Skírnir - 01.01.1986, Blaðsíða 344
340
ÖRN ÓLAFSSON
SKÍRNIR
Þetta atriði virðist mér vera hápunktur sögunnar, sem áður segir, sund í
æðra veldi og hún er þá ekki síst bersöglismál eða ástarsaga homma. Hún er
það miklu fremur en Hinsegin sögur, sem Guðbergur sendi frá sér ári áður,
þar var einkum dvalist við umtal um homma, ekki við tilfinningar þeirra. Er
það ekki þetta sem gefur tilvitnaðri náttúrulýsingu (bls. 49-50) lit og glóð, að
fegurðin sé öðruvísi, hinsegin, ef svo mætti segja. Þannig skildi ég altént fyrstu
lýsingu bókarinnar af því tagi, um þönglana (bls. 3):
Þar sat hann stundum á steini innan um þangið og naut þess að sjá
hvernig langir, brúnir og iðandi þönglar luktust um hann. Við það
ímyndaði hann sér að þangið væri hár en einkum hendur sem gældu við
líkama hans. Að sjálfsögðu fann hann enga snertingu vegna þess að
hann var í búningi. Þrátt fyrir hættuna brá hann sér samt stundum æst-
ur úr búningnum og leyfði þangi og þönglum að strjúka sig. Þangið virt-
ist æsast einhvern veginn við nekt hans, þá Iokaði hann augunum og
naut þeirrar tilfinningar að vera í tengslum við alheiminn, hafið og
gróður djúpanna.
Gildi þessarar lýsingar eins og fleiri, lægi þá ekki síst í því, að vera liður í
kerfi, sem liggur undir yfirborði bókarinnar, og gefur henni aukna merkingu.
En rétt er að nefna að ég hefi borið þessa lýsingu - þar sem ég skil þönglana
sem reðurtákn - undir þá sem hún gæti þá helst höfðað til, konur og homma,
og fannst þeim hún ekkert sérstakt. Hún er það heldur ekki í sjálfu sér, heldur
sem hluti af heild.
Þrátt fyrir að nokkur feluleikur sé í þessari bók, þá er hún tvímælalaust vitn-
isburður um þá frjálsræðisþróun sem orðið hefur undanfarin ár, ég efast um
að hún hefði getið orðið til fyrir tíu-tuttugu árum. Skiptir þá efni sögunnar
máli, kann einhver að spyrja, er ekki sama að hverjum ástin beinist, þarf að
sýna það beint fremur en óbeint? Svarið er, að efni skáldverks skiptir máli að
því leyti, að það höfði til skáldsins. Því er slæmt að bannhelgi hvíli á því sem
höfðar sterklega til allmargra, því það gerir bókmenntirnar snauðari, lífið
grárra.
Mér finnst Froskmaðurinn ein af bestu bókum Guðbergs, og þá vegna þess-
ara andstæðna sem í henni birtast og gera hana ríkulegri en ýmsar aðrar. Hún
er gefin út undir nafni einnar sögupersónu Guðbergs úr Hermann og Dídí og
fleiri bókum; Hermann Másson, og kann ég ekki að skýra það, en hefi fyrir
satt, að það hafi ekki verið hugsað sem dulnefni, enda er æskumynd af Guð-
bergi aftan á bókinni.
Örn Ólafsson.