Skírnir - 01.01.1986, Blaðsíða 273
SKÍRNIR UM RÉTTLÆTISHUGTÖK HAYEKS OG NOZICKS
269
arra, er ekki ranglátur, heldur broslegur. í þriðja lagi geta sann-
indi beinlínis falið í sér rangindi. Sá, sem segir misheppnuðum
snillingi að tilefnislausu sannleikann um hann, vinnur ranglátt
verk, þótt hann segi satt. Hver kærir sig heldur um það, að upp-
lýsingar um kynlíf hans séu skráðar í venjuleg uppsláttarrit?83
Eða að sakavottorð hans sé birt í blöðunum? Gleymum því ekki,
að Ibsen samdi Villiöndina um mann, sem þoldi ekki að horfast í
augu við sannleikann um sjálfan sig.
Veigamestu rökin gegn sannmæliskenningu þeirra Wollastons
og Þorsteins Gylfasonar eru þó þau, sem Hume benti á forðum,
að við verðum að geta gripið til einhverrar sjálfstæðrar kenningar
um réttlæti til þess að geta sagt, að ósatt verk í skilningi þeirra
Wollastons og Þorsteins sé um leið ranglátt.84 Þetta er sennilega
best að skýra með dæmi, sem Þorsteinn tekur sjálfur. Hann segir
á bls. 213, að kaupmaður í Jóhannesarborg megi vísa manni út úr
búðinni sinni fyrir ölvun, en hann vinni hins vegar ranglátt verk,
ef hann vísar honum út úr henni fyrir það eitt, að hann sé svartur
á hörund. En hvers vegna skiptir sú staðreynd um manninn, að
hann er ölvaður, máli við mat á verki kaupmannsins, en ekki hin,
að hann er svartur? Til þess að geta svarað spurningunni verðum
við að hafa einhverja siðferðilega kenningu, til dæmis um það, að
fólk hafi rétt til þess, að því sé ekki opinberlega sýnd lítilsvirðing
vegna litarháttar síns, og hana getum við ekki leitt af staðreynd-
unum einum. Kjarni málsins er sá, sem Hume brýndi fyrir okkur,
að staðreyndir og siðferðilegt mat eru sitt hvað (þótt sú ályktun sé
óleyfileg, eins og við höfum áður vikið að, að siðferðilegt mat sé
geðþóttaefni).85
Þriðja kenningin, sem mér sýnist, að Þorsteinn rugli saman við
hinar tvær, er sú, að það sé réttlætismál, að menn fái að njóta sín
og ná fullum þroska. Þorsteinn vitnar í því viðfangi til þýska
frjálshyggjumannsins Wilhelm von Humboldts og gerir hin frægu
orð hans að sínum í ritgerðarlok,86 „að um mannlegan þroska í
ýtrasta margbreytileika sé meira vert en alla hluti aðra“. Þessi
gamla hugsjón frjálshyggjumanna er svo sannarlega fögur og há-
leit. En að mörgu er að hyggja. Sá sannleikur um hvert
mannsbarn, sem á að fá að koma fram samkvæmt þessari
hugsjón, er annars eðlis en sá, sem Þorsteinn hafði áður skírskot-