Skírnir - 01.01.1983, Síða 157
SKÍRNIR
HELGISOGUR
151
6.
í bók einni frá ofanverðri 11. öld Ars lectoria eftir franskan
klerk, Aimeric að nafni, er latnesku skólalesefni skipað niður í
gæðaflokka á sama hátt og góðmálmum. í neðsta flokki, tin-
flokkinum, eru t.d. Disticha Catonis, ástráð Catós (Hugsvinns-
mál) og dæmisögur Esóps.40 Hermann Pálsson hyggur í bók
sinni, Úr hugmyndaheimi Hrafnkels sögu og Grettlu, að ofan-
greindar skólabækur hafi haft varanleg áhrif á hugmyndaheim
íslenskra sagnamanna á miðöldum. Þessi rit eru byrjendabæk-
ur í latínu, lesnar um leið og málfræði Dónats; hlutverk þeirra
var ekki ósvipað latneskum lestrarbókum rektoranna, Jóns Þor-
kelssonar og Kristins Ármannssonar, sem reyndar hafa að geyma
bæði spakmæli og dæmisögur Esóps. Það er hugsanlegt að skóla-
fólk á miðöldum, sem var aðallega sveinar, hafi tileinkað sér
eitthvað af þeirri lífsspeki sem ástráð Catós hafa haft að geyma
og ugglaust hafa dæmisögur Esóps haft einhver áhrif, þótt þeirra
verði ekki beinlínis vart fyrr en á 15. öld í formála Adonias
sögu.41 Einmitt í þessum formála er latnesku spakmæli (sen-
tentiae) og dæmisögum beitt á þann hátt sem ætla má að algengt
hafi verið í predikunum um þær mundir.
‘Prestr [skal kunna] tíðaskipun alla ok látínu svó at hann
viti hvórt hann kveðr kallmann eðr ko[nu]’, segir í handriti
einu frá 15. öld.42 Það mætti ætla að áhrif spakmæla og dæmi-
sagna hafi einkum náð til slíkra presta, sem síðan þurftu að
beita kunnáttu sinni á móðurmálinu. En hversu mikil eru áhrif
ofangreindra verka á norrænar bókmenntir? Eru þau mælan-
leg? Reyndar mætti orða þessar spurningar almennar: hve
mikil áhrif hafa námsbækur á bókmenntir yfirleitt? Er sá hug-
myndaforði sem nemendur afla sér þaðan ævarandi uppspretta
lifsskoðunar og visku? Ég hygg að fæstir rithöfundar nú á dög-
um mundu svara þessari spurningu játandi, enda þótt skólinn
sjálfur, reynslutíð unglingsins þar, hafi verið viðfangsefni þeirra
einhvern tíma á starfsævinni. En var þessu öðruvísi farið á mið-
öldum? Það má að vísu gera ráð fyrir að einstaka setningar byrj-
endabóka hafi e.t.v. loðað lengur í minni manna, þar sem fátt
var það sem glapti hug og sýn. En hvernig getum við nú metið
þessi áhrif? Er það unnt?