Skírnir - 01.01.1986, Blaðsíða 96
92
SIGURÐUR NORDAL
SKÍRNIR
6) Og ef ég les yngstu fornsögurnar, ýkjukenndar norrænar
víkingasögur og suðrænar riddarasögur, bókmenntir, sem gengn-
ar eru í barndóm, - á ég að segja ykkur, hvert mér verður hugsað?
Þær minna mig á fyrstu barnabrek þjóðflutninganna, á Kimbra og
Teutóna, sem renndu sér á skjöldum niður jökla Alpafjalla,
hamslausir af vígamóði, drukknir af þorsta í sól og sunnanblæ.
Mér finnst þessar íslenzku sögur vera síðustu þjóðflutningarnir,
háðir af þjóð, sem endurlifði í ímyndun sinni vonir og vonbrigði
þjóðstofnsins, allt frá grárri forneskju.
Nú margt af þessu er svo sem almennt viðurkennt af fræði-
mönnum, jafnvel þeim, sem eru ekki þröngsýnir af einhæfu sýsli
við germönsk, norræn eða íslenzk fræði, - sumt ef til vill skýrast
séð einmitt af þeim. Gilbert Murray, einn frábærasti og listfeng-
asti könnuður og þýðandi grískra fornmennta, jafnar íslenzkum
bókmenntum að frumleik og snilli við grískar og hebreskar. Og
nýlega hef ég lesið í riti mjög stórbrotins og víðfaðma sagnaritara,
Arnolds Toynbee’s, að íslendingar hafi á 10. öld lyft skandínav-
ískri menningu á hæsta stig hennar - annars hafi sú menning beð-
ið fullan ósigur, og líka á íslandi hafi kristnitakan bráðlega leitt til
andlegs niðurdreps („spiritual devastation“).
En hvað þá um fátækt íslendinga, einangrun þeirra, sem út-
lendingum verður svo tíðrætt um, friðaröldina, sem Hertzberg
taldi svo frjósama, hina einræktuðu víkingamenningu þeirra, sem
Axel Olrik segir, að öldur miðaldamenningar hafi ekki náð til
nema eins og magnlítið gjálfur við strönd, - hvað um auðinn og
ekluna, sem ég valdi mér að texta og hef gleymt að nefna síðan?
Ég hef verið að tala um þau allan tímann. Þau koma fram í öllum
þeim skiptum þjóða, sem ég hef drepið á. Við höfum engin kynni
af germanskri menningu nema auðgaðri af suðrænni með ein-
hverju móti. Allar hugmyndir, sem menn reyna að gera sér um
„hreina“ germanska menningu, hljóta alltaf að verða loftkastal-
ar. En á hinn bóginn má, eftir þeim ávöxtum að dæma, sem við
þekkjum, harma það mjög, að suðræn menning skyldi vera svo
harðskiptin og bráðlát að höggva Germana andlega á hæli og tám.
Eklan kemur fram í því, að þeir fengu ekki að þiggja án þess að
glata svo miklu um leið. Dæmi íslendinga varpar þarna ljósi á alla