.
Það kemur fyrir að svo litlar heimildir eru til um ævi dýr-
lingsins, þegar skrá þarf sögu hans, að skrásetjarinn neyðist til
að yrkja í eyðurnar. Þetta gerir hann með fulltingi guðs og heil-